Hver sem efniviðurinn var, klassísk andlitsmynd í leir eða frjáls skúlptúr, var innsæi Sigurjóns og skilningur á efninu ætíð framúrskarandi.
Hver sem efniviðurinn var, klassísk andlitsmynd í leir eða frjáls skúlptúr, var innsæi Sigurjóns og skilningur á efninu ætíð framúrskarandi. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Virtir fræðimenn fjalla um Sigurjón Ólafsson á málþingi í Listasafni Íslands

Málþing um Sigurjón Ólafsson myndhöggvara og verk hans verður haldið í Listasafni Íslands í dag, laugardag, klukkan 12.45 til 17, í tengslum við yfirlitssýninguna á verkum listamannsins, „Spor í sandi“, sem nú stendur yfir í safninu við Fríkirkjuveg og í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnesi. Fyrirlestrarnir verða fluttir á ensku og dönsku.

Fyrirlesarar verða dönsku listfræðingarnir Jens Peter Munk, umsjónarmaður höggmynda á vegum Kaupmannahafnarborgar, og Charlotte Christensen, bandaríski listfræðingurinn Kerry Greaves, Æsa Sigurjónsdóttur, listfræðingur og sýningarstjóri, Aðalstein Ingólfsson, listfræðingur, og Pétur H. Ármannsson arkitekt. Munu þau takast á við ólíka þætti á ferli og í sköpun Sigurjóns.

Sigurjón Ólafsson (1908-1982) lærði klassíska höggmyndagerð í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn og þegar á námsárum sínum braust hann út úr viðjum hinnar akademísku hefðar og gerði tilraunir með efni og form. Á meðan Sigurjón dvaldi í Danmörku vann hann mikilvæg tímamótaverk undir formerkjum módernismans. Verk hans vöktu í senn athygli, aðdáun og gagnrýni og hann hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir andlitsmyndir sínar.