— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flest heimili sem á annað borð halda jólin hátíðleg útbúa aðventukrans og telja niður vikurnar til jóla með því að kveikja á kertunum fjórum, einu af öðru, síðustu fjóra sunnudaga fyrir jól.

Flest heimili sem á annað borð halda jólin hátíðleg útbúa aðventukrans og telja niður vikurnar til jóla með því að kveikja á kertunum fjórum, einu af öðru, síðustu fjóra sunnudaga fyrir jól. Það er um leið gaman að þekkja nöfn kertanna og kunna jólakvæðin sem hefð er fyrir að syngja hvenær sem kerti er tendrað á kransinum.

Orðið „aðventa“ er dregið af latnesku orðunum Adventus Domini, sem merkja „koma Drottins“ og hefst aðventa á 4. sunnudegi fyrir jóladag, sem í daglegu tali nefnist fyrsti sunnudagur í aðventu. Aðventukransinn sjálfur er talinn vera upprunninn í Þýskalandi á fyrri hluta 19. aldar og barst hann til Danmerkur í kringum 1940. Þaðan, eins og svo margt annað, mun hann hafa borist til Íslands og mun fyrst í stað aðallega hafa verið notaður til að skreyta búðarglugga en á árunum milli 1960 og 1970 var í auknum mæli farið að nota hann á inni á heimilum til skrauts.

Hringurinn eilífi

Aðventukransinn byggist á norðurevrópskri hefð þar sem hið sígræna greni táknar lífið sem er í Kristi og hringurinn táknar eilífðina, enda er hann endalaus. Í kransinum eru fjögur kerti eins og að framan greindi og heita þau svo sem hér segir:

Hið fyrsta heitir Spádómakertið og minnir á fyrirheit spámanna Gamla testamentsins er höfðu sagt fyrir um komu frelsarans.

Annað kertið er Betlehemskertið , eftir fæðingarstað Jesú og minnir á þá staðreynd að það var ekkert rúm fyrir hann heldur lá hann í jötu í fjárhúsi þar í borg.

Þriðja kertið nefnist Hirðakertið en snauðum og ómenntuðum fjárhirðum voru sögð tíðindin góðu á undan öllum öðrum.

Fjórða kertið heitir Englakertið og minnir okkur á þá sem báru mannheimi fregnirnar.

Jólakvæðið frá Noregi

Fyrir um 45 árum orti norski rithöfundurinn Sigurd Muri (1927-1999) ljóð um kertin fjögur í aðventukransinum og nefnist það „Nå tenner vi det første lys“. Ljóðið er venju samkvæmt sungið við sænskt lag frá 1898 eftir Emmu Christinu Köhler (1858-1925). Það var svo Lilja Sólveig Kristjánsdóttir, fyrrverandi kennari og safnvörður í Reykjavík, sem þýddi ljóðið svo fallega yfir á íslensku og heitir það „Við kveikjum einu kerti á“. Kvæðið er í dag án alls vafa einn þekktasti aðventusálmur okkar Íslendinga.

Þýðing Lilju Sólveigar er svo:

Við kveikjum einu kerti á.

Hans koma nálgast fer

sem fyrstu jól í jötu lá

og Jesúbarnið er.

Við kveikjum tveimur kertum á

og komu bíðum hans,

því Drottinn sjálfur soninn þá

mun senda' í líking manns.

Við kveikjum þremur kertum á,

því konungs beðið er,

þótt Jesús sjálfur jötu og strá

á jólum kysi sér.

Við kveikjum fjórum kertum á.

Brátt kemur gesturinn,

og allar þjóðir þurfa að sjá,

að það er frelsarinn.

jonagnar@mbl.is