Katrín Ríkharðsdóttir fæddist þann 17. janúar 1956 í Ólafsvík.  Katrín lést á krabbameinslækningadeild 11E á Landspítalanum þann 1. janúar sl. Foreldrar Katrínar voru þau Ríkharður Jónsson, fiskmatsmaður, f. í Saksum í Færeyjum þann 13. október 1931, d. 15. janúar 2005 og kona hans Ingveldur Magnúsdóttir, húsfreyja, f. í Ólafsvík þann 21. desember 1930, d. 13. janúar 2011. Katrín var einkabarn þeirra hjóna.

Katrín kvæntist Stefáni Ragnari Egilssyni, vélstjóra þann 10. desember 1977. Stefán fæddist á Selfossi þann 3. október 1954. Foreldrar hans voru Egill Guðjónsson, bifreiðastjóri f. 15. janúar 1921 frá Berjanesi, d. 16.febrúar 1994 og kona hans Guðrún Pálsdóttir, húsfreyja frá Litlu Reykjum f. 20. ágúst 1924, d. 1.mars 1983. Stefán á átta systkyni en þau eru: Svanborg f. 1946, Páll f. 1947, Guðjón f. 1952, Pálmi f. 1956, Gunnar f. 1957, Guðríður f. 1960, Sigrún f. 1962 og Sigríður f. 1964.

Dóttir  Katrínar og Stefáns er Hafdís Björk, sérfræðingur í innri endurskoðun, f. 10. júlí 1977 kvænt Sigurvini Breiðfjörð Pálssyni, kerfisstjóra,  f. 21. júlí 1975. Dætur þeirra eru Ísabella Breiðfjörð f. 9. desember 2009 og Ísafold Breiðfjörð f. 13. desember 2011.

Katrín var fædd og uppalin í Ólafsvík og lauk þar grunnskólaprófi.  Þau Katrín og Stefán hófu búskap í Ólafsvík árið 1974 og bjuggu þar allt til ársins 2004 þegar þau fluttu til Hafnarfjarðar í næsta nágrenni við dóttur sína. Gestkvæmt var á heimili þeirra og héldu þau hjónin fallegt heimili sem húsfreyjan sinnti af alúð og natni. Katrín hafði gaman af börnum og vann í rúmlega 35 ár við umönnun þeirra. Hún vann til fjölda ára á Leikskólanum í Ólafsvík bæði við daggæslu sem og eldamennsku auk þess sem hún starfaði í nokkur ár við Grunnskólann í Ólafsvík sem skólaliði.  Frá árinu 2004 starfaði Katrín sem skólaliði og við eldamennsku við Áslandsskóla í Hafnafirði.

Katrín var létt í skapi og hafði einstaklega gaman af samvistum við fólk.  Hún tók þátt í margvíslegu félagsstarfi og hafði gaman af söng.  Í Ólafsvík var Katrín mikil driffjöður í félagslífi bæjarins til margra ára.  Hún starfaði m.a. með Björgunarsveitinni Sæbjörgu, Kvenfélagi Ólafsvíkur, Lions klúbbnum Rán, Kirkjukór Ólafsvíkur og tók þátt í margvíslegum skemmtunum eins og Sjómannadagshófum, Þorrablótum, Vetrargleðum og var ein af þeim sem komu Færeyskum dögum á laggirnar.  Katrín sat í lista- og menningarnefnd bæjarins í nokkur ár. Eftir að þau hjón fluttu búferlum þá tók Katrín virkan þátt í starfi Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði og sat í sóknarnefnd kirkjunnar frá árinu 2006. Katrín kom ásamt öðrum að stofnun kórs kirkjunnar og var kórinn hennar aðal áhugamál ásamt því að ferðast um landið með eiginmanni sínum.

Útför Katrínar verður gerð frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku besta  mamma mín með djúpri sorg í hjarta kveð ég þig svo alltof alltof snemma. Ég finn til mikils söknuðar, lífið er og verður svo dapurlegt án þín. Mig langar til að heyra dillandi hláturinn þinn einu sinni enn, fá eitt símtal enn og fá að heyra röddina þína, fá faðm frá þér einu sinni enn, einn koss og heyra ég elska þig dúllan mín einu sinni enn.  En okkur voru ekki gefnar fleiri stundir saman elsku mamma mín að þessu sinni því nú ertu komin í faðm guðs. Ég fann það þegar þú kvaddir hve mikil friðsæld ríkti yfir þér.  Það var eins og þú hefðir þetta allt á þinni hendi, tíminn var kominn, það var komið nóg af þessum veikindum.
Það er svo stutt síðan að við sátum saman fjölskyldan upp á spítala og orðin stóðu einhvern veginn föst í loftinu og við reyndum að meðtaka það þegar læknirinn sagði okkur að þú værir með krabbamein á lokastigi, þetta leit ekki vel út.  Þú mamma sem aldrei varðst veik, svo hraust og hress alla tíð.  Næstu dagar og vikur á eftir satt best að segja liðu, einhvern veginn. Það kom að því að meðferðin þín hófst og við vorum tilbúin að takast á við stærsta verkefni okkar fjölskyldunnar, lífsbaráttu þína.  Við kynntumst Helga Sigurðssyni hinum yfirvegaða yfirlækni krabbameinsdeildar. Helgi sá er einstaklega vel úr garði gerður, hlýr og einlægur og eigum við honum miklar þakkir. Það sama á við um yndislegt starfsfólk á krabbameinslækningadeild 11E og líknarþjónustunni Karitas. Ég man hlaup á milli hæða, á krabbameinsdeild til þín mamma, já og á hjartadeildina til pabba því álagið sagði til sín.  Daglega rútínan eins og vinna og leikskólaferðir, fimleikaæfingar, þvottur, þrif og matreiðsla varð að púsluspili. Kvöldin og helgarnar fóru í stappa stálinu í hvort annað og ekki síst eyða stundum með hvort öðru.  Oft fóru næturnar í grátur yfir vanmætti og örlögum sem við höfðum ekki vald á. Litlu gleðigjafarnir okkar og ömmustelpurnar þínar Ísabella og Ísafold léttu okkur svo sannarlega lífið þessa mánuði.   Líkamlegur styrkur þinn þvarr jafnt og þétt en alltaf hafðir þú von, von um að hægt yrði að halda þessum óvin okkar niðri sem lengst. Það var ekkert í boði að ræða hvað ef, það var ekki þér líkt.  Þú barðist hetjulega áfram og reyndir að feta þig á grýttum vegi sem maður óskar engum að vera á. Það var ekkert að þér, þér leið vel. Við gátum svo engann veginn sett okkur í þín spor elsku mamma mín.  Mikið er ég stolt af því hvað þú þessi lífsglaða og jákvæða kona varst dugleg við ömurlegar aðstæður. Undir það síðasta á spítalanum varstu svo elskuleg við allt og alla, þér leið vel hjá þeim. Af pabba mínum er ég líka stolt því að byrði okkar var líka þung og erfitt að standa hjálparvana við hlið þér. Þetta var okkur öllum ljúfsárt ár.  Ég er svo innilega þakklát fyrir hvað við litla fjölskyldan erum náin og hvað við höfum eytt mörgum stundum saman í gegnum lífið og þá ekki síst síðast liðið ár.  Það er einhvern veginn þannig að við þessar aðstæður þá metur maður lífið á annan veg, maður lærir að lifa í núinu og njóta líðandi stundar, staldrar við og upplifir hamingjuna í hversdagsleikanum, dag í senn eitt andartak í einu.
Þú varst okkar skærasta jólastjarna, einfaldlega elskaðir jólin og undirbjóst þau í marga mánuði. Þú áttir fallegasta jólaskrautið, gafst fallegustu jólagjafirnar sem valdar höfðu verið af natni, eldaðir besta jólamatinn (og sósuna með pabba), söngst með okkur fallegu jólalögin og gafst okkur yndislegar minningar.  Þú komst heim af spítalanum til okkar yfir jólin og þetta voru ljúfsár jól þar sem við vissum að þau yrðu okkar síðustu saman.  Á meðan ljósadýrðin lýsti upp himininn og nýja árið hringdi inn þá slokknaði lífsljósið þitt á sjálfa nýársnóttina elsku mamma mín, kallið var komið.

Minningarbrotin raðast saman í huganum um lífsglaða, kraftmikla og yndislega konu. Mamma var einstaklega hláturmild og oft höfum við ekki getað hætt að hlæja að einhverju sem engum öðrum þótti fyndið.  Mamma var einstaklega áhugasöm um fólk og var með eindæmum mannglögg, satt best að segja þá þekkti hún alla.  Mamma var matarkona mikil, elskaði að elda mat fyrir fólkið sitt, kökur og kræsingar hristi hún fram úr erminni eins og ekkert væri.  Ef þig vantaði uppskriftir þá var ekki komið að tómum kofanum hjá frúnni.  Hún hafði fágaðan smekk og gaman að því að gera heimili þeirra pabba fallegt.  Hún var alltaf með nýjasta borðbúnaðinn á hreinu og það var sko eins gott að taka hana með sér í húsbúnaðarverslanir eða ef velja skyldi jólaskraut en það varð auðvitað að vera frá honum Gogga vini okkar Jensen.   Mamma var einstaklega hrifin af börnum og starfaði nánast alla sína tíð við umönnun þeirra.  Börnin dýrkuðu hana og oft voru þau miklir vinir hennar.
Pabbi var svo einstaklega heppinn að kynnast skvísunni henni mömmu á sveitaballi fyrir vestan fyrir rúmum fjörtíu árum síðan. Mamma var fædd og uppalin í Ólafsvík og þar hófu foreldrar mínir sinn búskap og var hann heilladrjúgur allt til hinstu stundar.  Það væsti ekki um mig heimasætuna á bænum, einkabarnið þeirra, allt var fyrir mig gert og met ég það mikils. Það kom að því að ég hóf nám við Verzlunarskóla Íslands og yfirgaf æskuslóðirnar sextán ára, þetta var mömmu erfiður tími fyrst um sinn.  Við töluðum þó alltaf saman í síma á hverjum degi, ég, mamma og pabbi og þannig var það æ síðar. Loks kom svo að því að heimasætan hitti strák rétt um tvítugt. Pabbi og mamma tóku Sigurvini strax opnum örmum, mamma var nú ekkert vön að liggja á orðum sínum og þegar hún hitti hann fyrst þá sagði hún mikið rosalega ertu stór strákur, hvellt og hátt eins og henni var einni lagið. Árið 2004 ákváðu þau hjónin að flytjast nær okkur Sigurvini og var yndislegt að fá þau til okkar í næstu götu í Hafnarfirðinum og hafa samverustundirnar verið margar í gegnum árin. Ekki fækkaði samverustundunum eftir að tvær litlar prinsessur komu í heiminn og mamma varð amma.  Ísabella fæddist árið 2009 og Ísafold árið 2011, tveir litlir desember englar sem beðið hafði verið eftir í langan tíma.  Mamma var yndisleg amma og bar litlu dömurnar á höndum sér, sérstaklega eftir því sem þær eltust og gátu spjallað, sungið, spilað og leikið.  Þá var amman í essinu sínu og áttu þær systur mikla vinkonu í ömmu Kötu sinni.  Þær munu sakna hennar sárt.
Foreldrar mínir eiga einstaklega vel skipaðan hóp af fólki í kringum sig og eru þau miklir vinir vina sinna. Foreldrar mínir voru ætíð höfðingjar heim að sækja um jól sem á öðrum tíma og pabbi mun án efa halda þeirri hefð við.  Riðið var á vaðið með vel lyktandi skötuveislu í einstökum félagsskap, nóg af  heimabökuðu rúgbrauði, alls kyns síldum og gúmmelaði sem mamma af sinni alkunnu snilld hafði dúllað að. Maður man öll spilakvöldin, matarboðin og  heimsóknirnar í gegnum árin, Sæa, Maggi og fjölskylda, Sæsi, Soffía og fjölskylda, amma og afi, Svava, Finn og börn, Lóló, Gaui og börn, góðir nágrannar allt um kring og á móti auðvitað, vinnufélagar og aðrir góðir vinir og fjölskylda sem hafa svo sannarlega staðið með okkur á erfiðum tímum.  Í október sl. fögnuðum við fjölskyldan með góðum vinum og fjölskyldu sextugsafmæli pabba, fjörtíu árunum þeirra mömmu og pabba saman og einfaldlega lífinu sjálfu.  Þetta var mikill gleðidagur og gleðin skein úr augum foreldra minna.

Foreldrar mínir hafa ekki síður verið vinir vina minna.  Ósjaldan var Túnbrekkan samkomustaður vinahópsins.  Í gegnum tíðina hafa mamma og pabbi alltaf verið tilbúinn að skutla okkur á böll eða hvers lags ævintýri og auðvitað sækja okkur aftur þegar morgnar.  Oftast fengum við eitthvað í gogginn, jafnt eggjakökur sem  nautasteikur, humarsúpu sem og túnfisksalat með buglesi þjóðarrétt mömmu og pabba. Vinkonur mínar kölluðu foreldrar mínir stelpurnar sínar.
Hjá okkur fjölskyldunni eru aðeins þrjár árstíðir á ári.  Mamma stjórnaði þessu öllu og pabbi, Sigurvin og við stelpurnar bara fylgdum með.  Það voru jól, páskar og svo loks verslunarmannahelgi.  Í gegnum árin hafa ferðalög verið ein helsta ástríða foreldra minna og þau hafa dvalið vikum saman á hverju sumri í einhvers konar útilegubúnaði, fyrst voru það A tjöldin og að lokum hjólhýsin. Fyrsta sem kemur í hugann er Galtalækur en þangað var heimilisfangið flutt um verslunarmannahelgi í fjölda ára.  Það sem manni hlakkaði til að fara með vinum og fjölskyldu í skóginn góða.  Ávallt var mamma búin að baka býsnin öll af bakkelsi og brauði, ekki má nú heldur gleyma soðningunni, hangikjöt, svið og allur pakkinn.
Mamma hafði einstaklega gaman af fólki og tók virkan þátt í félagsstörfum bæði í Ólafsvík sem og í Hafnarfirði. Við pabbi höfum þurft að þola ýmsan ágang í gegnum árin og tímaleysi vegna funda á heimilinu, óteljandi æfinga, atburða o.s.frv. Að mamma hafi verið í þessu félagsstarfi jafngilti því að við pabbi urðum sjálfkrafa þátttakendur og okkur var auðvitað skipað til að gera hitt og þetta.  Pabba fannst þetta nú lúmskt skemmtilegt og tók nú oft þátt í þessu líka en þá sérstaklega í Sjómannadagsskemmtunum og Vetrargleðinni sem þau komu að frá upphafi með góðum vinum.  Þeim þótti þetta einstaklega skemmtilegur tími.  Á vetrargleðum komu Ólsarar saman og fögnuðu vetri með pompi, prakt og söng.  Á sumrin voru það færeyskir dagar sem mamma ásamt fleiri fjölskyldum sem áttu rætur að rekja til Færeyja stofnuðu. Hér í Hafnarfirðinum starfaði mamma mikið í kirkjustarfi Ástjarnarkirkju, bæði í sóknarnefnd sem og í kórnum sem var hennar líf og yndi.
Maður hugsar stundum um að almættið og að allt hafi ákveðinn tilgang.  Sumarið 2013 vildi mamma bjóða okkur fjölskyldunni til Færeyja á afaslóðir en þangað höfðum við ekki komið í rúm 25 ár. Við áttum saman yndislegar stundir með fjölskyldunni okkar í Færeyjum.  Mamma naut ferðarinnar mikið, hress og kát án þess að vita hvaða verkefni biðu hennar hálfu ári síðar.  Þarna kom mamma mér í tengsl við mína kynslóð, ömmustelpunum við sína kynslóð og ættarböndin voru treyst til framtíðar. Mamma varð ekkert lítið hrifin af Bandaríkjunum eftir að við fjölskyldan áttum þar góðar vikur í Flórída um árið með Lóló og Sigrúnu. Í desembermánuði stuttu áður en mamma greinist með þennan illvíga sjúkdóm þá bauð pabbi okkur mæðgum til Boston í yndislega mæðgnaferð en það hafði verið draumur okkar lengi um að fara þangað saman. Bönd okkar mæðgna urðu sterkari og sterkari eftir því sem árin liðu.
Pabbi og mamma hafa mótað mig og kennt mér allt sem skiptir máli og verið bakhjarlar okkar fjölskyldunnar í lífinu og fyrir það erum við Sigurvin og stelpurnar ævinlega þakklát.  Ég veit að mamma hefur nú hitt ömmu og afa, Sæsa, Kristínu og fleiri góða vini og frændfólk sem hafa kvatt okkar tilvist. Það hafa svo sannarlega verið fagnaðarfundir, hlátrasköll og faðmlög. Minningin lifir í brjósti mínu um yndislega og ástríka mömmu sem vildi allt fyrir mann gera og bar okkar á höndum sér.
Þú munt alltaf vera í huga mér elsku mamma, ég mun rifja upp minningarnar með litlu ömmustelpunum þínum og þú verður hluti af þeirra lífi um ókomna tíð.  Ég mun kveikja á kertum, ylja mér við myndir af þér, hugsa um allar fallegu minningarnar okkar og hve heitt þú elskaðir mig. Ég elskaði þig líka svo innilega heitt.
Þín dóttir,

Hafdís Björk.