Bergþóra Rannveig Júlíusdóttir fæddist 20. maí 1948 á Akureyri og lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri þann 23. maí 2014. Foreldrar hennar voru Júlíus Jóhannesson, f. 9.9. 1888 á Þórustöðum í Eyjafjarðarsveit, d. 10.3. 1970, og Pollý Jóhannsdóttir, f. 18.7. 1912 á Hauganesi í Eyjafirði, d. 6.1. 1967. Hálfsystkini Bergþóru frá fyrra hjónabandi föður hennar eru: Björgvin Sigurjón Júlíusson, f. 19.3. 1915, d. 2.2. 1981, Gústav Brynjólfur Júlíusson, f. 1.7. 1918, d. 9.8. 1988, Ólafur Gunnar Júlíusson, f. 19.3. 1924, d. 27.3. 1973, og Helga Leósdóttir (fósturdóttir), f. 30.3. 1930, d. 15.9 1969. Alsystkini Bergþóru eru Aðalsteinn Viðar, f. 4.3. 1944, María Guðrún, f. 20.5. 1948, d. 27.11. 1987 og Jóhanna Sveinfríður, f. 24.9. 1950. Eftirlifandi eiginmaður Bergþóru er Lárus Halldórsson, fv. sjómaður, fæddur í Reykjavík, 2.1. 1945. Þau gengu í hjónaband 12.7. 1969. Foreldrar hans voru: Halldór Guðmundsson, f. 23.12. 1929, d. 14.8. 1997 og Jóna Aðalheiður Haraldsdóttir, f. 28.7. 1928, d. 18.12 1992. Börn þeirra eru: Róbert Viðar Lárusson, f. 18.11. 1970, kvæntur Sif Sigmundsdóttir, f. 3.5. 1970. Börn þeirra eru: Rakel Anna, f. 6.7. 1987, í sambúð með Jörgeni Páli Úlfarssyni. Þeirra börn eru: Róbert Úlfar, f. 7.6. 2007, og Kjartan Máni, f. 21.12. 2010. Andrés Þór, f. 18.6. 1989, Gunnar þór, f. 27.12. 1993, og Daníel Þór, f. 11.3. 2005. Bergþóra Rós Lárusdóttir, f. 24.2. 1973. Var gift Halldóri Halldórssyni, f. 4.4. 1970, skilin. Þeirra börn eru: Lárus Reynir, f. 16.10. 1992, Embla Eir, f. 12.5. 1998, og Ísold Ásdís, f. 18.4. 2006, Rán Aðalheiður Lárusdóttir, f. 29.5. 1977, í sambúð með Brynjari Brynjarssyni, f. 13.9. 1974. Börn þeirra eru: Karen Rut, f. 21.9. 2002, og Ester Katrín, f. 24.4. 2008. Fóstursonur Júlíus Sævarsson, f. 4.11. 1965, kvæntur Brynhildi Geirsdóttur, f. 14.3. 1964. Þeirra börn eru Ísak Máni Júlíusson, f. 14.5. 1997, og María Guðrún Júlíusdóttir, f. 21.9. 2001. Fyrir átti hann tvö börn. Ingunni Hafdísi, f. 18.4. 1987, barnsmóðir Arna Gerður Hafsteinsdóttir, f. 3.2. 1964, og Sævar Ara, f. 24.8. 1988, barnsmóðir Unnur Sigurlaug Aradóttir, f. 25.4. 1965. Júlíus var sonur Maríu Guðrúnar. Bergþóra stundaði hefðbundið nám í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar en fór síðan ung að vinna meðal annars á verksmiðjum Sambandsins á Gleráreyrum. Hún fluttist með fjölskyldu sinni frá Akureyri til Dalvíkur 4. júlí 1980 og vann þar, fyrst í fiskverkun en lengst af vann hún í Kaupfélaginu á staðnum og einnig sem matráður á leikskólanum Krílakoti. Það var svo 4. júlí 1999 sem þau Lárus fluttu aftur til Akureyrar, og þar vann hún sem matráður á leikskólanum Kiðagili og síðan við verslunarstörf þar til hún veiktist. Útför Bergþóru fór fram 30. maí 2014, í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Þú ert nú elsku besta systir mín horfin yfir móðuna miklu til austursins eilífa.

Dvelur nú  meðal ástvina þinna og ættingja er hurfu héðan á undan þér. Ég trúi því að þrautir þínar og veikindi séu um garð gengin og að þú lifir lífi þínu þar sem þú ert nú, hress, glöð og heilbrigð.

Þó að ég viti að okkur ber að fagna lausn frá erfiðum veikindum, fer ekki hjá því að það myndast tómarúm í huga mínum við þessar aðstæður.

Að mér sækir söknuður, þrátt fyrir vitneskjuna um eilíft líf og vitneskjuna um að ekkert líf er án dauða og enginn dauði án lífs. Samt sem áður er það nú svo að þegar þessi vitneskja snertir okkur sjálf er hún sár og sýnir okkur smæð okkar gagnvart almættinu. Aftur á móti er það huggun harmi gegn, að okkur eru gefin fyrirheit um endurfundi.

Þú kunnir best við þig innan um ástvini þína, eiginmann , börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn. Fylgdist vel með lífi þeirra allra og varst mjög áfram um að vita hvernig þeim gengi og hvað þau væru að gera hverju sinni. Barst ómælda umhyggju fyrir þeim öllum. Útdeildir af gnægtabrunni ástar og væntumþykju yfir þau öll og alla samferðarmenn þína.

Þú varst hógvær kona, hæg, traust og hlý. Það geislaði af þér góðvild og kærleikur til allra er þú umgekkst.

Ég minnist þess og gleymi því aldrei er við hittumst í fyrsta sinn. Það var á sólríkum degi 20. maí 1948, er þið tvíburasysturnar fæddust í þennan heim. Ég man að ég gekk út á götu heima í Oddeyrargötunni, veðrið var sérstaklega gott, ég í stuttbuxum og sportsokkum alveg að rifna úr stolti.

Þarna tók veröldin á móti ykkur systrum með sól og sumaryl, svo sannarlega var sól í hjarta mínu. Allar heimavinnandi húsmæðurnar í götunni komu til að óska mér til hamingju með þann stóra og einstæða atburð er átti sér stað í Oddeyrargötu 24 þá um morguninn. Þarna var ég prinsinn í götunni og naut þess svo um munaði.

Þrátt fyrir hlýju vorsins fannst mér þó tilhlýðilegt að þið fengjuð ullarsokka í körfu ykkar og læddi tveimur pörum af ullarsokkum að höfðalagi ykkar og fékk mikið bágt fyrir vegna þess að umhyggja mín var ekki vel þegin af mömmu. Þegar tíminn leið og ég gat farið að keyra ykkur í tvíburakerrunni bað mamma mig stundum um að keyra með ykkur um nágrennið og sagði þá jafnan að þið systur mundu greiða mér fyrir þótt síðar yrði. Var ég sannfærður um að sú þóknun yrði í peningum, en áttaði mig síðar á því að mamma átti ekki við það, heldur það að ég fengi greiðslu í því að eiga ykkur sem systur, lifa með ykkur og þykja vænt um ykkur, þekkja ykkur og kynnast.

Margar aðrar minningar koma upp í hugann sem ég ætla ekki að tíunda hér og nú.

Elsku Begga það var ekki alltaf sól í lífi þínu. Þú þurftir að berjast við sorgir og þú þurftir að berjast nokkur ár við mikil veikindi sem þú gekkst í gegn um með miklu æðruleysi og miklum dugnaði. Mikil var sorg þín þegar tvíburasystir þín yfirgaf þennan heim. Sorg þín og söknuður var þér þá mjög erfiður. Þú sýndir mikinn styrk og æðruleysi í veikindum þínum í raun ótrúlegan kraft.

Þú hafðir einnig hann Lalla þinn, sem stóð sem klettur við hlið þér og hafði óbilandi trú á að þú mundir sigrast á þessum illvíga sjúkdómi. Einnig stóðu börnin þín og barnabörn með þér og hjálpuðu eins og þau mögulega gátu. En allt kom fyrir ekki sjúkdómurinn sigraði að lokum.

Ég þakka þér elsku systir samfylgdina þessi sextíu og sex ár.

Þú félagi, vinur, þín för enduð er

á framandi ströndu að landi þig ber.

Við syngjum og gleðjumst hér saman um stund,

en seinna við mætumst á annarri grund.

Sá líknandi faðir er lífið gaf þér

hann leiði þig áfram um eilífðar veg.

En minningin lifir oss mönnunum hjá

á meðan að dveljumst við jörðinni á.

Þó leiðir hér skilji og lund okkar sár

Þú læknað það getur og þerrað hvert tár.

þú bæn okkar kenndir við biðjum þig nú

að breyta þeim harmi í eilífa trú.

(E.B.V.)

Í útför þinni 30. maí s.l. sem fram fór í kyrrþey að ósk þinni, tókum við nánustu ættingjar þínir þátt í sorgar-og saknaðarstund, en þessi stund var líka þakkarhátíð, því það er auðvelt að þakka fyrir gott líf. Verum því glöð yfir lífinu, yfir því að hafa fæðst, fengið að vera til og fyrir að hafa átt því láni að fagna að hafa þekkt þig.

Elsku Begga, við Margrét biðjum algóðan Guð um að styðja og styrkja: eiginmann þinn, hann Lalla, börnin þín, tengdabörnin, barnabörnin og barnabarnabörnin þín. Minningin um ástkæra eiginkonu, móður, tengdamóður og ömmu lifir í hugum þeirra og verður þeim leiðarljós um ókomin ár.

Blessuð sé minning þín kæra systir.

Þinn bróðir,

Aðalsteinn V. Júlíusson (Alli Júl)