Snorri að störfum í Þykkvabæjarklausturskirkju í sumar.
Snorri að störfum í Þykkvabæjarklausturskirkju í sumar. — Ljósmynd/Kristjana Agnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Málarahjónin Snorri Guðvarðsson og Kristjana Agnarsdóttir á Akureyri sérhæfa sig í að vinna í friðuðum húsum, kirkjum og öðrum gömlum byggingum um land allt. Draumadjobb, segir Snorri.
Snorri hóf ungur að starfa með Guðvarði föður sínum málarameistara. Seint á áttunda áratug síðustu aldur máluðu feðgarnir Grundarkirkju í Eyjafirði að utan og þá strax segist Snorri hafa fengið mikinn áhuga á gömlum húsum. Eftir að hann fór að gera við slíka dýrgripi að innan; laga skemmda veggi, mála glugga og annað, fékk hann svo bakteríu sem erfitt er að losna við og kveðst raunar alls engan áhuga hafa á því! Þessi verkefni séu orðin sér ástríða.

Kristjana lærði til málara fljótlega eftir að hún kynntist Snorra árið 2000 og þau fást nú nær eingöngu við að gera við og mála friðuð hús. Gömlu kirkjurnar sem þau hafa unnið í eru liðlega 40 og friðuð íbúðarhús á sjöunda tuginn.

„Mörg húsanna eru frá því 1850 til 1900 og við notum mest efni frá þeim tíma: náttúruleg efni eins og línolíu og krít,“ segir Snorri. Hann nam þessa hlið fræðanna ekki á skólabekk heldur las danskar bækur og prófaði sig áfram. „Þegar ég byrjaði í þessu var ekki til línolíumálning á Íslandi. Í Sjöfn hér á Akureyri voru reyndar til öll efni í hana og ég fékk að blanda sjálfur; fékk aðgang að öllu sem ég þurfti og hjálpin sem ég fékk í Sjöfn var ómetanleg. Fljótlega eftir að Ingimar heitinn Friðriksson stofnaði verslunina Litaland gerðum við svo hernaðaráætlun: fengum Slippfélagið til að flytja inn línolíumálningu og síðan hefur hún verið til hér í búðum; frá 1. mars 1996.“

Kristjana var nýlega byrjuð að vinna í Ríkinu þegar hún kynntist Snorra. „Hann var að mála þar og mér fannst forvitnilegt það sem hann sagði mér af vinnunni í gömlu húsunum. Eftir að við tókum saman fór ég að vinna með honum í sumarfríum, t.d. í Öxarfirði, Jensenshúsi á Eskifirði og Friðbjarnarhúsi hér á Akureyri.“ Eftir að Kristjana lærði sjálf húsamálum hafa þau sinnt gömlum húsum nær eingöngu. „Og til að vera sjálfum okkur samkvæm búum við í friðuðu húsi frá 1877,“ segir Snorri kíminn. Húsið er í innbænum á Akureyri, eitt margra sem gerð hafa verið fallega upp.

„Við vinnum mikið fyrir Þjóðminjasafnið en líka oft fyrir sóknarnefndir og Húsfriðunarnefnd bendir fólki um allt land á okkur. Við lítum á nefndina sem vinnufélaga okkur og kunnum henni bestu þakkir,“ segir Snorri.

Hjónin sinntu fyrst og fremst tveimur verkefnum í sumar; Þverárkirkju í Laxárdal fyrir norðan og Þykkvabæjarklausturskirkju í Álftaveri við suðurströndina.

Seinna verkefnið tók tvo mánuði, en þau skutust reyndar í tvígang heim í nokkra daga á þeim tíma.

Snorri segist gjarnan vilja taka það rólega í janúar og febrúar og dundar sér þá aðallega við að gera upp gömul húsgögn. Hefur aðstöðu til þess í Grasrót í gamla Slipp-húsinu á Akureyri. Annars er hann með hugann við gömlu húsin.

Fjöldi verkefna bíður þeirra víða um land og þau hlakka til allra. „Þetta er algjört draumadjobb,“ segir Snorri. „Þegar við erum á flakki búum við stundum inni á einhverjum, stundum í sumarbústað, gömlum prestbústað eða jafnvel félagsheimili eða safnaðarheimili. Við erum alltaf eins og blómi í eggi, vinirnir orðnir margar enda jólakortin yfir 150!“