[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af bókmenntum Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í Hörpu síðar í dag og þá skýrist hver bókanna fjórtán sem tilnefndar eru í ár stendur upp úr að mati dómnefndar.
Af bókmenntum

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í Hörpu síðar í dag og þá skýrist hver bókanna fjórtán sem tilnefndar eru í ár stendur upp úr að mati dómnefndar. Í fyrri pistlinum um tilnefndu bækurnar sem birtist í gær var sjónum beint að þeim bókum þar sem dýr eru í aðalhlutverki, en það er áberandi þema í ár og góð leið til þess að ná til ungra lesenda. Bækurnar átta sem eftir eru eiga það hins vegar flestar sameiginlegt að fjalla um börn á erfiðum tímum, vegna t.d. veikinda eða afskiptaleysis foreldra, og börn í breyttu samfélagi.

Í dönsku skáldsögunni Ud med Knud eftir Jesper Wung-Sung beinir höfundur sjónum sínum að William, ofurvenjulegum 12 ára strák sem fær krabbamein. Í kjölfarið tekur líf hans miklum breytingum, því skólasókn víkur fyrir erfiðri lyfjameðferð og samskiptin við foreldrana breytast þar sem þau eru eðlilega mjög áhyggjufull. William spinnur upp ósýnilegan leikfélaga, Knud, sem er persónugervingur krabbameinsins. Framanaf einkennast samskipti Williams og Knuds af mikilli reiði og jafnvel ofbeldi, en William gerir margar tilraunir til að losna við leikfélagann. En þegar það loks tekst finnur William fyrir vissum söknuði, enda reyndist honum erfitt að deila reynslu sinni af sjúkdómnum með öðrum. Höfundur nálgast viðfangsefnið af miklu næmi og skapar eftirminnilega bók.

Flóttafólk og innflytjendur

Norska skáldsagan De som ikke finnes eftir Simon Stranger á brýnt erindi við samtímann með umfjöllun sinni um flóttafólk og stöðu þess. Þegar sagan hefst eru þrjú ár síðan hin 15 ára gamla Emilie hjálpaði Samuel, ungum afrískum flóttamanni, á þurrt land á Kanaríeyjum. Þegar lögreglan kom að sækja hann gaf hún honum miða með heimilisfangi sínu í Noregi. Nú þremur árum síðar er hann mættur heim til hennar eftir erfiðan og mannskemmandi flótta um Evrópu þar sem hann hefur verið misnotaður kynferðislega og neyddur í þrælavinnu. Hann lætur sig dreyma um að Emilie geti veitt honum skjól í Noregi, en hún óttast gestinn sem breyst hefur mikið á þremur árum. Höfundur dregur upp átakanlega mynd af þeim mikla mun sem er á lífsskilyrðum fólks, sem ræðst einvörðungu af því hvar í heimi það fæddist. Umfjöllunarefnið er þarft, en einkennist á köflum af of mikilli melódramatík og endirinn er snubbóttur þar sem „vandamálið“ er hreinlega látið hverfa.

Spænskur innflytjandi af pólskum uppruna, Sylvek Kaminski Arias, er söguhetja íslensku skáldsögunnar Maðurinn sem hataði börn eftir Þórarin Leifsson. Titill bókarinnar vísar í nýjan leigjanda á heimili Sylveks, sem táningurinn verður sannfærður um að beri ábyrgð á drengjamorðum í Reykjavík. Sagan berst á ævintýralegan hátt niður í undirheima Reykjavíkur þar sem líkamsræktarsteratröll ráða ríkjum. Samhliða þessu er Sylvek að leita að eldri systur sinni sem hvarf sporlaust áður en bókin hófst. Bókin er allt í senn æsispennandi leynilögreglusaga, beitt menningarádeila og þroskasaga Sylveks, samtímis því sem hún er ískrandi fyndin, afar hugmyndarík og vel skrifuð. Svart/hvítar teikningar höfundar eru tjáningarríkar og myrkar, sem kallast vel á við textann.

Kraftmikil andspyrnusaga

Barátta kynjanna er áberandi í finnsku fantasíunni Maresi. Krönikor från Röda klostret eftir Mariu Turtschaninoff, sem skrifuð er á sænsku. Sagan er sögð í fyrstu persónu, en sögumaður er Maresi Enresdóttir sem líkt og fleiri stúlkur á ólíkum aldri hefur leitað skjóls í nunnuklaustri á eyjunni Menos. Þegar sagan hefst ríkir á eyjunni jafnvægi þar sem íbúum veitist tóm til að stunda nám og bústörf. Jafnvæginu er raskað þegar stúlkan Jai kemur til eyjunnar á flótta undan ofbeldisfullum föður sínum sem gróf systur hennar lifandi í því skyni að verja heiður fjölskyldunnar. Ekki líður á löngu þar til hrottinn eltir dóttur sína til eyjunnar og þurfa nunnurnar þá að grípa til töfrakrafta sinna til að halda lífi. Þetta er kraftmikil andspyrnusaga þar sem ofbeldi og kúgun karlpeningsins er mótmælt með skýrum hætti í afar læsilegri og spennandi skáldsögu.

Fyrsta ástin og ljóðasjór

Samskipti kynjanna eru líka til umfjöllunar, en þó með afar ólíkum hætti, í norsku skáldsögunni Joel og Io. En kjærlighetshistorie eftir Geir Gulliksen sem Anna Fiske myndskreytti. Höfundur fjallar á einstaklega fallegan og hrífandi hátt um fyrstu ástina. Joel, sem er í fyrsta bekk, verður yfir sig hrifinn af stúlkunni Io, sem er ári eldri en hann. Af textanum má ráða að Io sér líka eitthvað við Joel og af mikilli varfærni prófa þau að vera kærustupar. Þeim gefst hins vegar ekki mikill tími saman því stuttu síðar verður ljóst að Io þarf að flytja þar sem foreldrar hennar ætla að hefja nýtt líf saman. Höfundi tekst listilega vel að fanga feimnina, spennuna, eftirvæntinguna og áhyggjurnar sem fylgja ástinni. Teikningar Fiske eru skemmtilegar og fanga vel andrúmsloft frásagnarinnar.

Álendingar tilnefndu enga bók í fyrra, en í ár er framlag þeirra skáldsagan Alberta Ensten och uppfinnarkungen eftir Malin Klingenberg sem Ida-Maria Wikström myndskreytti. Mamma Albertu Ensten er vísinda- og uppfinningakona sem tekist hefur að hanna fljúgandi hús sem knúið er af blöndu sólar- og skýjaorku. Mamman hyggst leggja húsið fljúgandi fram í stórri uppfinningakeppni með það að markmiði að vinna, en þarf fyrst að verjast árás lævíss uppfinningaþjófs. Mömmunni til halds og traust er Alberta og Tor, bekkjarbróðir Albertu sem er mjög feiminn en hefur lengi verið skotinn í henni. Höfundur dregur upp mynd af fremur sjálfhverfu, fullorðnu fólki sem hugsar um það eitt að vinna, en börnin eru framsýnni, framtakssamari og kærleiksríkari en hinir fullorðnu. Teikningar Wikström eru fullar af húmor og hæfa sögunni vel.

Tvær bækur skera sig nokkuð úr í ár fyrir að vera þær einu sinnar tegundar, en það eru danska ljóðabókin Ella er mit navn vil du købe det? Æske med løsblade og poetsne eftir Mette Hegnhøj og finnska fræðibókin Leonardo oikealta vasemmalle sem Marjatta Levanto og Julia Vuori sömdu saman og undirrituð las í sænskri þýðingu.

Leonardo oikealta vasemmalle

, sem þýðir Leonardo frá hægri til vinstri, er fræðibók sem fjallar um líf, list og uppfinningar ítalska listmálarans Leonardo da Vinci. Eins og textahöfundurinn Levanto bendir á í upphafi bókar sinnar er ekki mikið vitað um ævi listmálarans, en með hjálp vinnudagbóka og skissubóka hefur tekist að púsla saman mynd af einkalífi hans. Textinn er bæði aðgengilegur og líflegur og gæti því hentað vel til kennslu. Málverk da Vinci og síður úr skissubókum hans fá gott rými í bókinni, en Vuori tekst með myndskreytingum sínum að færa efnið nær lesendum. Umbrot bókarinnar og prent er afar vel úr garði gert, þar sem textinn er brotinn smekklega upp með ólíkum leturgerðum og gagnsæjar síður eru nýttar til að sýna hvernig uppdrættir og hugmyndir renna saman.

Ljóðabókin Ella er mit navn vil du købe det? Æske med løsblade og poetsne er einstaklega heillandi listaverk þar sem saman fer frumleg hönnun og áhrifamikið innihald. Brúnni, kaffiblettóttri pappaöskju er haldið saman með gúmmíteygju sem á er skrifað: „Varúð – inniheldur ljóðasnjó!“ Fyrir utan ljóðasnjóinn eru í öskjunni 138 laus blöð sem skrifað hefur verið á með gamalli ritvél. Textann skrifaði Ella rétt um það leyti sem hún varð 12 ára. Í stuttum færslum fjallar hún um eigin sorg og einmanaleika, en faðir hennar hvarf fyrirvaralaust og nú er móðir hennar, sem rekur fornbókaverslun, upptekin af nýjum manni. Ella saknar ekki aðeins föður síns heldur einnig kettlingsins Kattekismus, sem fylgt hafði einu þeirra dánarbúa sem inn í verslunina rata. Ellu grunar að móðir hennar hafi látið kettlinginn hverfa, eftir aðeins níu daga veru hjá þeim mæðgum, og til að hefna sín gatar hún bókakost fornbókabúðarinnar með gatara svo úr verður ljóðasnjór. Íslenskir útgefendur ættu alls ekki að láta þessa frumlegu bók framhjá sér fara og koma henni til íslenskra lesenda hið fyrsta, því hér er sannkallaður gimsteinn á ferð sem á erindi við jafnt unga sem eldri lesendur. Af öðrum tilnefndum bókum sem undirrituð myndi vilja sjá útgefnar hérlendis eru Joel og Io og Ud med Knud .