Öflug Pálína María Gunnlaugsdóttir fór mikinn í sigri Hauka gegn Keflavík. Hér er hún í leik með íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í sumar.
Öflug Pálína María Gunnlaugsdóttir fór mikinn í sigri Hauka gegn Keflavík. Hér er hún í leik með íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í sumar. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sú besta Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Pálína María Gunnlaugsdóttir átti aldeilis flottan leik með Haukum gegn sínum gömlu samherjum í Keflavík þegar liðin áttust við í 4. umferð Dominos-deildarinnar í körfuknattleik á dögunum.
Sú besta

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Pálína María Gunnlaugsdóttir átti aldeilis flottan leik með Haukum gegn sínum gömlu samherjum í Keflavík þegar liðin áttust við í 4. umferð Dominos-deildarinnar í körfuknattleik á dögunum. Pálína, sem gekk í raðir Haukanna fyrir tímabilið, skoraði 37 stig, tók 6 fráköst og átti eina stoðsendingu í sigri Hauka, 88:74, á útivelli. Pálína er leikmaður 4. umferð deildarinnar. Morgunblaðið fékk Helenu Sverrisdóttur, liðsfélaga Pálínu, til að lýsa henni;

„Pálína er vítamínsprauta í hvaða liði sem hún er. Það er ótrúlega mikil orka í henni,“ segir Helena, besta körfuknattleikskona landsins um árabil, um samherja sinn en Helena sneri heim í sumar úr atvinnumennsku og samdi við sitt gamla félag. Þær Pálína og Helena voru búnar að sammælast um það þegar Helena hélt til Bandaríkjanna á sínum tíma að þær ætluðu að spila í sama liði síðar meir og nú er það orðið að veruleika.

„Pálína er þekkt fyrir sinn góða varnarleik en hún sýndi það í leiknum á móti Keflavík að hún kann sko ennþá að spila sóknarleikinn. Pálína er þannig leikmaður að hún rífur alla með sér og það er ávallt mikill hasar og læti í henni. Við höfum náð mjög vel saman og gaman að endurtaka leikinn á ný með því að kasta boltanum á hana langt fram á völlinn,“ segir Helena en Haukar hafa byrjað tímabilið vel og hafa unnið alla þrjá leiki sína í deildinni á tímabilinu.

Mikil keppnismanneskja

Pálína hefur skorað 19,3 stig að meðaltali í leikjunum þremur, tekið 6,3 fráköst og átt 1,3 stoðsendingar.

Spurð um helstu styrkleika Pálínu sem leikmanns segir Helena;

„Hún er rosalega mikil keppnismannenska og sættir sig ekki við neitt nema að vinna. Hún er mjög dugleg að fá alla leikmenn með sér í baráttu og er sérlega góður varnarmaður. Pálína kann leikinn mjög vel enda ansi reynd í bransanum. Hún er frábær varnarmaður og er yfirleitt látin pirra besta leikmanninn í liði andstæðinganna. Það er ansi gott að vera með svona leikmann í sínu liði,“ sagði Helena Sverrisdóttir.