Þrír ættliðir bridskvenna Svava Sól Matthíasdóttir á milli ömmu sinnar, Hrafnhildar Guðmundsdóttur, og mömmu, Ljósbrár Baldursdóttur.
Þrír ættliðir bridskvenna Svava Sól Matthíasdóttir á milli ömmu sinnar, Hrafnhildar Guðmundsdóttur, og mömmu, Ljósbrár Baldursdóttur. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þótt konur spili brids í minna mæli en karlar létu hátt í eitt hundrað konur ekki sitt eftir liggja á bridsmóti kvenna á dögunum. Meðal þeirra voru mæðgurnar og makkerarnir Svava Sól Matthíasdóttir, fjórtán ára, og Ljósbrá Baldursdóttir.

Þótt konur spili brids í minna mæli en karlar létu hátt í eitt hundrað konur ekki sitt eftir liggja á bridsmóti kvenna á dögunum. Meðal þeirra voru mæðgurnar og makkerarnir Svava Sól Matthíasdóttir, fjórtán ára, og Ljósbrá Baldursdóttir. Við næsta borð spilaði Hrafnhildur Guðmundsdóttir, amma Svövu Sólar og mamma Ljósbrár, ásamt sínum makker.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Þegar Svava Sól Matthíasdóttir, sem verður fimmtán ára í þessum mánuði, segir vinum sínum og skólafélögum að hún sé að fara að spila brids verða þeir eins og spurningarmerki í framan, hvá og spyrja í forundran hvað hún meini eiginlega. Efalítið myndu þeir undrast enn meira ef þeir vissu að hún hefur spilað á nýliðakvöldum Bridgesambands Íslands frá því um jólin. Ekki þar fyrir að spilamennskan sé eitthvert leyndarmál. Þvert á móti. Brids er einfaldlega áhugamál Svövu Sólar sem fáir jafnaldrar hennar deila með henni.

Enda lækkaði hún meðalaldurinn verulega þegar hún tók í fyrsta skipti þátt í alvörubridsmóti. Yfirskriftin var árshátíð bridskvenna og var hún haldin á Grand hóteli fyrir skemmstu. Bridskonur hvaðanæva af landinu, nýliðar jafnt sem landsliðsmeistarar, mættu galvaskar til leiks fyrir hádegi og lögðu spilin á borðið eftir fordrykk og hádegisverð. Upphófst þá æsispennandi bridskeppni, sem lauk undir kvöld. Svava Sól spilaði með mömmu sinni, Ljósbrá Baldursdóttur, en skammt undan var ættmóðirin, Hrafnhildur Guðmundsdóttir, með sínum makker. Þessir þrír ættliðir bridskvenna voru meðal 94 keppenda á mótinu og náðu að sögn viðunandi árangri.

Svava Sól á ekki langt að sækja bridsáhugann. Löngu áður en hún leit dagsins ljós hafði Ljósbrá, móðir hennar, smitast af bridsbakteríunni, aðeins átján ára gömul.

Kynntist manninum í bridsi

Við erum staddar í rúmgóðum húsakynnum Bridgesambands Íslands, sem flesta daga iða af lífi. Hópur eldri borgara spilar brids í stórum sal handan við þilið eins og alltaf á mánudögum og fimmtudögum. Kannski finnst þeim mæðgum skrýtið að manneskja sem ekkert veit um brids – eins og fljótlega kom óhjákvæmilega á daginn – skuli hafa hóað þeim saman til að tala um brids. Þær láta ekki á neinu bera, vanir bridsarar gefa ekkert upp með svipbrigðum.

„Ég skellti mér með Bryndísi, móðursystur minni, í spilamennsku hjá Bridgesambandinu. Hún hafði farið á námskeið en ég kunni ekki neitt. Svo einhvern veginn datt ég inn í hóp, kynntist fólkinu hérna og fór að lesa mér til. Í byrjun lærði ég mest á að vera í kringum spilara sem voru miklu betri en ég,“ rifjar Ljósbrá upp. Einn þeirra var Matthías Þorvaldsson. Þetta var árið 1989. Hann er ennþá í kringum hana, enda eiginmaður hennar til fjölda ára.

Flestir í íslenska bridsheiminum þekkja þau hjónin. Þau hafa keppt á alls konar mótum, innanlands sem utan, eru margfaldir Íslandsmeistarar og hafa hampað fjölda annarra meistaratitla í áranna rás. Ljósbrá hefur skrifað kennsluefni í brids fyrir börn 10-12 ára og fleiri verkefni mætti nefna sem þau hafa unnið að í þágu bridsspilara og/eða í nafni Bridgesambands Íslands.

Lífið snerist um brids

„Við vorum alltaf að spila, tókum þátt í mörgum mótum og keppni, við höfum bæði verið í stjórn Bridgesambandsins, haldið námskeið, kennt og þjálfað. Ég spilaði í fyrsta skipti í kvennalandsliðinu 1992 og hef einnig spilað í yngra landsliðinu fyrir 25 ára og yngri. Matthías spilaði líka með því liði, en þó ekki á sama tíma því hann er nokkrum árum eldri en ég. Við vorum í landsliðum, hann í opnum flokki, ég í kvennaflokki, og líf okkar snerist að einhverju leyti um spilamennsku, mót og keppni. Ég varð strax mjög áhugasöm, enda alin upp á heimili þar sem mikið var spilað, pabbi spilaði brids og þegar ég var krakki var spilað mikið við mig.“

„Ljósbrá vildi alltaf að ég væri að spila við hana,“ samsinnir Hrafnhildur, sem um svipað leyti og Matthías kom í fjölskylduna fór að taka æ meira í spil og dreif sig svo á námskeið. „Ljósbrá kom mér á bragðið. Þótt ég sé ekki eins mikil keppnismanneskja og hún og spili bara mér til ánægju get ég tekið voðalega nærri mér að gera einhverja vitleysu,“ viðurkennir Hrafnhildur, sem spilar tvisvar í viku í þjónustumiðstöðvum borgarinnar með systur sinni auk þess að spila með vinkonum heima hjá sér eða þeim til skiptis.

Ljósbrá segir tvennt ólíkt að spila brids sem keppnisíþrótt eða til að hafa gaman af. Hún er á því að til að verða mjög góður bridsspilari þurfi að æfa sig í u.þ.b. fjóra tíma á dag í fimmtán ár. Hins vegar segir hún að allir geti lært nóg til þess að hafa gaman af, því hægt sé að spila brids á svo mörgum stigum svipað og í öðrum íþróttum. Hún ráðleggur byrjendum að hefja leikinn í Bridgesambandi Íslands þar sem allir fái góðar viðtökur; gera einfaldlega eins og hún gerði á sínum tíma og mæta bara á staðinn.

Barneignir og frí frá bridsi

Ljósbrá og Matthías tóku sér sjö ára frí frá spilamennskunni á árunum 2007-2013. Auk þess að vera á kafi í vinnu á þessum tíma eignuðust þau tvö börn til viðbótar. Þau eiga, auk Svövu Sólar, Söndru, 25 ára, Hrafnhildi Ýri, 24, ára, Eystein Orra, 17 ára, Viktor Axel, sjö ára, og Evu Fanneyju, sex ára.

Í vetur hófu þau hjónin svo að kenna börnum sínum brids. Eldri börnin kunnu reyndar svolítið fyrir sér og segir Ljósbrá að tvö þau yngstu hafi verið furðu fljót að átta sig, enda hafi þau spilað alls konar spil frá því þau lærðu að tala.

Þær mæðgur upplýsa að á fjölskylduferðalögum og í sumarbústaðnum séu spilin aldrei utan seilingar. Þær eru sammála um að stórfjölskyldan sé liðtæk í spilamennskunni og upp til hópa með mikið keppnisskap.

En fer þá ekki allt í háaloft?

„Stundum,“ svarar Svava. Ljósbrá viðurkennir að sumir hafi fellt tár.

Hundskammið þið kannski hvert annað?

„Já, oft,“ svarar Svava Sól. „Mér er sagt að góðir bridsarar skammist aldrei. Er það ekki rétt hjá mér, Ljósbjörg?“ spyr Hrafnhildur dóttur sína svolítið stríðnislega. „Menn skiptast náttúrlega á skoðunum og eins og í öllum íþróttagreinum geta komið upp deilur. Brids gengur annars vegar út á meldingar sem er samvinna tveggja, maður þarf að vita hvort maður ætlar til dæmis að spila hjarta eða grand og hvað maður ætlar að taka marga slagi. Hinn hlutinn er að spila úr spilunum... það reynir á ýmislegt,“ segir Ljósbrá, en fer ekki nánar út í þá flóknu sálma.

Sameinar fjölskylduna

Hún víkur talinu að gildi brids og annarra spila í samverustundum fjölskyldunnar. „Spilamennskan sameinar fjölskylduna og kallar á meiri tjáskipti en til dæmis allir sameinuðust við sjónvarpið eða hver væri í sínu horni í tölvunni sinni. Það er rosalega erfitt fyrir bridsíþróttina að keppa við mikið framboð afþreyingar á netinu, enda hefur sáralítil nýliðun orðið í hópi bridsspilara undanfarin ár. Mikilvægasta forgangsverkefni bridshreyfingarinnar er að stuðla að nýliðun með aukinni kennslu og fræðslu. Brids reynir mikið á hugann, er skemmtilegt og í því felst mikil áskorun,“ segir Ljósbrá.

Sjálfri finnst henni ómögulegt að spila brids við tölvu og spilar að sama skapi lítið við ókunnuga á netinu. Aldrei að vita hvort einhver brögð séu í tafli, öfugt við þegar spilað er augliti til auglitis, segir hún. Hins vegar sé gaman að geta fylgst með öllum stórmótum bæði hérlendis og erlendis í beinni útsendingu á netinu, bridgebase.com, og slíkt sé m.a. góð leið til að bæta sig og fylgjast með bestu spilurum heims.

Þegar Svava Sól er spurð hvort hún hyggist stuðla að nýliðun og kynna brids fyrir félögum sínum svarar hún neitandi. „Þeir myndu ekki hafa þolinmæði, maður þarf að grafa svo djúpt í heilann fyrir þessar meldingar í byrjun,“ segir hún og skírskotar til félagsvistar sem haldin var á dögunum í skólanum hennar og sumir vissu ekki hvað tromp var. Svava Sól var mjög hneyksluð.

Um 1.000 manns keppa

Bridgesamband Íslands var stofnað 26. apríl 1948. Í dag eru starfandi 28 bridsfélög í öllum landshlutum. Um 1.000 manns spila reglulega keppnisbrids í félögum innan BSÍ, auk mikils fjölda fólks sem spilar sér til skemmtunar í heimahúsum og á vinnustöðum. BSÍ heldur Íslandsmót í opnum flokki, kvennaflokki, öldungaflokki (eldri en 50 ára), flokki yngri spilara (25 ára og yngri) og paraflokki.

Bridgesamband Íslands er aðili að Nordisk Bridge Union (NBU), European Bridge League (EBL) og World Bridge Federation (WBF) og sendir landslið til keppni í mótum á þeirra vegum.