Jóhannes Loftsson
Jóhannes Loftsson
Eftir Jóhannes Loftsson: "Slysagildrur eru notaðar sem skiptimynt af skipulagsyfirvöldum, óþægilegum niðurstöðum er sópað undir teppið af opinberu rekstrarfélagi flugvallanna og nýjar niðurstöður pantaðar í snatri fyrir stórfé."

Hætt er við að mörgum þætti það undarlegt ef sett væri það skilyrði að eingöngu þeir sem létu fjarlægja öryggisbeltin úr bílnum sínum mættu vera á negldum dekkjum. En þegar kemur að Reykjavíkurflugvelli þá er hins vegar fátt undarlegt lengur. Í hinu margumtalaða samkomulagi borgarstjóra við innanríkisráðherra frá 2013 virðist nefnilega sett sem skilyrði að hvorki megi fella hættuleg tré við enda einnar flugbrautarinnar né uppfæra lendingarljós hennar svo þau uppfylli íslenska reglugerð og alþjóðaviðmið fyrr en innanríkisráðherra hefur samþykkt að loka eigi neyðarbrautinni. Ekki verður betur séð en að þarna sé verið að nota slysagildrur til að knýja á um lokun neyðarbrautarinnar, sem væri í raun siðlaus misbeiting á skipulagsvaldi.

Þegar samkomulagið er skoðað nánar sést einnig að það snýr eingöngu að undirbúningi á ákvarðanatöku og því langt því frá að það skuldbindi innanríkisráðherra á nokkurn hátt um hver sú ákvörðun verði. Í ljósi þess er í raun merkilegt að Reykjavíkurborg hafi gengið svo langt að gefa leyfi á byggingarframkvæmdir við enda neyðarbrautarinnar án þess að ákvörðun um lokun hennar lægi fyrir. Hætt er við að með þessu hafi skapast skaðabótaábyrgð sem gæti reynst borginni dýrt spaug.

Rándýrar pólitískar fegrunaraðgerðir

Allt undirbúningsferlið að ákvörðun um framtíð neyðarbrautarinnar hefur síðan verið með eindæmum ótrúverðugt. Hæst stendur upp úr ákvörðun ISAVIA að reka fyrstu áhættumatsnefndina eftir að hún komst að því að lokun neyðarbrautarinnar væri óásættanleg. Þessi ákvörðun er algjörlega óskiljanleg því það er ISAVIA sem ber hvað mesta ábyrgð á að flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli sé í lagi. Ekkert einkafyrirtæki mundi nokkurn tímann með beinum hætti ganga svona gegn eigin hagsmunum. En þar sem ISAVIA er opinbert fyrirtæki, þá vekur þetta spurningar um hvort að í þessu máli hafi legið að baki pólitískar ástæður sem hafi vegið þyngra en öryggismál. Vinnubrögðin við greininguna sem eftir fylgdi virðist, ef eitthvað er, renna frekari stoðum undir þennan grun, því við þá greinivinnu var bjartsýni sérfræðinga svo mikil að hvorki var fylgt leiðbeiningum alþjóða flugmálastofnunarinnar né almennri skynsemi. Tregða skýrsluhöfunda við að bregðast við þeim athugasemdum sem síðar komu fram, þar sem jafnvel virtist gripið til útúrsnúninga, benda enn frekar til þess að öll vinnan hafi í raun verið ekkert annað en rándýr pólitísk fegrunaraðgerð til að réttlæta óverjanlega ákvörðun sem á nær örugglega eftir að valda mannsköðum þegar fram líða stundir.

Og hinn pólitíski skrípaleikur heldur áfram. Á sama tíma og að innanríkisráðherra talar um að ekki eigi að loka neyðarbrautinni, þá er verktakinn þegar byrjaður að byggja við brautarendann og skilur lítið í af hverju hann fær ekki að reisa krana í fluglínu. Ljóst er að því lengur sem þessi leikur heldur áfram þá bætist bara í skaðabótakröfuna.

Þráteflinu þarf að ljúka

Stjórnkerfið virðist algjörlega hafa brugðist almenningi í þessu máli. Slysagildrur eru notaðar sem skiptimynt af skipulagsyfirvöldum, óþægilegum niðurstöðum er sópað undir teppið af opinberu rekstrarfélagi flugvallanna og nýjar niðurstöður pantaðar í snatri fyrir stórfé. Allt virðist þetta vera hluti af einhvers konar áróðursbragði sem er eingöngu er gert til að blekkja almenning.

Þótt einkavæðing ISAVIA væri besta framtíðarlausn til að aðskilja pólitísk afskipti frá flugrekstri, þá er vandamálið á Reykjavíkurflugvelli það aðkallandi að það krefst aðgerða strax. Fyrst að stjórnkerfinu er ekki treystandi, þá þyrfti einfaldlega að fara framhjá því og leyfa almenningi í landinu, sem er hinn raunverulegi eigandi flugvallarins, að ákveða framtíð hans milliliðalaust. Slíkt ætti ekki að vera vandamál fyrir hvorugan deiluaðila, því bæði flugvallarvinir og flugvallarandstæðingar hafa sagst tala fyrir almannahag. Komandi forsetakosningar væru því tilvalinn vettvangur til að leiða þetta mál til lykta. Nægur tími er fram að næsta sumri fyrir báða deiluaðila að kynna almenningi sín málefnarök, auk þess sem kosningaþátttakan verður líklega það mikil að varla verður hægt að rengja niðurstöðuna.

Höfundur er verkfræðingur og frumkvöðull.