Sigurður Gísli segir ferlið ganga hratt fyrir sig, allt frá því að fiskur er veiddur við strendur Íslands þar til hann er kominn á borð neytenda úti í heimi.
Sigurður Gísli segir ferlið ganga hratt fyrir sig, allt frá því að fiskur er veiddur við strendur Íslands þar til hann er kominn á borð neytenda úti í heimi. — Morgunblaðið/Eva Björk
Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Sæmark seldi á síðasta ári um 7.000 tonn af unnum ferskum fiskflökum beint til smásöluaðila í Bandaríkjunum og Evrópu.

„Okkar gæfa hefur verið að vinna með íslenskum fiskframleiðendum, því án þeirra hefðum við aldrei náð þeim árangri sem við höfum náð. Það er heilmikil samkeppni á ferskfiskmarkaðnum en við höfum náð góðum sigrum á erlendum mörkuðum, aðallega vegna gæða fisksins og öryggis í afhendingu,“ segir Sigurður Gísli Björnsson, eigandi Sæmarks.

Hann segir að ímynd Íslands sem hreins lands skipti miklu máli í markaðsstarfi erlendis. „Við náum ákveðinni sérstöðu á mörkuðunum með því að segja sögur af Íslandi. Við erum í mikilli samkeppni, ekki einungis við aðra sem selja ferskan fisk heldur einnig við önnur matvæli. Það er því mikilvægt fyrir okkur að ná ákveðnu markaðsforskoti.“

Upphaf Sæmarks er hægt að rekja til Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, SH, en fyrirtækið var í þeirra eigu til ársins 1999. Þá keypti Sigurður Gísli fyrirtækið en hann hafði unnið sem sölustjóri í ferskum fiski hjá SH og þekkti því ferskfiskmarkaðinn mjög vel. Núna starfa 10 manns hjá Sæmarki. „Íslenski ferskfiskmarkaðurinn er orðinn miklu þróaðri en hann var áður. Markaðurinn hefur verið að mótast mikið á undanförnum árum og er nú orðinn mjög góður fyrir íslenskar sjávarafurðir,“ segir Sigurður Gísli. Sæmark hefur vaxið ár frá ári og seldi fyrirtækið á síðasta ári um 7.000 tonn af ferskum fiskflökum á erlenda markaði sem er 20% vöxtur frá árinu á undan. Ýsa og þorskur eru aðalsöluvaran eða um 90% af heildinni, til viðbótar eru síðan aðrar tegundir eins og bleikja, koli, steinbítur og skötuselur.

Birtast sem ein heild á markaði

Sigurður Gísli segir að hugmyndafræði Sæmarks gangi út að vera í langtímasamstarfi við fáa og góða viðskiptavini. „Okkar hlutverk hefur verið að sameina litla og meðalstóra fiskframleiðendur hér á landi til að birtast sem ein heild gagnvart kaupendum á erlendum mörkuðum. Við viljum vera með fasta viðskiptasamninga við kaupendur til að minnsta kosti eins árs. Þá vita allir til hvers er ætlast og auðveldara er að afhenda ferskan fisk erlendis.“

Sæmark vinnur mjög náið með þremur stórum fyrirtækjum erlendis sem meðal annars dreifa til Sainsbury's í Bretlandi og Costco í Bandaríkjunum. En einnig fer fiskurinn í fjölda annarra smásölufyrirtækja og veitingastaða í Bandaríkjunum og víðsvegar í Evrópu. „Við hófum samstarf við North Coast Seafood í Bandaríkjunum árið 2001, við bættum síðan Young's í Bretlandi við árið 2006 og Atlantic Fresh í Frakklandi á árinu 2007. Þetta eru allt stór fyrirtæki með marga viðskiptavini. Það er því komið heilmikil reynsla á samstarf við þessa stærstu dreifingaraðila á markaðnum.“

Sigurður Gísli segir að gæðin ráði úrslitum um við hvaða framleiðendur hér á landi er samið. „Við erum að fá fullbúna vöru frá framleiðendunum sem fer síðan beint til smásöluaðila úti í heimi. Því er mikilvægt að hafa gæðin í lagi. Við setjum ákveðnar pökkunarreglur og lýsingu á því hvernig varan á að vera afhent og framleiðendur þurfa að gangast undir það. Þá erum við með gæðastjóra sem ferðast um landið og tekur út gæði á vörunum. Við höfum mjög virkt gæðakerfi sem viðskiptavinir okkar erlendis treysta á þar sem allar upplýsingar um vöruna og vinnsluna eru skráðar jafnóðum hjá okkur. “ Hann bætir við að núna séu um 15 framleiðendur sem Sæmark er í viðskiptum við víða um landið.

Ferskur fiskur beint í verslanir

Ferlið gengur mjög hratt fyrir sig allt frá því að fiskurinn er veiddur við strendur Íslands og hann er kominn á borð neytenda úti í heimi. „Fiski er til dæmis landað á mánudagskvöldi, hann er flakaður á þriðjudagsmorgni, snyrtur og settur í viðeigandi pakkningar og keyrður út á flugvöll um hádegi, settur um borð í flugvél kl. 4 síðdegis og er farinn í loftið um kl. 5. Þann sama dag um kl. 8 er fiskurinn kominn til Boston. Þá nótt fer fiskurinn í dreifingu og viðskiptavinirnir geta keypt hann út úr búð á miðvikudegi.“ Hann segir að samgöngur frá Íslandi séu gríðarlega góðar. „Það eru mun fleiri að starfa á ferskfiskmarkaðnum núna en var fyrir um 7 árum síðan og framboðið af ferskum fiski frá Íslandi orðið meira. Þar hefur leiðarkerfi Icelandair mikið að segja en það hefur stækkað mikið síðustu ár. Það hefur skapað tækifæri fyrir ferska fiskinn. Tæknin í veiðum og vinnslu er orðin betri og hraðinn meiri. Heimurinn minnkar alltaf með hverju árinu.“ Hann segir að forsenda þess að Sæmark geti farið inn á nýtt markaðssvæði séu flugsamgöngur allt árið. „Ef einungis er flogið hluta úr ári getum við ekki valið þau markaðssvæði til að selja inn á því við og viðskiptavinirnir verða að hafa stöðugt framboð.“

Jólum bjargað hjá Sainsbury's

Sigurður Gísli segir Sæmark leggja mikla áherslu á afhendingaröryggi til viðskiptavina og þeir hafi náð nærri 100% árangri í því. Það þarf oft að hafa alla anga úti við að ná markmiðinu um afhendingu fisksins og í því samhengi segir hann skemmtilega sögu af viðskiptum rétt fyrir jólin þegar veðrið var brjálað á Íslandi einu sinni sem oftar. „Það var verið að vinna og pakka fyrir okkur fiski hjá Hraðfrystihúsi Hellissands sem búið var að lofa í verslanir Sainsbury's í Bretlandi fyrir jólin. Það vildi svo óheppilega til að vegna veðursins fór rafmagnið af í öllum bænum á Þorláksmessu. Eigandi hraðfrystihússins sá að bjarga þyrfti verðmætunum og leitaði til rafveitustjórans sem áttaði sig á mikilvæginu. Það var því tekin ákvörðun um að beina rafmagni vararafstöðvarinnar í fiskvinnsluna svo hægt væri að klára vinnsluna. Á meðan máttu íbúarnir undirbúa jólin við kertaljós. Þegar svo vinnslunni lauk fengu íbúarnir rafmagnið sitt og jólunum var bjargaði hjá viðskiptavinum Sainsbury's sem fengu sinn ferska fisk beint frá Íslandi.“