„Mannauður RÚV er sannarlega mikill. Það eru forréttindi að vinna með öllu þessu frábæra skapandi fólki og gaman verður að freista þess að hræra alla þessa þekkingu og reynslu saman við nýja og ferska strauma,“ segir Andrea Róbertsdóttir.
„Mannauður RÚV er sannarlega mikill. Það eru forréttindi að vinna með öllu þessu frábæra skapandi fólki og gaman verður að freista þess að hræra alla þessa þekkingu og reynslu saman við nýja og ferska strauma,“ segir Andrea Róbertsdóttir.
Andrea Róbertsdóttir, sem nýlega tók við starfi mannauðsstjóra Ríkisútvarpsins, mætir til vinnu með jákvæðnina og gleðina að vopni.

Andrea Róbertsdóttir, sem nýlega tók við starfi mannauðsstjóra Ríkisútvarpsins, mætir til vinnu með jákvæðnina og gleðina að vopni. Hún hefur unnið „25 stundir á dag, átta daga vikunnar“ undanfarið við að endurskipuleggja húsakynni RÚV í Efstaleitinu en hvergi er þó af henni dregið. Andrea er líka þekktur orkubolti með ólæknandi klúbbablæti. Hún elskar að eldast og sér sjarmann í kyrrðinni. Gott ef það blundar ekki í henni bóndi. Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Mynd: Kjartan Þorbjörnsson golli@mbl.is

Hún keypti sér strigaskó þegar hún byrjaði í nýju vinnunni en dauðsér eftir að hafa ekki fengið sér skrefamæli líka. Hún hefur nefnilega gengið og jafnvel hlaupið ófáa kílómetrana í útvarpshúsinu í Efstaleiti síðustu vikur og mánuði enda hvílir umsjón með þeim miklu breytingum sem þar standa yfir á hennar herðum sem formanns vinnuhóps um húsnæðisbreytingar. Og Andrea Róbertsdóttir nýtur hverrar mínútu í þessari „25 stunda og átta daga vinnuviku“. Hér er hún í essinu sínu. Það kemur sér stundum vel að vera hvort tveggja í senn, „excel“ og „fiðrildi“.

„Það þýðir ekkert að vera á pinnahælum og dragt í þessu starfi,“ segir Andrea hlæjandi meðan hún sýnir mér aðstæður í Efstaleitinu. Búið er að brjóta niður veggi og auka flæðið í húsinu til muna. Tilgangurinn er einfaldur: Að þétta raðirnar og hvetja starfsfólk til að tala meira saman, óháð miðlum og deildum. „RÚV er eins og mannslíkami,“ segir Andrea. „Við erum öll að vinna verðmæt störf, líkt og líffæri hafa sín hlutverk. Við getum ekki öll verið eins og því er mikilvægt að fagna fjölbreytileikanum og átta sig á að við getum verið ólík en jafn góð.“ Hún brosir.

Majónesið gulnar ekki hér!

Það er lítill stofnanabragur á Andreu þar sem hún skoppar um ganga á strigaskónum, heilsandi fólki kumpánlega, hægri, vinstri. Vel er tekið undir kveðjurnar. Auglýsingadeildin heilsar meira að segja í einum kór – og brestur svo í hlátur. Augljóslega einhver innanhúshúmor. „Mér hefur aldrei þótt óþægilegt að fara út fyrir rammann, reyna á mig og læra nýja hluti,“ trúir Andrea mér fyrir, „og fer ekkert að breyta því hérna. Ég er ennþá að læra að vera Andrea mannauðsstjóri RÚV og hef upplifað fjölmörg „aha-augnablik“ síðan ég tók við. Það eru næg verkefni á borði mannauðsstjóra og mikilvægt að forgangsraða og minna sig stöðugt á hvernig á að borða epli, taka einn bita í einu. Alltaf er ég að læra eitthvað nýtt, geri mistök eins og hver annar og óska mér á stundum að eiga stórt strokleður. En svona er lífið. Það eina sem býr mann undir lífið er lífið sjálft!“

Iðnaðarmenn heilsa líka hver af öðrum – með baráttuhróp á vörum. „Hvað heldur þú?“ svarar Andrea einum þeirra. „Majónesið gulnar ekki hér!“

Það hefur ekki verið létt verk að snúa RÚV á hvolf, Andreu reiknast til að búið sé að færa flesta starfsmenn, ef ekki alla. „Ég þekki orðið hvern krók og kima í þessu húsi og gæti bent þér á hverja einustu innstungu,“ heldur hún áfram brosandi.

Kannski seinna!

Eins og fram hefur komið er búið að tæma tvær efstu hæðir útvarpshússins með það fyrir augum að leigja þær út. Það er, að sögn Andreu, afleiðing en ekki orsök breytinganna. „Þegar við fórum að skoða málið kom í ljós að unnt var að rýma fjórðu og fimmtu hæðina og núna bíðum við bara spennt eftir leigjendum,“ segir hún.

Andrea hefur reynslu af verkefnastýringu og því að flytja fyrirtæki en hún var forstöðumaður mannauðssviðs Tals þegar fjarskiptafyrirtækið flutti af Suðurlandsbraut og upp í Grímsbæ. „Aðbúnaður og þá jafnvel flutningar hvíla oft á herðum mannauðsstjóra og bæði hafa þessi verkefni verið mjög skemmtileg enda þótt þau séu ólík að því leyti að Tal flutti milli staða en hérna erum við að flytja fólk til innanhúss. Það er að sumu leyti snúnara að flytja innanhúss og ég segi stundum að þetta sé dálítið eins og að pakka svefnpoka. Frekar auðvelt til að byrja með en síðan verður þetta erfiðara og þá er mikilvægt að búa að þekkingu og lagni. Ég er ekki týpan sem gefst upp. Reyni reglulega að gera það sem ekki á að vera hægt. Samkvæmt Vísindavefnum á til dæmis hvorki að vera hægt að kítla sjálfan sig né hnerra með opin augun og auðvitað hef ég reynt bæði.“

Ein af nýjungunum í útvarpshúsinu er Torgið, þar sem starfsmenn koma saman og fá sér kaffi eða aðra slíka heilsustyrkjandi drykki í amstri dagsins. Torgið leysir af hólmi hina ýmsu kaffikróka sem áður voru í húsinu. „Okkur þótti mikilvægt að búa til sameiginlegt rými á góðum stað í húsinu, þar sem fólk gæti komið saman, fengið sér kaffi og skipst um leið á skoðunum og hugmyndum. Þessi nýbreytni hefur mælst vel fyrir og það er alltaf líf og fjör við kaffivélina. Þar rekst maður líka á gesti á leiðinni úr og í viðtöl og jafnvel grímuklætt fólk sem er í pásu frá sjónvarps- eða kvikmyndaupptökum. Það er upplifun að mæta til vinnu. Það hefur ekki verið slæmt að skála í morgunkaffi við Sveppa og Villa uppáklædda við kaffivélina á Torginu en þeir hafa verið að taka upp nýjustu myndina sína í húsinu. Leiðindin ekki að þvælast þar fyrir.“

Glöð með andann í húsinu

Hvað húsgögn varðar segir Andrea þetta einkum og sér í lagi hafa verið spurningu um að einfalda og endurraða. Þá sé alltaf gott að geta leitað í smiðju til leikmunadeildar RÚV. Allskyns mublur hafa fengið nýtt hlutverk.

Spurð hvernig fólk hafi tekið húsnæðisbreytingunum kveðst Andrea ekki verða vör við annað en ánægju almennt. „Það tekur alltaf tíma að vinna traust starfsfólksins en ég er ofsalega glöð með andann í húsinu. Fólk er upp til hópa mjög jákvætt í garð þessara breytinga. Auðvitað taka breytingar mismikið á fólk almennt og mikið er ég þakklát þegar fólk er til í að gefa hugmyndum sem eru í mótun smá séns. Breytingarnar hér í Efstaleitinu hefðu ekki gengið svona vel án gefandi samvinnu deilda og iðnaðarmanna en þessar tilfærslur hafa gefið mér tækifæri til að kynnast starfsfólkinu hraðar og betur en ella. Fyrir það er ég þakklát. Ég hef mikinn metnað, fyrir mína eigin hönd og annarra, en það er líka mikilvægt fyrir mannauðsstjóra að hlusta á fólk. Það er engin tilviljun að við erum með tvö eyru en bara einn munn. Húsnæðismálin hafa verið mest áberandi hlutverk mitt sem mannauðsstjóri RÚV en að sjálfsögðu er ég að sinna klassískum mannauðsmálum sem ég er ráðin til. Ég er mikið fyrir fullorðið fólk. Þetta snýst um réttindi og skyldur og mér finnst afar skemmtilegt að hjálpa fólki að nota gáfur sínar í starfi og einkalífi. Mínar dyr standa alltaf opnar og ég hvet fólk til að leita til mín með hvaðeina sem því liggur á hjarta. Engin spurning er asnaleg!“

Andrea lofar að mæta sínum verkefnum af auðmýkt og gleði. „Þú getur ekki lýst upp myrkur með myrkri og gleði er því fagmennska fyrir mér. Ég hef tileinkað mér gleðina í mínum störfum en ef fólk kærir sig ekki um þá nálgun virði ég það líka. Ég hef slípast í þessu gegnum árin og fagna fjölbreytileikanum. Þetta snýst að mínu viti um að velja sér viðhorf á morgnana, ef við mætum klyfjuð í vinnuna á hverjum morgni er hætta á því að við spriklum bara í fósturstellingunni. Það eru allir með sín verkefni í lífinu og mörg þeirra langt frá því að vera karamelluhúðuð. Hver og einn einstaklingur er heill heimur útaf fyrir sig.“

Örugglega sá kurteisasti

Nýi útvarpsstjórinn, Magnús Geir Þórðarson, er ekki síður þekktur fyrir jákvæðni og gleði, þar sem hann hefur stjórnað, og Andrea kveðst hlakka til að vinna áfram með honum. „Við þekktumst sáralítið áður en ég hef aldrei unnið með stjórnanda sem hefur jafn mikinn áhuga á öllum þáttum rekstursins og Magnús Geir. Hann er einn jákvæðasti maður sem ég hef kynnst og örugglega sá kurteisasti og nærgætnasti. Það er kúnst að vera innilegur og tapa ekki gleðinni í miklum hraða en hér er fagmaður á ferð. Hann hefur þessa útgeislun og metnað fyrir hönd RÚV. Og eftir höfðinu dansa limirnir.“

Andrea er með BA-gráðu í félags- og kynjafræði og meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Áður en Andrea hóf störf hjá RÚV starfaði hún sem verkefnisstjóri hjá Hjallastefnunni en frá 2010-13 var hún forstöðumaður mannauðssviðs Tals. Andrea hefur einnig víðtæka reynslu úr fjölmiðlum sem dagskrárgerðarkona og framleiðandi.

Spurð hvers vegna hún hafi sóst eftir starfi mannauðsstjóra RÚV svarar Andrea því til að henni hafi alltaf þótt vænt um Ríkisútvarpið og eigi bjartar minningar því tengdar, allt frá því hún hlustaði á morgunleikfimina með ömmu sinni þegar hún var lítil. Þá kveðst hún elska lógó stofnunarinnar. Yfir því sé stíll „enda verðlaunað vörumerki“.

„Ég kom fyrst til RÚV til að starfa við unglingaþátt fyrir tuttugu árum, löðrandi í slími,“ rifjar hún upp skellihlæjandi. „Síðan kom ég aftur fyrir nokkrum árum til að stjórna menningarþættinum 07/08 Bíó-leikhús með Þorsteini Joð og fleirum. Þá var ég búin að vinna í flestum deildum 365 um nokkurt skeið. Ég hef því nokkuð góða tilfinningu fyrir ferlunum eða hef ágæta innsýn sem er mikilvægt. RÚV er eftirsóttur vinnustaður og ég skil það vel.“

Konur hér, konur þar...

Í vor var ný framkvæmdastjórn ráðin hjá stofnuninni en hún er skipuð jafnmörgum konum og körlum. „Magnús Geir byrjaði strax á því að taka kynjahlutfallið föstum tökum og það hefur nú verið jafnað, ekki bara í framkvæmdastjórninni heldur hefur konum verið fjölgað á kjörtíma í loftinu. Það hefur fallið í góðan jarðveg. Jafnréttismál hafa sjaldan þótt sexý en Magnús Geir hefur margsýnt að hann hefur hugrekki til að takast á við þau. Auðvitað ætlar enginn vísvitandi að ala á misrétti og fordómum en menn gera það samt ómeðvitað. Ef það vantar sérfræðing í þátt í útvarpi eða sjónvarpi er einfaldast að hringja bara í strákana sem þú ert með í boltanum. Ekki satt? Jafnréttið kemur ekki að sjálfu sér og ekki á einni nóttu en fyrir þessu er góð stemning í húsinu.“

Í þeim töluðum orðum kasta umsjónarkonur æfingabúða fyrir stelpur sem vilja taka þátt í spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur! í framtíðinni kveðju á Andreu. Þær búðir voru í útvarpshúsinu um liðna helgi og heppnuðust að sögn aðstandenda vonum framar. „RÚV er sameign þjóðarinnar og það á að vera jákvæð upplifun að koma til okkar. Það boðar á gott að fá góðar og innilegar móttökur hvort sem þú ert gestur eða starfsmaður,“ segir hún.

„Meint yfirtaka kvenna gengur mjög hægt,“ segir Andrea og glottir. „Konur eru helmingur mannkyns og það á því ekki að vera flókið að stuðla að jafnari kynjahlutfalli í fjölmiðlum. Jafnrétti á að vera hluti af ímynd RÚV og það er mjög mikilvægt að dætur okkar og synir hafi fyrirmyndir af báðum kynjum í fjölmiðlum til að máta sig við og lesa kyn sitt inn. Mér finnst full ástæða til að ljá krafta mína í að gera heiminn betri,“ segir Andrea.

Andi jafnréttis svífur sannarlega yfir vötnum í Efstaleitinu.

Mannauðurinn mikill

Vegur kvenna verður ekki bara meiri á RÚV á komandi misserum, landsbyggðinni verður líka gert hærra undir höfði. Efla á starfsstöðvarnar úti á landi og í því skyni hefur verið auglýst eftir nýjum svæðisstjóra á Akureyri sem leiða mun þá vinnu. Andrea segir þetta gæfuspor enda sé RÚV útvarp allra landsmanna, hvar í sveit sem þeir eru settir. „Það var starfsdagur hérna um daginn og að sjálfsögðu sameinast allir RÚVarar á svoleiðis stundum. Þá komu allir sem gátu af landsbyggðinni í Efstaleitið sem er eina vitið,“ segir hún.

Síðasti vetur var RÚV mjög erfiður en fjöldauppsagnir vegna niðurskurðar fóru ekki framhjá nokkrum manni. „Þetta var skelfilegt!“ segir Andrea alvarleg á svipinn. Í framhaldinu var skipt um útvarpsstjóra og boðskapur Magnúsar Geirs hefur verið sá að sóknarfæri séu í stöðunni sem upp er komin. „Þar er ég sammála Magnúsi Geir,“ segir Andrea. „Eðlilega koma inn nýjar áherslur með nýju fólki en síðan er hollt að endurskoða sig annað slagið og skerpa á stefnu og ímynd. Blóðtakan var mikil síðasta vetur en það kom mér á óvart þegar ég byrjaði hversu jákvætt fólkið er hérna almennt og staðráðið í að horfa fram á veginn. RÚV er ótrúlega mikilvæg stofnun og það sem hér fer fram skiptir þjóðina miklu máli. Það er ánægjulegt hve mikla skoðun landsmenn hafa á starfseminni og dagskránni en litlar breytingar, sem gjarnan eru vel undirbyggðar, geta valdið miklu umtali og slíkt eykur oft álag hjá fólkinu í húsinu. Það er óhætt að segja að starfsfólk er stolt af Ríkisútvarpinu og vill veg þess sem mestan. Mannauður RÚV er sannarlega mikill. Það eru forréttindi að vinna með öllu þessu frábæra skapandi fólki og gaman verður að freista þess að hræra alla þessa þekkingu og reynslu saman við nýja og ferska strauma. Bjartsýni og gleði hefur aldrei skemmt fyrir held ég. Það eru spennandi tímar framundan!“

Maðurinn rosalega 2014

Andrea segir alltaf mikilvægt að gæta jafnvægis milli vinnu og einkalífs en á móti komi að hún hafi vitað út í hvað hún var að fara. „Ég hef ekki verið neitt rosalega virk í saumó undanfarið,“ segir hún.

Hún á tvo drengi, tæplega sex og þriggja ára, með sambýlismanni sínum, Jóni Þór Eyþórssyni, og viðurkennir að hún vildi gjarnan sjá meira af þeim þessa dagana. „Þarna er spurning um gæði en ekki magn. Að vera á staðnum og leggja símann frá sér til að skapa gæðastundir. Annars hefur þetta gengið ágætlega þar sem ég á mann sem er rosalega 2014. Hann er góður pabbi og við eigum mjög auðvelt með að skipta með okkur verkum. Ekki spillir heldur fyrir að eiga ofurömmu í næstu götu, fjallageitina Möggu meiriháttar,“ segir Andrea og á þar við móður sína, Margréti Árnadóttur.

Margt breyttist þegar börnin fæddust. „Upphaflega áttu börnin að koma inn í mitt líf. Ég hafði ferðast mikið og ætlaði að halda því áfram – með drengina á bakinu. Svona einfalt er þetta hins vegar ekki. Allt í einu vorum við komin með lifandi vekjaraklukkur inn á heimilið og forsendur breyttust. Svefn er munaður í dag og ég hef hvorki tuggið matinn minn almennilega né talað í heilum setningum í sex ár,“ segir hún hlæjandi.

Ekki svo að skilja að hún telji það eftir sér. „Ég elska krúttkögglana mína skilyrðislaust og uppeldi þeirra er í senn skemmtilegasta og mest krefjandi verkefni sem ég hef tekist á hendur um dagana. Þeir eru mínir kennarar. Eitt knús er nóg til að bræða mig. Það er best í heimi!“

Æðislegt að eldast

Árið hefur verið viðburðaríkt í vinahópnum enda rekur hvert fertugsafmælið annað. „Það er æðislegt,“ flýtir Andrea sér að segja. „Ég hef ekkert á móti því að eldast. Það er ekkert að því að vera gelgja á fimmtugsaldri!“

Hún hlær.

„Grínlaust þá hef ég ekkert á móti því að verða fertug. Þegar ég hitti börn vina minna þá líður mér stundum eins og ég sé amma mín. Mikið óskaplega líður tíminn hratt. Aldurinn hefur kennt mér að hlusta betur á eigið brjóstvit og innsæið og það er búið að vera nóg að gera í að læra af mistökum. Eða við skulum orða það þannig að ég geri betur ef ég veit betur. Ég hlakka til þeirra verkefna sem framundan eru og held áfram að hamast í að vera besta útgáfan af mér.“

Spurð um áhugamálin utan vinnu er Andrea fljót að nefna tónlist. „Það er ekki til betra meðal en tónlist. Ég elska tónlist. Playlistinn minn er ómissandi, hvert sem ég fer. Hvað annað en geggjað lag lætur mann fá gæsahúð í fjörutíu stiga hita?“

Þegar Andrea sér furðusvipinn á blaðamanni bætir hún við: „Sjáðu til, ég var eitt sinn í nokkra mánuði í Asíu.“

Náttúran er annað sem Andrea gæti ekki verið án. Þau Jón Þór bjuggu um fimm ára skeið uppi í Hvalfirði og segir hún hvergi betra að hlaða rafhlöðurnar. „Ég ber mikla virðingu fyrir náttúrunni. Við fluttum hús þangað upp eftir í lítinn skóg og var tekið með kostum og kynjum af þessu dásamlega fólki í Kjósinni. Bændurnir voru fljótir að ættleiða mig og ég stofnaði klúbba úti um alla Kjósina; súpuklúbb, foreldraklúbb og gönguklúbb. Ég er með klúbbablæti.“

Það er ekki bara náttúran, heldur ekki síður kyrrðin og friðurinn. „Það býr mikill sjarmi í kyrrðinni og þó að ég sé alla jafna atorkusöm finnst mér líka nauðsynlegt að slaka vel á. Það gerir maður hvergi betur en úti í náttúrunni. Það jafnast ekkert á við að vakna snemma, taka sultu og vera búin að baka hjónabandssælu fyrir níu á morgnana. Áður en maður vekur karlinn.“

Hún bregst strax brosandi við spyrjandi augnaráði. „Þetta er alveg satt, ég er mikil morgunmanneskja og elska mánudaga!“

Eldri drengurinn steig sín fyrstu skref í sveitinni og Andrea segir dagmóðurina í bænum hafa haft orð á því að hann hefði óvenju gott jafnvægi. Enda lærði hann að ganga í þúfum en ekki á parketi.

Fjölskyldan er nú komin aftur í bæinn og Andrea segir fjarlægðina hafa ráðið mestu þar um. Hún er á hinn bóginn opin fyrir því að flytja aftur í sveitina síðar meir. „Svei mér ef það blundar ekki í mér bóndi!“