Fræg eru orð Árna Magnússonar handritasafnara: „Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gáng, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverir tveggja nokkuð að iðja.

Fræg eru orð Árna Magnússonar handritasafnara: „Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gáng, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverir tveggja nokkuð að iðja.“ Því miður má finna dæmi um fyrrnefndu iðjuna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, sem kom út 2010. Af einhverjum ástæðum eru þar ýmsar fullyrðingar settar á blað, án þess að þær séu sannreyndar eða prófaðar saman við annað efni úr skýrslunni.

Til dæmis er á 40. bls. í 20. kafla þetta haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni um samtöl bankamanna á öndverðu ári 2008: „Á öðrum stað í heiminum, miklu sunnarlegra, var haldin veisla þar sem var skipulagt ákveðið módel sem var það að Landsbankinn og eigendur Landsbanka og Kaupþings voru komnir að niðurstöðu um það, það væri í raun ekki hægt að gera neitt af viti nema að Glitni væri skipt upp á milli þeirra.“ Þessum stóru orðum er hvergi fylgt eftir í skýrslunni. Ég hef rætt við ráðamenn Landsbankans og Kaupþings á þessum tíma, og enginn kannast við þetta. Hins vegar kemur einmitt fram í skýrslunni, að þeir Sigurjón Þ. Árnason, Hreiðar Már Sigurðsson og Jón Ásgeir Jóhannesson (sem var raunar hvorki bankastjóri né bankaráðsmaður í Glitni) ræddu eitt sinn saman um þann möguleika, að Kaupþing og Landsbankinn keyptu saman Glitni, en fundurinn leystist upp í hávaðarifrildi um, hver ætti að kaupa hvað. Þessi saga Jóns Ásgeirs um veislu suður í löndum er bersýnilega hugarórar, og má velta því fyrir sér, hvort hið sama eigi við um fleiri samsæriskenningar hans.

Annað dæmi er, að á 140. bls. í 20. kafla er þetta haft eftir Össuri Skarphéðinssyni um fund aðfaranótt mánudagsins 6. október: „Þar eru þrír prúðbúnir og vel mæltir yfirstéttar Bretar frá J.P. Morgan sem hafði verið ráðinn sem sérstakur ráðgjafi Seðlabankans.“ En af þessum þremur mönnum var aðeins einn breskur, Michael Ridley, og hann var ekki úr neinni yfirstétt, þótt hann talaði óaðfinnanlega ensku. Einn var Svíi, Johan Bergendahl, og einn bandarískur, Gary Weiss. Ýmislegt annað er haft eftir Össuri í skýrslunni, og má spyrja, hvort það sé eins óáreiðanlegt.

Í þessum tveimur dæmum hefur rannsóknarnefndin hjálpað „erroribus“ á gang, og verða síðan aðrir að leitast við að „útryðja aftur þeim sömu erroribus“. Hafa þá hvorir tveggja nokkuð að iðja.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is