Lárus fæddist í Reykjavík 22.5. 1903. Hann var sonur séra Sigurbjörns Á. Gíslasonar, ritstjóra og prests í Ási í Reykjavík, og k.h., Guðrúnar Lárusdóttur, rithöfundar og alþm.

Lárus fæddist í Reykjavík 22.5. 1903. Hann var sonur séra Sigurbjörns Á. Gíslasonar, ritstjóra og prests í Ási í Reykjavík, og k.h., Guðrúnar Lárusdóttur, rithöfundar og alþm., sem drukknaði ásamt tveimur dætrum sínum í Tungufljóti er bifreið sem þær voru í rann út í fljótið árið 1938.

Sigurbjörn var sonur Gísla Sigurðssonar, bónda í Glæsibæ í Sæmundarhlíð og í Neðra-Ási í Hjaltadal, og Kristínar Björnsdóttur húsfreyju, en Guðrún var dóttir Lárusar Halldórs Halldórssonar, prófasts á Valþjófsstað í Fljótsdal og síðar fríkirkjuprests og alþm. á Kollaleiru í Reyðarfirði, og Kirstenar Katrine, af Knudsenætt, dóttur Péturs Guðjohnsen, ættföður Guðjohnsenættar.

Meðal systkina Lárusar voru Gísli, forstjóri Grundar og Áss, Friðrik stórkaupmaður og Lára kennari, móðir Einars Þorsteins Ásgeirssonar, arkitekts og frumkvöðuls.

Lárus lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1922, lauk cand. phil.-prófi við Kaupmannahafnarháskóla og stundaði þar nám í eðlisfræði en hætti námi og stundaði síðan ritstörf og blaðamennsku í Kaupmannahöfn til 1927, lengst af hjá Berlingske Tidende.

Lárus hóf störf hjá Reykjavíkurbæ 1929, vann fyrst hjá bæjargjaldkera en var skipaður minja- og skjalavörður 1956.

Lárus samdi skáldsögu og a.m.k. tvö leikrit, auk þess sem hann þýddi fjölda leikrita. Hann var formaður Leikfélags stúdenta og Leikfélags Reykjavíkur og framkvæmdastjóri þess um skeið.

Lárusar verður þó fyrst og fremst minnst sem stofnanda Minjasafns Reykjavíkur að Árbæ, fyrir forgöngu að varðveislu Árbæjar og stofnun Árbæjarsafns og fyrir að bjarga fjölda merkra muna og minja úr fortíð Reykjavíkur sem fæstir sáu nokkur verðmæti í og annars hefðu farið forgörðum.

Lárus lést 5.8. 1974 er borgarbúar héldu þjóðhátíð vegna ellefu hundruð ára afmælis landnáms í Reykjavík.