Myndlist Freyja Eilíf Logadóttir opnar sýningarrýmið Ekkisens í Bergstaðastrætinu með sýningu í dag.
Myndlist Freyja Eilíf Logadóttir opnar sýningarrýmið Ekkisens í Bergstaðastrætinu með sýningu í dag. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is „Ekkisens er nýtt sýningarrými fyrir nýútskrifaða myndlistarmenn í kjallara Bergstaðastrætis 25B.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

„Ekkisens er nýtt sýningarrými fyrir nýútskrifaða myndlistarmenn í kjallara Bergstaðastrætis 25B. Það verður opnað í dag klukkan 17 með myndlistarsýningu nítján myndlistarmanna sem útskrifuðust frá Listaháskóla Íslands í ár og í fyrra,“ segir Freyja Eilíf Logadóttir, forsprakki verkefnisins, en hún er sjálf nýútskrifuð úr myndlist frá LHÍ.

„Það er mikill skortur á rýmum fyrir nýútskrifaða listamenn. Nær allir staðirnir eru fyrir listamenn sem eru búnir að koma sér á ákveðinn stað. Það vantar auk þess vettvang fyrir listamenn sem er frjáls og óháður, stað þar sem sköpunarkrafturinn fær að leika lausum hala. Í Ekkisens verður mikil grasrótarstarfsemi,“ segir hún en þess má geta að Freyja hélt fyrstu sýningu sína eftir útskrift í rýminu dagana 22. og 23. ágúst ásamt fjórum bekkjarsystrum sínum og tveimur öðrum listamönnum.

„Sýningin var mér svo góð hvatning til að rýma húsnæðið í einum grænum, þrífa, mála og byrja að laga ýmislegt og í nafni sköpunarkraftsins mun sú vinna halda áfram,“ segir hún.

Amma á efri hæðinni

„Rýmið er sérstakt fyrir þær sakir að eiga lítið sameiginlegt með þeim hvítu og tæru rýmum sem venjulega hýsa listasýningar. Íbúðin þarfnast viðhalds svo að rýmið er bæði hrátt og hlýlegt í senn. Það er spennandi áskorun fyrir listamenn að setja sýningar upp í þessu rými. Sýningarrýmið er líka óhefðbundið að því leytinu til að þetta eru gangar, eldhús, stofa, svefnherbergi og vaskahús. Þetta verður allt saman nýtt undir myndlist. Svo eru þarna líka geymslur og kompur sem við nýtum einhvernveginn,“ segir hún.

„Amma Didda býr á efri hæðinni og kjallarinn þarfnast nokkurs viðhalds. Langamma mín keypti húsið árið 1960 og bjó á efri hæðinni á meðan amma og afi voru í kjallaranum með þrjú börn. Þegar hún lést þá fluttu þau upp og gerðu kjallarann að vinnurými. Kjallarinn var nú síðast nýttur af afa mínum sem vinnustofa, hann lést fyrir tveimur árum. Ekkisens er gamalt blótsyrði sem allar ömmur ættu að kannast við, langamma mín notaði það óspart. Þess má einnig geta að ekki mátti blóta djöflinum nema hann væri danskur, það er að segja djöfullinn danskur,“ segir Freyja kímin.

„Fjölskyldudíllinn er sá að ég fæ að reka þessa starfsemi gegn því að gera upp kjallarann, laga pípurnar, mála og fleira. Þetta eru því hænuskref í því að gera upp gamla íbúð í niðurníðslu,“ bætir Freyja við að lokum.