[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Slitabú föllnu bankanna telja sig fallin á tíma í bið eftir svörum frá Seðlabanka Íslands varðandi undanþágur frá gjaldeyrishöftum.
Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Slitabú föllnu bankanna telja sig fallin á tíma í bið eftir svörum frá Seðlabanka Íslands varðandi undanþágur frá gjaldeyrishöftum.

Þannig ákvað slitastjórn Kaupþings síðastliðinn föstudag að senda út gögn til kröfuhafa sem leggja grunninn að frumvarpi að nauðasamningi búsins. Slitastjórnin brá á þetta ráð þrátt fyrir að það hafi enn ekki fengið endanleg svör frá Seðlabanka Íslands við beiðni búsins um undanþágu frá gjaldeyrishöftum.

Nærri fjórir mánuðir eru nú liðnir frá því að Seðlabankanum barst erindi frá slitabúinu þar sem tilkynnt var um fyrirætlanir þess um gerð nauðasamnings og að leitað væri atbeina bankans til að hægt væri að ljúka þeirri vinnu. Byggir nauðasamningurinn að grunni til á þeim tillögum sem lykilkröfuhafar Kaupþings höfðu sent stjórnvöldum og ætlað var að mæta þeim kröfum sem sett voru fram í hinum svokölluðu stöðugleikaskilyrðum sem framkvæmdahópur um afnám fjármagnshafta hafði mótað í umboði ríkisstjórnarinnar.

Lítið svigrúm til breytinga

Fyrr í þessum mánuði hafði slitastjórn Landsbankans (LBI) brugðið á sama ráð og sent út lykilupplýsingar varðandi frumvarp að nauðasamningi búsins. Bæði LBI og Kaupþing verða samkvæmt bandarískum lögum að birta þarlendum kröfuhöfum gögnin með minnst fjögurra vikna fyrirvara og því töldu búin sig ekki geta hætt á að senda gögnin út síðar, ætli þau sér að ná því markmiði að fá nauðsamning staðfestan fyrir dómstólum fyrir árslok.

Þar sem slitabúin hafa birt fyrrnefnd gögn er svigrúm til breytinga á þeim afar takmarkað, samkvæmt bandarískri löggjöf. Því er talið hæpið að hægt verði að gera verulegar efnislegar breytingar á nauðasamningsdrögunum úr þessu.

Muni Seðlabankinn gera kröfur um verulegar breytingar á þeim gögnum sem birt hafa verið, segja heimildir Morgunblaðsins útilokað að fá nauðasamningana samþykkta fyrir áramót og með því koma slitabúunum undan stöðugleikaskatti.

Kosið um nauðasamninga

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur slitastjórn Kaupþings ákveðið að boða til kröfuhafafundar hinn 24. nóvember næstkomandi þar sem kosið verður um nauðasamning. Mun hann fara fram hérlendis. Miðað við þá áætlun gerir slitabúið ráð fyrir því að Héraðsdómur Reykjavíkur muni hafa tvær vikur til þess að fara yfir samninginn og fylgiskjöl hans.

LBI, slitabú gamla Landsbankans, hefur boðað til kröfuhafafundar í sama skyni hinn 17. nóvember næstkomandi.

Áætlanir höfðu gert ráð fyrir því að sá fundur yrði haldinn 5. nóvember en slitabúið hefur nú neyðst til að skjóta fundinum á frest þar sem mjög hægt hefur gengið að fá endanleg svör frá Seðlabankanum varðandi málið.

Uppgjörið nálgast
» Kosið verður um nauðasamning Kaupþings 24. nóvember. Eignir búsins námu um mitt ár 837 milljörðum króna.
» Glitnir stefnir á að boða til fundar 16. nóvember þar sem greidd verða atkvæði um nauðasamning. Eignir búsins voru um mitt ár 981 milljarður.
» Kröfuhafar LBI munu greiða atkvæði um nauðasamning 17. nóvember en þar verður eignum að verðmæti 462 milljarðar ráðstafað.