22. nóvember 2014 | Daglegt líf | 1258 orð | 4 myndir

Flugsagan kristallast á Akureyri

Magnað Flugsafn Íslands á Akureyri geymir fjölmargt sem tengist flugsögu Íslands, sem er mjög áhugaverð.
Magnað Flugsafn Íslands á Akureyri geymir fjölmargt sem tengist flugsögu Íslands, sem er mjög áhugaverð. — Morgunblaðið/Malín Brand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Akureyri er æði margt sem tengist flugsögu Íslands. Þar er til dæmis Flugsafn Íslands starfrækt og þar fer hluti flugvirkjanáms Flugskóla Íslands og Tækniskólans fram. Í dag er sextíu ára afmæli Akureyrarflugvallar fagnað og er vel við hæfi að fagna á Flugsafninu.
Malín Brand

malin@mbl.is

Þeir sem komið hafa á Flugsafn Íslands vita að það eru ótrúlegustu munir varðveittir. Brot og stykki úr flugsögu Íslands eru þar vel varðveitt í ýmsum útfærslum. Í dag, laugardaginn 22. nóvember, verður sérstök hátíðardagskrá í safninu og hefst hún klukkan 13.30 og stendur fram eftir degi. Utan um dagskrána heldur félagið Örninn sem er hollvinafélag Flugsafns Íslands. Pétur P. Johnson er formaður félagsins og útskýrir hann að félagið heiti í höfuðið á fyrstu flugvél Flugfélags Akureyrar en það var vél af gerðinni Waco YKS-7 og bar hún einkennisstafina TF-ÖRN. Var hún alla jafna kölluð Örninn. Sambærileg vél er varðveitt á flugsafninu með tilliti til sögunnar, sem er býsna áhugaverð fyrir margra hluta sakir. „Safnið er mjög flott og við getum verið stolt af því,“ segir Pétur sem sannarlega hefur samanburðinn því hann hefur skoðað fjölda flugsafna erlendis.

Þrjóskari en aðrir?

Það má velta því fyrir sér í ljósi sögunnar hvort íslenskir flugmenn sem lögðu mikið á sig til að koma hér á almennilegum flugsamgöngum hafi verið þrjóskari en gengur og gerist. Elja manna sem endurspeglast í flugsögunni ber vott um hugsjón framar öðru. Gróðahyggja virðist ekki hafa verið hvatinn að baki því að stofna hér flugfélög heldur viljinn til að hefja sig til flugs, á eyju langt norður í hafi. Pétur vill ekki meina að stéttin sem slík einkennist af meiri þrjósku en góðu hófi gegnir en segir að flugsafnið sé meðal annars afrakstur töluverðrar þrjósku eins manns og fyrir það er hann þakklátur. „Svanbjörn heitinn Sigurðsson var aðalhvatamaðurinn að stofnun safnsins. Hann var afar þrjóskur og safnið væri ekki þar sem það er í dag hefði hans ekki notið við. Hann fékk menn í lið með sér og ef þeir voru eitthvað að malda í móinn þá sagðist Svanbjörn bara koma daginn eftir og það gerði hann og fékk mjög góða menn með sér. Icelandair-menn voru snemma komnir eftir stækkun safnsins, sömuleiðis Arngrímur og Atlanta-menn og Halldór Blöndal sem var samgönguráðherra þegar safnið var stofnað og studdi vel við bakið á flugsafnsmönnum á fyrstu árum þess,“ segir Pétur. Árið 1999 var Flugsafnið opnað í stóru flugskýli á Akureyri og ekki leið á löngu þar til finna þurfti stærra húsnæði undir herlegheitin. Árið 2006 var hafist handa við byggingu mun stærra húsnæðis og þar er safnið í dag, við flugvöllinn á Akureyri.

Merkir gripir úr sögunni

Pétur á sér vissulega sínar eftirlætisvélar á flugsafninu. „Fyrir það fyrsta er það TF-SUX, Klemm 25 frá Þýskalandi. Hún var smíðuð árið 1934 og kom hingað til lands með Þjóðverjum sem voru hér í svifflugleiðangri árið 1938 og þessi vél var skilin eftir. Hún var notuð næstu árin til að kanna hugsanlega lendingarstaði um allt land fyrir landflugvélar. Þetta vara til dæmis fyrsta vélin til að lenda í Vestmannaeyjum 1939 og það var Agnar Kofoed-Hansen sem lenti henni þar,“ segir Pétur um þessa merkilegu vél sem einnig var notuð við póstflug, farþegaflug og sjúkraflug til Öræfa og var um leið fyrsta flugvélin sem lenti þar. „Hún var meira að segja nokkrum sinnum notuð í síldarleit. Þá var Örninn, hinn eini og sanni, í skoðun en flugfélag Íslands þurfti að uppfylla samninga vegna síldarleitarinnar og þá fékk Örn Ó. Johnson vélina lánaða hjá Flugmálafélaginu og fór í síldarleit,“ segir Pétur.

Fyrstu vélar flugfélaganna

Á safninu er sem fyrr segir sambærileg vél og sú fyrsta sem Flugfélag Akureyrar eignaðist og það er Waco sem sést á meðfylgjandi mynd. „Síðan er það Stinson Reliant sem er með stafina TF-AZX sem er eins og ein fyrsta flugvél Loftleiða. Nefið af fyrstu þotunni, Gullfaxa, er varðveitt á safninu. Það er merkilegur gripur,“ segir Pétur. Gullfaxi var af gerðinni Douglas DC-4 og bar stafina TF-ISE.

TF-SIF vinsælust

Þyrla Landhelgisgæslunnar, gamla TF-SIF var gerð upp eftir að henni hlekktist á við björgunaræfingu árið 2007. Hún er í eigu Arngríms Jóhannssonar en í vörslu Flugsafns Íslands. Vélin sem er af gerðinni Aerospatiale SA.365N

Daupin 2 var notuð af Landhelgisgæslunni í tæp 22 ár og á vef safnsins kemur fram að hún hafi samtals verið á lofti í 7.056 klukkustundir og 35 mínútur. Áætlað er að um 250 mannslífum hafi verið bjargað af áhöfnum vélarinnar. „Ég held að hún sé eitt vinsælasta stykkið á safninu og held ég að börnin séu sérstaklega hrifin af henni. Í það minnsta vekur hún mikla athygli,“ segir Pétur um þyrluna góðu.

Í þessari upptalningu er ekki hægt að sleppa hinni tveggja hreyfla Beechcraft sem varðveitt er á safninu. „Hún er eins og fyrsta tveggja hreyfla landflugvélin sem flutt var til landsins árið 1942 en þetta eintak var keypt til landsins 1964. Hún er, eins og Douglasinn, algjör vinnuhestur og notuð í innanlandsfluginu í marga áratugi, hvort sem var hjá Flugfélagi Íslands, Flugsýn, Vængjum númer tvö og Vængjum númer þrjú, Flugstöðinni, Flugfélagi Norðurlands eða öðrum,“ segir Pétur og nefnir líka mikilvægi Fokker á þessum árum. Á næsta ári eru einmitt fimmtíu ár liðin frá því að fyrsti Fokkerinn kom til landsins og án efa verður eitthvað gert af því tilefni.

Milivægasta vélin í sögunni

Ljóst er að margar vélar tengjast flugsögu Íslands en þó er þar ein sem gegndi lykilhlutverki, að sögn Péturs. Það er Þristurinn, DC3. „Þetta er ótrúleg flugvél sem gat í raun gert allt, hvort sem var innanlands, á skíðum í Grænlandi og svo framvegis. Þetta var fyrsta flugvélin sem flaug til Færeyja. Flugfélag Íslands opnaði flugsamgöngur okkar yfir til Færeyinga með Þristinum. Vélin var notuð í farþegaflug í tuttugu og sjö ár og síðan var eintakinu sem nú er fyrir norðan breytt í áburðarflugvél árið 1972 og var í áburðarflugi alveg til 2005. Nú er búið að taka tankinn úr vélinni og standa vonir til að vélin fái sæti einhvern tíma með vorinu.“ Það myndi öruggleg gleðja marga að geta flogið sem farþegar í Þristinum á ný, enda engu líkt að fljúga í slíkri vél.

Tímamót á flugvellinum

Dagskráin í dag verður með fjölbrettu sniði. Fyrst ber að nefna að flugkappinn Arngrímur B. Jóhannsson verður heiðraður sérstaklega. Málverk af honum verður afhjúpað og fer upp á sérstakan heiðursmannavegg í Flugsafni Íslands. Því næst verður sextíu ára afmælis Akureyrarflugvallar minnst. „Flugvöllurinn var tekinn í notkun þann fimmta desember 1954. Njáll Trausti Friðbertsson flugumferðarstjóri fer yfir sögu flugvallarins. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson mun fjalla um efnahagslegt mikilvægi Akureyrarflugvallar, bæði fyrir Akureyri og svæðið í kring. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, mun flytja dálitla tölu og væntanlega mun Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, flytja erindi. Hjördís Þórhallsdóttir flugvallarstjóri mun líka flytja erindi. Að þessu loknu verður undirritaður samstarfssamningur Flugsafnsins við Icelandair og undirskrift samstarfssamnings Flugsafnsins við Tækniskóla Íslands um áframhaldandi flugvirkjanám,“ segir Pétur P. Johnson, formaður hollvinafélags Flugsafns Íslands.

Í framhaldi af móttökunni á Flugsafni Íslands mun Isavia og aðrir flugrekstraraðilar á vellinum vera með opið hús og bjóða gestum að skoða starfsemina. Það hefur ekki verið gert áður en allir áhugasamir eru velkomnir og aðgangur ókeypis að Flugsafni Íslands á þessum merka degi flugvallarins.

Flugfélag Akureyrar

Hinn þriðja júní árið 1937 var Flugfélag Akureyrar stofnað. Nokkrir menn lögðu peninga til félagsins og í viðtali við einn af stofnendunum, Gísla Ólafsson, sem birtist í Morgunblaðinu árið 1996, kom fram að sjálfur hefði hann lagt fram 300 krónur í stofnfé. Það samsvaraði næstum mánaðarlaunum hans á BSA. Fyrsta vél félagsins var fjögurra sæta vél af gerðinni Waco, TF-ÖRN eins og fram kemur í greininni hér til hliðar. Farþegaflug og póstflug til Reykjavíkur og fleiri staða á landinu hófst árið 1938.

Nafni Flugfélags Akureyrar var breytt í Flugfélag Íslands fáeinum árum síðar og varð númer þrjú í röðinni með því nafni. Árið 1973 sameinuðust Flugfélag Íslands og Loftleiðir undir nafni Flugleiða.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.