Reykjavíkurflugvöllur ÞG verktakar vilja reisa byggingakrana við norðurenda hinnar svokölluðu neyðarflugbrautar Reykjavíkurflugvallar, 06/24.
Reykjavíkurflugvöllur ÞG verktakar vilja reisa byggingakrana við norðurenda hinnar svokölluðu neyðarflugbrautar Reykjavíkurflugvallar, 06/24. — Morgunblaðið/Þórður
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.
Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

ÞG verktakar hafa sent Samgöngustofu beiðni um að mega hefja framkvæmdir og setja upp byggingakrana vegna byggingar íbúðarhúsnæðis nærri norðurenda svokallaðarar neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar, líkt og fram kom í Morgunblaðinu í gær.

Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, segir að Samgöngustofa hafi sl. föstudag beðið Isavia um umsögn vegna fyrirhugaðrar uppsetningar.

„Eins og kunnugt er hefur Samgöngustofa fengið erindi frá ÞG verktökum ehf. vegna byggingakrana við Hliðarenda, reit D á byggingarsvæðinu. Áður en Samgöngustofa tekur málið formlega til afgreiðslu hefur Samgöngustofa beðið um umsögn Isavia vegna fyrirhugaðrar uppsetningar.

Slíkt erindi var sent til Isavia föstudaginn 23. október sl.,“ segir orðrétt í skriflegu svari Þórólfs við fyrirspurn Morgunblaðsins. Forstjórinn svarar því hins vegar ekki hvort það að reisa byggingakrana við norðurenda neyðarbrautarinnar geri það ekki að verkum að hann verði í aðflugslínu brautarinnar.