Gamlir hafnargarðar Landstólpar vilja hefja framkvæmdir á lóðinni sem fyrst. Fulltrúar félagsins fara á fund í forsætisráðuneytinu í dag.
Gamlir hafnargarðar Landstólpar vilja hefja framkvæmdir á lóðinni sem fyrst. Fulltrúar félagsins fara á fund í forsætisráðuneytinu í dag. — Morgunblaðið/Golli
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Forsvarsmenn Landstólpa þróunarfélags fara á fund í forsætisráðuneytinu eftir hádegi í dag til að ræða um gamla hafnargarðinn og framkvæmdirnar að Austurbakka 2. Í gær voru vinnuvélar fluttar á lóðina.
Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Forsvarsmenn Landstólpa þróunarfélags fara á fund í forsætisráðuneytinu eftir hádegi í dag til að ræða um gamla hafnargarðinn og framkvæmdirnar að Austurbakka 2. Í gær voru vinnuvélar fluttar á lóðina.

„Við þurfum að halda áfram með verkið og erum að búa okkur undir það,“ sagði Gísli Steinar Gíslason, stjórnarformaður Landstólpa þróunarfélags. „Við viljum samt ná lendingu sem allir geta unað við. Það verður frábært ef það næst ásættanleg lausn.“

Hann sagði að Landstólpar hefðu lagt margar tillögur fyrir Minjastofnun. Engin niðurstaða hefði þó fengist. „Þetta snýst allt um kostnað. Tillögurnar eru misáhrifamiklar varðandi hafnargarðinn,“ sagði Gísli.

Landstólpar vilja helst fjarlægja gamla garðinn. Gísli sagði að vildu menn varðveita hann yrði að vinna út frá því. Það að varðveita garðinn þar sem hann stendur mun hafa í för með sér aukakostnað við framkvæmdirnar upp á a.m.k. 2,2 milljarða króna, að sögn Gísla.

„Þá verður ekki hægt að byggja bílakjallara undir byggingunum eins og er ráðgert. Það þarf þá að flytja bílakjallarann annað og það kostar þessa upphæð,“ sagði Gísli. Stærðargráða verkefnisins alls hljóðar upp á um tíu milljarða króna.

Framkvæmdir við verkefnið hafa verið í biðstöðu síðan í júlí en þá átti fornleifauppgreftri að ljúka. Gísli sagði að Minjastofnun hefði dregið að taka ákvörðun og veggurinn síðan verið skyndifriðaður þegar í ljós kom að hann var ekki orðinn 100 ára, en það var talið í fyrstu. Eins taldi Gísli að nýta hefði átt sex vikna frest, sem forsætisráðherra hafði til að ákvarða um vegginn, til að vinna með Landstólpum að lausn.

„Fresturinn er útrunninn og þá er veggurinn bara ófriðaður,“ sagði Gísli. „Við erum með bréf frá Minjastofnun þar sem því er lýst yfir að veggurinn sé frá 1928 og borgarminjavörður er sömu skoðunar.“

Gömul mannvirki
» Við jarðvegsframkvæmdir á lóðinni Austurbakka 2 komu í ljós tvennar minjar um hafnarmannvirki.
» Annars vegar er bólverk í suðausturenda lóðarinnar sem var hlaðið 1876. Friðlýsingin nær ekki til þeirra minja.
» Hins vegar er gamli hafnargarðurinn sem var hlaðinn 1913-17 en færður fram um sjö metra árið 1928.