Ákvörðun um að eyða tölvupóstum sérstaklega valdra einstaklinga vekur undrun og áhyggjur
Hanna Birna Kristjánsdóttir breytti skýrslu sem hún flutti sem varaformaður á Landsfundi í kveðjuræðu. Það er ekki hægt að finna að því, þar sem forsendur höfðu breyst. Ræðan var óneitanlega persónuleg og sjálfhverf og það er ekki heldur hægt að finna að því, eins og á stóð. Niðurstaða hennar var sú að sjálfstæðisfólk mætti treysta því að ræðumaðurinn ætlaði sér svo sannarlega að vera áfram í stjórnmálum. Það er líka ástæðulaust að efast um að Hanna Birna geti náð sér á strik aftur.

Hið svokallaða „lekamál“ liggur nú fyrir. Ekkert bendir til að Hanna Birna hafi verið gerandi í því.

Það má stórlega efast um að þessi „leki“ hafi verið alvarlegri en fjölmargir aðrir lekar úr stjórnkerfinu, sem allir fjölmiðlar kannast við. Fjölmiðlar „nýta“ sér aðeins örlítið brot af slíkum lekum af margvíslegum ástæðum. Eitt af því sem þeir leggja örugglega mat á, er hvort „lekinn“ brjóti siðferðileg mörk eða hvort menn séu að reyna að (mis)nota fjölmiðilinn sem í hlut á með óeðlilegum hætti.

Umrætt „lekamál“ beindist að hluta að bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Margoft á undanförnum árum hafa umsjónarmenn Kastljóss „RÚV“ stært sig af því í útsendingum að þeir hafi undir höndum skýrslur innan úr opinberum stofnunum sem aðrir hafa ekki. Þeim gögnum hafi með öðrum orðum verið „lekið“ til þeirra, því varla hafa umsjónarmenn komist yfir þau fyrir eigin atbeina. Sé svo, er til nafn yfir þær athafnir.

Þeir, sem hafa starfað lengi innan hins opinbera kerfis, kannast einnig við að stundum er „lekið“ til að tryggja umfjöllun um mál, sem ella yrði lítil sem engin. Fjölmiðlum er illa við fréttatilkynningar því með þeim er einatt reynt að taka yfir verkefni ritstjórnar. Telji þeir sig hins vegar hafa efni í höndunum sem „keppinautarnir“ hafa ekki, birta þeir efnið hins vegar hróðugir.

Þar er þó langoftast efni á ferð sem fráleitt væri að telja óeðlilegt að birta.

Í lekamálinu svokallaða voru mistökin sennilega sú að „leka“ upplýsingum í stað þess að birta þær einfaldlega opinberlega. Þeir, sem upplýsingarnar snertu, háðu slag sinn við ráðuneytið og stofnanir þess opinberlega og lögfræðingar þeirra sem í hlut áttu voru með ótrúlega liðugan aðgang t.d. að fréttastofu ríkisins.

Skjólstæðingar lögfræðinganna höfðu hins vegar mörgu að leyna sem stórlega myndi veikja þeirra málstað ef upplýst yrði um.

Víða erlendis þá er það reglan að birta almenningi upplýsingar í ríkari mæli en ella þegar þannig stendur á.

Annars staðar eru „viðskiptavinir“ hins opinbera, sem færa umsóknir sínar út á opinberan völl, spurðir skriflega hvort birta megi fyrirliggjandi upplýsingar um þá og synji þeir því, er sagt frá synjuninni opinberlega.

Sjálfstæðir saksóknarar gengu mjög hart fram í nefndu máli og er ekki hægt að benda á hliðstæðu þess. (Svo ekki sé minnst á ósköpin þegar umboðsmaður Alþingis tróð sér inn í málið, sem þegar var í höndum lögreglu og saksóknara).

Nú er miklu alvarlegra mál uppi. Komið er á daginn að einhver óskaði sérstaklega eftir því að tölvupóstar yfirmanna í Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu yrðu eyðilagðir og einnig afrit slíkra pósta. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að ein af ástæðum þess gjörnings hafi verið málatilbúnaður fyrir Landsdómi. Af hverju í ósköpunum er þetta mál ekki rannsakað? Hvaða menn áttu þarna í hlut, hverjir þrýstu á og hverjir tóku endanlega ákvörðun um að eyða tölvupóstunum.

Mál fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna sýnir að ekki er útilokað að „finna“ eydda tölvupósta aftur, ef reynt er í tæka tíð. Ef mál af þessu tagi er ekki rannsakað þá er a.m.k. ástæða til að upplýsa almenning í landinu um hverjir komi í veg fyrir það og hvers vegna. Ræður hreinn geðþótti eða efnislegt mat, sem stenst skoðun, þeirri ákvörðun? Traust til sjálfstæðra opinberra aðila veltur á því hvernig slíkum spurningum er svarað.