Ástríða Bergljót Rist hefur óbilandi áhuga á hestamennskunni og ákvað fyrir fimm árum að vinna við ástríðu sína og áhugamál. Hestaleiga hennar nýtur mikilla vinsælda erlendra ferðamanna sem vilja sjá íslenska náttúru á baki.
Ástríða Bergljót Rist hefur óbilandi áhuga á hestamennskunni og ákvað fyrir fimm árum að vinna við ástríðu sína og áhugamál. Hestaleiga hennar nýtur mikilla vinsælda erlendra ferðamanna sem vilja sjá íslenska náttúru á baki. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Ef við vöndum okkur við að kynna íslenska hestinn vel þá er hann gríðarlega sterk upplifun fyrir gesti, þó að þeir séu vanir hestum almennt,“ segir Bergljót Rist, eigandi hestaleigunnar Íslenski hesturinn í Reykjavík. Farið er með ferðamenn jafnt sem heimamenn í reiðtúra um íslenska náttúru undir faglegri leiðsögn um land og hest.

Begga kom hestaleigunni á laggirnar fyrir tæpum fimm árum og hefur tekist vel til. Ásóknin í reiðtúrana hefur aldrei verið meiri en daglega er farið í tvo túra og þrjá yfir sumartímann. Ávallt er farið af stað í reiðtúr þrátt fyrir að aðeins einn gestur sé með í för.

Allir verði að upplifa töltið

„Við byrjum alltaf á því sem ég kalla „Begga's riding intro“, en það er kynning sem ég bjó til um íslenska hestinn, gangtegundirnar, öryggisatriði og fleira,“ segir Begga um upphaf hvers reiðtúrs. Kynningin sé sniðin bæði að byrjendum og lengra komnum því reiðmennskan er ólík milli landa og því full ástæða til að fara yfir grunnatriðin með öllum.

Mikil áhersla er lögð á að kenna gestunum að fá hestinn á tölt. „Ég stefni alltaf að því að allir gestirnir upplifi töltið. Þetta er svo rosalega flott gangtegund og hesturinn er svo þýður á töltinu,“ segir hún en um leið og hesturinn fer á tölt verði gestirnir nær orðlausir af hrifningu. „Þeim finnst þetta algjörlega mergjað.“ Flestir erlendu gestanna hafi eingöngu upplifað brokk sem er mjög höst gangtegund og andstæðan við töltið sem er mun mýkra.

Eftir að hafa kynnst hestunum inni í gerði liggur leið reiðhópanna iðulega inn í Rauðhóla í dagsferðunum en á sumrin eru lengri ferðir út á land einnig í boði. „Ég vil alltaf koma heim með sigurvegara,“ segir Begga en það sé til marks um að hver og einn hafi náð tökum á hestinum og notið þess að vera á íslenska hestinum í fallegri náttúru.

Byrjaði bara með einn hest

Hestaleigan býr yfir mörgum góðum og þýðum hestum en í upphafi var aðeins öðruvísi um að litast. „Þá átti ég bara einn hest,“ segir Begga hlæjandi en velvild bænda, vina og vandamanna tryggði henni fljótlega fleiri hesta að láni til að leigja út og hefja reksturinn fyrir alvöru.

„Þau sögðu mér bara að láta drauminn rætast,“ segir Begga sem gerði einmitt það og horfir bjartsýn fram á veginn.