Sigurður Briem póstmálastjóri fæddist á Espihóli 12.9. 1860, sonur Eggerts Briem, sýslumanns í Eyjafirði og Skagafirði, og Ingibjargar Eiríksdóttur húsfreyju. Eggert var sonur Gunnlaugs Briem og k.h.
Sigurður Briem póstmálastjóri fæddist á Espihóli 12.9. 1860, sonur Eggerts Briem, sýslumanns í Eyjafirði og Skagafirði, og Ingibjargar Eiríksdóttur húsfreyju.

Eggert var sonur Gunnlaugs Briem og k.h., Valgerðar Árnadóttur, ættforeldra Briemættar, en Ingibjörg var dóttir Eiríks Sverrissonar, sýslumanns í Kollabæ.

Meðal 18 systkina Sigurðar voru Eiríkur Briem, prestaskólakennari, Kristín Claessen, amma Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra; Ólafur Briem, alþm. á Álfgeirsvöllum; Páll Briem, amtmaður og alþm; Elín Briem skólastjóri, og Eggert Briem, hæstaréttardómari.

Eiginkona Sigurðar var Guðrún Ísleifsdóttir, prests og alþm. í Arnarbæli Gíslasonar. Meðal sjö barna Sigurðar og Guðrúnar voru Gunnlaugur Briem, póst- og símamálastjóri, og Sigrún sem hafði verið í framhaldsnámi í barnalækningum en fórst, ásamt fjölskyldu sinni með Goðafossi undan Reykjanesi á heimleið frá Bandaríkjunum 10.11. 1944.

Sigurður lauk stúdentsprófi 1883 og varð annar Íslendingurinn til að ljúka hagfræðiprófi, 1889. Hann var sýslumaður víða um land en skamma hríð á hverjum stað, 1890-1896, var skipaður póstmeistari í Reykjavík 1897, aðalpóstmeistari 1920 og póstmálastjóri ríkisins 1930. Hann þótti traustur og röggsamur embættismaður á miklum breytingatímum.

Sigurður keypti Tjarnarbrekkulóðina, vestan Tjarnarinnar, árið 1905 og fékk hana samþykkta sem átta byggingalóðir að því tilskildu að leggja veg meðfram brekkunni (Tjarnargötu). Hann byggði þar íbúðarhúsið Tjarnargötu 20. Tjarnargata 18 var hús Björns Ólafssonar augnlæknis, svila Sigurðar, Tjarnargata 22 var hús Klemensar Jónssonar ráðherra, Tjarnargata 24 hús Páls Briem, bróður Sigurðar, og Tjarnargata 26 hús Jóns Helgasonar biskups, bróður Álfheiðar, konu Páls Briem. Í rúma öld hafa þessi hús verið hryggjarstykkið í einni fegurstu götumynd Reykjavíkur.

Sigurður lést 19.5. 1952.