Jólamaður Jón Rafnsson og kona hans Hafdís Erla Bjarnadóttir njóta þess að standa í ýmsu jólastússi á aðventunni og jólatónlistin leikur að sjálfsögðu stórt hlutverk á heimilinu. „Ég stelst stundum til að setja jólatónlistina snemma á og er raunar nú þegar búinn að taka alla jóladiskana fram,“ segir hann.
Jólamaður Jón Rafnsson og kona hans Hafdís Erla Bjarnadóttir njóta þess að standa í ýmsu jólastússi á aðventunni og jólatónlistin leikur að sjálfsögðu stórt hlutverk á heimilinu. „Ég stelst stundum til að setja jólatónlistina snemma á og er raunar nú þegar búinn að taka alla jóladiskana fram,“ segir hann. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fæstir eru farnir að leiða hugann að jólunum í júlí og finnst jafnvel snemmt er fyrstu jólaauglýsingarnar byrja að hljóma. Aðrir kunna þó vel að meta jólatóna utan aðventunnar og Anna Sigríður Einarsdóttir hitti mann sem nýtur þess að byrja að spila jólalögin snemma.

Ég er mikill jólamaður og stelst stundum til að setja jólatónlistina snemma á og er raunar nú þegar búinn að taka alla jóladiskana fram,“ segir Jón Rafnsson þegar blaðamaður ræðir fyrst við hann í október. Jón, sem fagnar 40 ára starfsafmæli sínu sem bassaleikari nú í ár, er jafnvel stundum kominn með jólalögin í hlustun strax í júlí, en sú hlustun tengist þó yfirleitt vinnunni. Jólalögin byrjuðu til að mynda að hljóma snemma í ár, enda koma út tveir jóladiskar á hans vegum fyrir þessi jól.

„Ég hef verið að gefa út diska með ýmsum verkefnum sem ég tek þátt í,“ segir Jón sem rekur útgáfufyrirtækið JR Music ásamt því að spila m.a. með Guitar Islancio, Delizie Italiane og djasstríóinu Hot Eskimos, en síðastnefnda bandið sendi nýlega frá sér diskinn We Ride Polar Bears.

Útgáfan hófst með jólaplötu

Tíu ár eru liðin frá því að JR Music leit fyrst dagsins ljós og fimmtán diskar hafa verið gefnir út á tímabilinu. Raunar var fyrsti diskurinn sem JR Music gaf út jóladiskur. „Það var diskurinn Jól með Tríói Björns Thoroddsen, það er tímalaus og klassísk jólaplata og því er alltaf einhver sala í henni fyrir hver jól.“ Jón kveðst vona að það eigi ekki síður við um jóladiskana í ár; Hátíðarnótt og Jól í stofunni.

Hann segir Hátíðarnótt innihalda eingöngu „instrumental“ tónlist, þ.e. án söngs. „Þetta eru jólasálmar og íslensk jólalög sem við Karl Olgeirsson píanóleikari og Andrés Þór Gunnlaugsson gítarleikari flytjum. Þetta eru lög sem hafa fylgt íslensku jólahaldi í gegnum tíðina,“ segir hann og nefnir sem dæmi Frá ljósanna hásal og Hátíð fer að höndum ein, sem og íslenska jólalagið Það á að gefa börnum brauð. „Síðan er eitt lag eftir Karl Olgeirsson, Leiðin til Betlehem, sem ekki hefur verið gefið út áður. Það er afskaplega fallegt lag – hálfgerður sálmur – sem hann samdi 1994, en hljómar nú í fyrsta skipti á plötu. Diskurinn, sem hefur rólegt og hátíðlegt yfirbragð, hefst á klukknahringingu Prestsbakkakirkju á Síðu, en það er reyndar mín gamla kirkja frá því í æsku og þar var ég bæði skírður og fermdur. Mynd eftir Gunnar Karlsson myndlistarmann prýðir síðan forsíðu umslagsins og fyrirmyndin er áðurnefnd kirkja en þó í skálduðu umhverfi.“

Djössuð jól með Þór Breiðfjörð

Hljómurinn á Jól í stofunni, sem er með Þór Breiðfjörð söngvara, er töluvert annar – „svolítið swing“ eins og Jón lýsir því. „Þetta er djössuð plata með lögum sem allir þekkja, til dæmis Gefðu mér gott í skóinn og Ég sá mömmu kyssa jólasvein. Þar er þó einnig lag eftir Þór sjálfan, Gleðileg jól, ástin mín, og svo syngur hann lag Ingibjargar Þorbergs, Hin fyrstu jól. Við það er alltaf sunginn texti Kristjáns frá Djúpalæk „Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg“, en Þór flytur hins vegar lagið líka með upprunalega textanum, sem er á ensku, afskaplega fallegur og heyrist nú hér í fyrsta skipti og ber heitið Beautiful Christmas time.“

Sjálfmenntaður í djassinum

Eins og áður sagði fagnar Jón 40 ára starfsafmæli sem bassaleikari nú í ár og líkt og margir aðrir tónlistarmenn hóf hann spilamennskuna á böllum á unglingsaldri. Leiðin lá síðan í klassískt tónlistarnám, þar sem kontrabassinn var hans aðalhljóðfæri, og svo í framhaldsnám til Stokkhólms. „Þar fór ég svo að spila eitthvað annað en klassíkina líka.“

Það var þó ekki fyrr en eftir heimkomuna upp úr 1990 að hann fór að fikta af alvöru við djasstónlist meðfram fjölmörgum öðrum tónlistarverkefnum. „Ég fór að spila svolítinn djass með vinum mínum þeim Gunnari Gunnarssyni píanóleikara og Árna Katli Friðrikssyni trommuleikara og þar byrjar nú þessi djassspilamennska.“ Hann kveðst þó varla vilja kalla þetta mikla djassspilamennsku hjá sér þar sem hann sé algjörlega sjálfmenntaður í djassinum.

Í dag setur djasskennd tónlist þó stóran svip á tónlistina sem hann leikur, þótt hann komi víðar við. „Ég spila líka töluvert af þjóðlagatónlist, til dæmis með Kristjönu Arngrímsdóttur á Tjörn í Svarfaðardal, en hún átti einmitt jóladiskinn Stjarnanna fjöld, sem við gáfum út í fyrra. Það er ákaflega fallegur diskur sem tekinn var upp í Dalvíkurkirkju, um mitt sumar, nota bene. Við blönduðum malt og appelsín og skreyttum appelsínur með negulnöglum og það þurfti nú ekki meira til að mynda þessa líka fínu jólastemningu. Þessi diskur verður vonandi einn af þessum klassísku jóladiskum.

Svo spila ég ítalska þjóðlagatónlist með tríóinu Delizie Italiane og allt frá því að við fjölskyldan fluttum suður 1998 hef ég verið með þeim Birni Thoroddsen og Gunnari Þórðarsyni í tríóinu Guitar Islancio.“

Fær ekki leið á jólalögum

Jólamaðurinn Jón kveðst njóta þess að standa í ýmsu jólastússi á aðventunni, til að mynda að laga góðan mat og fleira þess háttar. Jólatónlistina má heldur ekki vanta og segir hann mörg jólalögin í uppáhaldi. „En ef ég á að nefna eitthvað eitt, ætli það væri þá ekki Ó Helga nótt og eins þykir mér alltaf vænt um lagið hans Jóns bassa, Jólin alls staðar.“

Hann kveðst heldur ekki vera búinn að fá nóg af jólalögunum þrátt fyrir að hafa fyrst sett þau í spilarann í júlí. „Nei alls ekki, ég verð ekki leiður á jólalögum frekar en nokkurri annarri tónlist.“

aseinars@gmail.com

Hvítvínsgratíneruðu sjávarréttirnir ómissandi

Góður matur er mikilvægur hluti jólanna hjá Jóni og fjölskyldu. „Það er að sjálfsögðu alltaf hangikjöt á borðum yfir jóladagana og á okkar heimili er líka hefð fyrir ákveðnum jólaforrétt. Það yrði allt í steik ef hann rataði ekki á borð,“ segir Jón og hlær, en bætir við að þau séu annars ekki með of miklar hefðir tengdar jólamatnum. „Við gerum reyndar alltaf rauðkál og brúnkál á aðfangadagsmorgun, það er föst hefð; það kemur góð lykt í húsið og enginn vafi á að jólin eru alveg að koma.“

Jólaforrétturinn er síðan ómissandi á aðfangadag að mati allra í fjölskyldunni. „Þetta eru hvítvínsgratíneraðir sjávarréttir í hörpuskel. Uppskriftina fundum við í jólablaði um það leyti sem við fluttum heim frá Svíþjóð. Krakkarnir voru þá loksins komnir á þann aldur að bragðlaukarnir voru orðnir nógu þroskaðir til að hægt væri að bjóða þeim upp á eitthvað örlítið framandi.“ Börnin eru síðan orðin fullorðið fólk með eigin heimili, „en þau vilja líka halda forréttinum á sínum heimilum, enda eru jólin ekki komin fyrr en gratíneruðu sjávarréttirnir eru komnir á borðið“.

Gratíneraðir

sjávarréttir

uppskrift fyrir 4

100 g skelflettur humar

100 g rækjur

100 g kræklingur (Limfjord)

100 g hörpuskelfiskur

hvítvín

hvítvínsedik

hvítlaukur

rjómi

pipar

ostur

salt (ég reyndar

sleppi því alltaf)

Humar og hörpuskelfiskur soðinn í hvítvíni og soðinu af kræklingnum. Fiskurinn sigtaður frá og rjómanum bætt út í. Soðið er þykkt með smjörbollu og bragðbætt með pipar, hvítlauk og ediki (og smá salti ef þarf). Sjávarréttunum er síðan bætt út í sósuna og hitað. Sett í skeljar eða tartalettur og þakið með osti og gratínerað í ofni. Borið fram með ristuðu brauði og sítrónu.