25. mars 2015 | Árnað heilla | 607 orð | 3 myndir

Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri – 70 ára

Í sviðsljósi leiklistarinnar og stjórnmála

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórhildur fæddist í Reykjavík 25.3. 1945 og ólst þar upp.
Þórhildur fæddist í Reykjavík 25.3. 1945 og ólst þar upp. Hún var í Melaskóla og Hagaskóla, stundaði listdansnám við Listdansskóla Þjóðleikhússins 1954-61 og við The Royal Ballet School í London 1961-63 og lauk jafnframt prófum sem listdanskennari frá The Royal Academy of Dancing í London 1964. Hún stundaði söngnám hjá Engel Lund við Tónlistarskólann í Reykjavík 1966-68, lauk stúdentsprófi frá MA 1976, fór fjölda námsferða til tíu Evrópulanda í því skyni að kynna sér leiklist í Austur- og Vestur-Evrópu, sótti námskeið við Wagner-óperuna í Bayreuth 1993, stundaði ítölskunám við Endumenntun HÍ 1993, sótti tíma í leikhúsfræðum við háskólann í Frankfurt 1994-95, lauk Oberstufe-prófi í þýsku við sama skóla 1995, stundaði MBA-nám og nám í verkefnastjórnun - leiðtogaþjálfun við Endurmenntun HÍ 2004, lauk prófum frá Leiðsöguskóla MK 2008 og hefur sótt ótal námskeið leikstjóra, danshöfunda, leikara og dansara.

Þórhildur var þátttakandi í fjölmörgum sýningum Þjóðleikhússins 1955-65, kennari við Listdansskóla Þjóðleikhússins 1963-65, var m.a. danshöfundur og leikari hjá Leikfélaginu Grímu 1965-68, kennari við Leiklistarskóla LR og starfrækti eigin listdansskóla um skeið, var einn af stofnendum og virkur þátttakandi í Leiksmiðjunni 1967-69, var leikari, leikstjóri og þjálfari hjá LA 1969-71 og 1973-75, kennari við Leiklistarskólann SÁL 1972-73, var einn af stofnendum Alþýðuleikhússins, „norðandeildar“, 1975 og leikstýrði öllum sýningum þess 1975-78, stofnaði einnig og starfaði með Alþýðuleikhúsinu, „sunnandeild“, 1977-82 og leikstýrði fjölda sýninga á vegum þess, kenndi og leikstýrði við Leiklistarskóla Íslands 1977-80 og leikstýrði auk þess ýmsum sýningum við atvinnu- og áhugamannaleikhús á árunum 1980-87 og við Íslensku óperuna 1982-94.

Þórhildur var fastráðinn leikstjóri við Þjóðleikhúsið 1991-93 og var leikhússtjóri Borgarleikhússins 1996-2000. Hún hefur starfað sem leikstjóri síðan við öll atvinnuleikhús á Íslandi, Íslensku óperuna, útvarp og sjónvarp.

Þórhildur leikstýrði kvikmyndinni Stella í orlofi eftir Guðnýju Halldórsdóttur 1985, var aðstoðarleikstjóri og framkvæmdastjóri kvikmyndarinnar Hrafninn flýgur, eftir Hrafn Gunnlaugsson, 1983.

Þórhildur var formaður Leiklistarsambands Íslands 1997-2000, sat í stjórn Norræna leiklistarsambandsins, í skólanefnd Leiklistarskóla Íslands 1996-2000, sat í fulltrúaráði Listahátíðar Reykjavíkur, í nefndum um endurskoðun á leiklistarlögum og lögum um Þjóðleikhús, sat í stjórn Bandalags íslenskra listamanna, var formaður Félags leikstjóra á Íslandi í fjögur ár.

Þórhildur var einn af stofnendum Kvennaframboðsins 1982 og Kvennalistans 1983, var varaborgarfulltrúi 1982-86 og sat í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar, var kosningastjóri Kvennalistans í Reykjavík í alþingiskosningunum 1983 og 1987, var alþingiskona Samtaka um kvennalista 1987-91 og varaþingkona 1983-87 og 1991-95, formaður þingflokks Samtaka um kvennalista 1987-88, sat í ýmsum nefndum á Alþingi, sótti þing SÞ og var fulltrúi í Evrópuráðinu.

Fjölskylda

Eiginmaður Þórhildar er Arnar Jónsson, f. 21.1. 1943, leikari. Hann er sonur Arnþrúðar Ingimarsdóttur, f. 12.7. 1918, d. 22.4. 1993, starfskonu, og Jóns Kristinssonar, f. 2.7. 1916, d. 16.8. 2009, framkvæmdastjóra dvalarheimilisins Hlíðar á Akureyri.

Börn Arnars og Þórhildar eru Guðrún Helga, f. 15.7. 1964, d. 16.5. 2003, var flugfreyja, nuddari, dagskrárgerðarmaður og fleira, var gift Geir Sveinssyni, fyrrverandi handknattleiksmanni og nú þjálfara, og er sonur þeirra Arnar Sveinn og fósturdóttir Ragnheiður Katrín; Sólveig, f. 26.1. 1973, leikkona en maður hennar er Jósef Halldórsson, arkitekt og leikmyndahönnuður, og eru synir þeirra Halldór Dagur, Arnar og Egill; Þorleifur Örn, f. 15.7. 1978, leikstjóri en kona hans er Anna Rún Tryggvadóttir myndlistarkona og er sonur hennar Flóki en sonur þeirra er Tryggvi Þór; Oddný, f. 1.5. 1980, verkefnastjóri en maður hennar er Rögnvaldur Bjarnason tölvufræðingur, og Jón Magnús, f. 10.8. 1982, leikari og nemi, en sonur hans er Viktor Hugi.

Systkini Þórhildar eru Erna, f. 9.4. 1939, d. 7.3. 1994, var félagsráðgjafi; Bergur, f. 12.7. 1942, fyrrv. hafnarstjóri Reykjavíkurhafnar, og Eggert, f. 18.7. 1952, leikari og tónlistarmaður.

Foreldrar Þórhildar voru Guðrún Bergsdóttir, f. á Siglufirði 4.12. 1915, d. 9.6. 1992, húsfreyja, og Þorleifur Guðmundsson, f. á Hróarsstöðum í Öxarfirði 11.11. 1911, d. 18.9. 1992, skrifstofustjóri og kaupsýslumaður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.