Fimmtudaginn 12.

Fimmtudaginn 12. júní 2014 hlaut Mustafa Dzhemílev, talsmaður Krím-tatara, verðlaun Evrópuvettvangs minningar og samvisku í Kampa-listasafninu í Prag að mér viðstöddum, en íslenskt rannsóknarsetur, sem ég veiti fræðilega forstöðu, er aðili að Evrópuvettvangnum. Verðlaunin hlaut Dzhemílev fyrir þrotlausa viðleitni til að rétta hlut Krím-tatara. Þjóð hans er tyrknesk að uppruna og myndaðist á 15.-18. öld í múslimaríki á Krímskaga, sem var skattland Tyrkjasoldáns. Talar hún tyrkneska tungu. Rússakeisari hertók Krímskaga 1783, og flýðu margir tatarar þá til Tyrkjaveldis. Eftir valdarán kommúnista í Rússlandi 1917 sættu tatarar ofsóknum, og er talið, að um helmingur þeirra hafi fallið eða verið fluttur burt árin 1917-1933.

Eftir stríð voru Krím-tatarar sakaðir um að hafa unnið með þýska hernámsliðinu og allir fluttir burt, yfir 200 þúsund manns, samkvæmt skipun Stalíns 18. maí 1844, ýmist í þrælkunarbúðir eða til landbúnaðarstarfa á gresjum Úzbekístans. Ráðstjórnin í Moskvu viðurkenndi opinberlega 1967, að sakir á hendur Krím-tatörum væru tilhæfulausar, og eftir það hafa þeir smám saman snúið aftur til heimahaganna, og búa þar nú alls um 250 þúsund manns. Hefur þeim gengið erfiðlega að fá aftur jarðir þær, sem teknar voru af þeim við herleiðinguna.

Mustafa Dzhemílev (Cemilev á tungu feðra sinna) fæddist á Krím 1943, ári fyrir herleiðinguna, og ólst upp í Úsbekistan. Hann hóf ungur baráttu fyrir réttindum tatara og var sex sinnum handtekinn á dögum kommúnistastjórnarinnar í Ráðstjórnarríkjunum. Fór hann eitt sinn í langt hungurverkfall. Morgunblaðið minntist nokkrum sinnum á Dzhemílev árin 1976-1986, og í leiðara Morgunblaðsins 26. ágúst 1987 sagði: „Tatarar í Sovétríkjunum eiga fullan rétt á að fá að flytjast aftur til sinna fornu heimkynna á Krím-skaga.“

Dzhemílev fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Krím 1989 og var kjörinn leiðtogi Krím-tatara. Lagði hann áherslu á, að í baráttu þeirra yrði ekki beitt ofbeldi. Eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna sat Dzhemílev á þingi Úkraínu, en Kremlverjar höfðu fært Úkraínu Krím-skagann að gjöf á 300 ára afmæli rússneskra yfirráða í landinu 1954. Frá því að Rússar hernámu Krím í mars 2014, hefur Dzhemílev verið í útlegð.

Þegar við rifjum upp sögu gleymdra smáþjóða, sem tröllin hafa undirokað og jafnvel tvístrað, ættum við að muna, hversu heppin við erum að búa á eyju langt frá öðrum löndum, en líka með góða granna, Kanadabúa, Bandaríkjamenn, Breta, Dani og Norðmenn.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is