[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erna Ingibjörg fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 27.10. 1955 og ólst upp í Hafnarfirði: „Ég ólst upp í gróskumiklu hverfi sem bauð upp á ýmiss konar starfsemi, s.s.
Erna Ingibjörg fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 27.10. 1955 og ólst upp í Hafnarfirði: „Ég ólst upp í gróskumiklu hverfi sem bauð upp á ýmiss konar starfsemi, s.s. pípugerð, hænsnakofa og svínabú að ógleymdu hrauninu sem hefur gegnum tíðina verið spennandi leiksvæði og aukið ímyndunarafl hafnfirskra barna.“

Erna hóf sína skólagöngu í Öldutúnsskóla og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg. Eftir það vann hún í eitt ár en fór síðan í lýðháskóla í Noregi og lauk stúdentsprófi frá Ármúlaskóla 1978. Hún hefur alltaf haft áhuga á handverki, var sífellt teiknandi og alltaf að föndra. Eftir handmenntabraut í lýðháskólanum fór hún í Kennaraháskólann, lagði þar áherslu á handmennt og lauk BEd-prófi 1981. Hún bjó síðan í Keflavík þar sem eiginmaður hennar vann við sjúkrahúsið þar en flutti síðan aftur til Hafnarfjarðar, lauk smíðakennaraprófi frá KHÍ 1984 og kenndi í hálfu starfi með náminu. Næstu árin var hún umsjónarkennari í Öldutúnsskóla og kenndi jafnframt lengst af nokkrum bekkjum textíl og smíðar.

Erna lauk MEd-prófi í stjórnun frá HA 2006 en lokaritgerð hennar fjallaði um námsmat kennara. Hún sinnti almennri kennslu á yngsta- og miðstigi, smíðar og handmennt á árunum 1981-2005, var deildarstjóri yngsta- og miðstigs Álftanesskóla 2006-2008 og var aðstoðarskólastjóri Álftanesskóla 2005-2006 og 2008-2014.

Hleður batterí á Austfjörðum

Erna hefur skrifað grein í Netlu um námsmat og handbók fyrir kennara: Fjölbreyttar leiðir í námsmati. Að meta það sem við viljum að nemendur læri, sem gefin var út af IÐNÚ 2011. Hún hefur haldið fyrirlestra og námskreið um námsmat fyrir grunnskólakennara frá 2007: „Námsmat er mikilvæg grunnforsenda í öllu námi. Það er ekki bara prófsteinn á nemendur sem slíka heldur einnig á alla okkar viðleitni til að kenna nemendum, auka sjálfstæði þeirra og þroska þá.“

Erna hefur setið í stjórn Félags handmennta- og smíðakennara, var ritari Handavinnukennarafélag Íslands 1985-86 og formaður þess 1986-88, sat í ritnefnd fagblaðs handmennta- og smíðakennara 1996-98, sat í stjórn og var formaður NST, Félags norræna handmennta- og smíðakennara 1988-90 og var fulltrúi Íslands í stjórn NST 1986-90.

Erna hefur dvalið á sveitabæ austur á fjörðum á sumrin frá 1984. Þar nýtur hún þess að draga sig út úr skarkala þéttbýlisins, sinna hugðarefnum sínum og fara í gönguferðir í næsta nágrenni.

Fjölskylda

Eiginmaður Ernu er Daníel Hálfdanarson, f. 2.8. 1954, geislafræðingur. Foreldrar hans: Guðbjörg Daníelsdóttir frá Kolmúla í Reyðarfirði, síðar búsett í Hafnarfirði, f. 16.2. 1915, d. 1.1. 2000, og Hálfdan Þorsteinsson, frá Vattarnesi, Reyðarfirði, síðar í Hafnarfirði, f. 27.9. 1904, f. 22.7. 1981.

Synir Ernu og Daníels eru Jóhann Daníelsson, f. 20.5. 1980, móttökustjóri á Brøchner Hotel og rekstrarstjóri Dea Nattura Spa í Kaupmannahöfn; Páll Daníelsson, f. 20.1. 1984, nemi við Leiden University í Holland en kærasta hans er Eva Kristín Kristbjörnsdóttir, nemi við Royal Academy of Art, The Hague í Holland, og Hálfdan Daníelsson, f. 10.1. 1989, nemi við Stýrimannaskólann í Hafnarfirði en kærasta hans er Halla Rós Eyjólfsdóttir, nemi HÍ.

Albróðir Ernu er Ingimundur Pálsson, f. 1.4. 1952., lyfjafræðingur í Noregi.

Hálfsystkini Ernu, samfeðra: Kristján Pálsson, f. 23.1. 1944, d. 1.9. 2011, prentmyndameistari og málari í Reykjavík, og Guðrún Pálsdóttir, f. 12.11. 1950, búsett á Flateyri.

Foreldrar Ernu voru Páll Einarsson, f. 16.8. 1917, d. 21.9. 1984, og Halldóra S. Ingimundardóttir, f. 22.9. 1930, d. 7.10. 1999. Þau ráku Prentsmiðjuna í Reykjavík.