Steinunn Jónína Ólafsdóttir fæddist 16. maí 1935. Hún lést 24. september 2015. Útför hennar fór fram 3. október 2015.

Í október eru 60 ár frá því að við hittumst, fyrsti hópurinn sem stundaði nám við Samvinnuskólann eftir að hann var fluttur frá Reykjavík til Bifrastar í Borgarfirði. Nemendur voru ólíkir þetta fyrsta ár, komu víðs vegar að af landinu og voru á aldrinum frá 16 ára til 25 ára. En nú er farið að fækka í hópnum. Við getum þakkað fyrir hve mörg ár við höfum átt saman, af 30 manna hópi hafa nú sex horfið á braut, nú síðast skólasystir okkar, Steinunn Jónína Ólafsdóttir, sem við minnumst nú.

Steinunn var sterkur persónuleiki, ákveðin og röggsöm. Hún var mjög félagslynd, enda þótt hún virkaði hæglát. Hún hikaði samt ekki við að láta skoðanir sínar í ljós. Hún tók verulegan þátt í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, hún söng í kvennasveitinni okkar, hélt ræðu um minni karla á skemmtun og tók þátt í öllum „prakkarastrikum“ sem okkur datt í hug að gera og gat hlegið og skemmt sér yfir þeim, m.a. gleymdum við tvær okkur saman eitt sinn að skrifa grein í blaðið okkar um hvernig framtíðin myndi verða hjá okkur skólafélögunum að námi loknu og kom þá ýmislegt fram sem kannski ekki var sett allt á blað. Já, það er svo ótal margs að minnast frá dvöl okkar í Bifröst, framtíðin beið okkar og allt var svo létt og jákvætt. Sem fyrsti hópur er hóf nám í Bifröst var okkur falið að móta skólalífið með alls kyns klúbbum og viðburðum til að vera sem best fyrirmynd fyrir komandi skólastarf.

Fyrstu árin eftir útskrift hittumst við á fimm ára fresti og var alltaf eins og við hefðum hist í gær og urðum aftur sömu unglingarnir, en núna seinni árin reynum við að hittast oftar. Ekki lét Steinunn veður eða langa leið aftra sér frá því að hitta okkur og minnist ég þess að hún þurfti að fara á snjóbíl frá Seyðisfirði til Egilsstaða í bandvitlausri snjókomu og þaðan í flugvél til Reykjavíkur til þess að mæta svo í Bifröst til okkar félaganna Síðast hittumst við ótrúlega mörg á heimili mínu í byrjum júní þegar ein skólasystir okkar sem býr í Englandi var stödd hér á landi og gleymdum okkur við að rifja upp gamlar minningar lengi kvölds. Þá var Steinunn meðal okkar og var svo hress og glöð eins og hennar var von og vísa og þess vegna brá okkur mjög þegar við fengum dánarfregn hennar núna. Við vorum nýbúin að skoða svo fallega mynd af henni með barnabörnum á „Facebook“ tekna í tilefni af áttræðisafmæli hennar.

Steinunn fékk sinn hluta af lífsins mótlæti sem hún mætti með mikilli hugprýði. Eftir lát eiginmanns síns flutti hún suður í skjól barna sinna og átti góð ár í miklu sjálfboðastarfi í Reykjavík, en hún hafði alltaf verið virk í félagsstarfi á heimaslóðum. Við skólasystkinin vottum börnum hennar og fjölskyldum okkar innilegustu samúð og söknum hennar úr okkar hópi.

Fyrir hönd útskriftarhóps Samvinnuskólans í Bifröst 1957,

Magnea K. Sigurðardóttir.