Rjúpnaveiðar Leyft er að veiða rjúpur í tólf daga í haust. Mynd úr safni.
Rjúpnaveiðar Leyft er að veiða rjúpur í tólf daga í haust. Mynd úr safni. — Morgunblaðið/Golli
Veðrið setti strik í reikninginn fyrstu rjúpnaveiðidagana þetta haustið. Víða var slæmt skyggni eða hríð og hvasst. Ekki þurfti að leita að rjúpnaskyttum þrátt fyrir slæmt veður á fjöllum.
Veðrið setti strik í reikninginn fyrstu rjúpnaveiðidagana þetta haustið. Víða var slæmt skyggni eða hríð og hvasst. Ekki þurfti að leita að rjúpnaskyttum þrátt fyrir slæmt veður á fjöllum.

Ingólfur Kolbeinsson, verslunarstjóri í Vesturröst, gekk til rjúpna á föstudag í Húnavatnssýslu. Rjúpan hélt sig hátt þar sem var bæði hríð og lágskýjað. Skyggnið var lítið sem ekkert. Hann sagði að hann hefði misst sjónar á bílnum þegar hann var farinn um 150 metra frá honum.

„Við löbbuðum af stað með GPS-inn og ég meira að segja tók gamla áttavitann úr bakpokanum til öryggis,“ sagði Ingólfur.

„Það voru mikil ummerki eftir rjúpur, spark og spor, í 650 til 700 metra hæð. Ég var ánægður að sjá það. Rjúpan var ekki neðar en það þótt það væri kominn snjór alveg niður í inndali.“ Ingólfur vissi af veiðimönnum sem óku tvisvar upp í fjall en hættu í bæði skiptin við að fara út vegna þess hvað skyggnið var slæmt.

Hann hafði heyrt í rjúpnaskyttum af báðum kynjum sem fóru á aðrar veiðislóðir. Veiðimenn á Holtavörðuheiði og niður í Hrútafjörð höfðu séð eitthvað af fugli og náð rjúpum. Sömu sögu var að segja af konu sem fór á Lyngdalsheiði. Veiðimaður sem fór inn fyrir Kaldadal sá samtals 18 rjúpur sem voru styggar. Hann náði samt nokkrum.

Ingólfur sagði alveg magnað að ekki hafi þurft að leita að rjúpnaskyttum um helgina, vegna þess hvað skyggnið var slæmt.

„Ég veit að á Melrakkasléttu og víðar á þeim slóðum var þoka og rigning. Ég frétti af veiðimanni sem fór í tvo daga og veiddi nóg fyrir sig þótt skyggnið væri slæmt,“ sagði Ingólfur. „Mér finnst hljóðið í veiðimönnum vera betra en ég reiknaði með. Það væri þó skemmtilegra ef maður gæti valið daga þegar betur viðrar til rjúpnaveiða.“

gudni@mbl.is

4-8 rjúpur

„Heilt yfir var þokkalegasta veiði, algengt 4-8 rjúpur á byssu, eftir daginn,“ sagði Björgvin Þ. Pálsson, verslunarstjóri Veiðiflugunnar á Reyðarfirði. Föstudag og sunnudag viðraði vel til veiða fyrir austan en ekki á laugardag.

„Menn voru að sjá svolítið af fugli en hann var styggur. Ég hef gengið hér til rjúpna í 30 ár. Mér finnst ástandið á rjúpnastofninum ekki slæmt, en það hefur verið betra.“