É g var fyrir, ég var stjórnsöm, fór yfir mörkin og reyndi að brjóta boxið, en ég var lítil og ég var stelpa. Þetta er úr ljóði ungu stelpnanna í Hagaskóla sem sigruðu í hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík.
É g var fyrir, ég var stjórnsöm, fór yfir mörkin og reyndi að brjóta boxið, en ég var lítil og ég var stelpa. Þetta er úr ljóði ungu stelpnanna í Hagaskóla sem sigruðu í hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Þær segja ljóðið endurspegla þá umræðu sem á sér stað í þeirra umhverfi. Það lýsir þeirra veruleika. Við lestur og áhorf ljóðsins verð ég að viðurkenna að mér var brugðið að sjá hversu lítið okkur hefur þokað áfram í jafnréttisbaráttunni. Íslenskar konur hafa hamast áratugum saman en svo stíga á svið 15 ára stelpur sem upplifa heilmikið óréttlæti líkt og fátt hafi gerst. Ég sá mörg líkindi við mitt eigið líf en hef þó lifað tímana tvenna.

Þær segja strákana fá meira pláss. Ekki taka í burtu plássið sem er frátekið af strákum, því ef þú ert með typpi færðu einn fermeter í viðbót. Auðvitað verðum við að horfast í augu við að það eru einungis 100 ár síðan konur á Íslandi fengu kosningarétt. Tíminn líður ógnarhratt og ein mannsævi er heldur stutt. En það hlýtur að vera hægt að hraða þessu jafnréttisferli. Hvað stendur í veginum? Er það feðraveldið og strákaklíkurnar sem ráða ennþá ferðinni? Er það kannski ótti strákanna við að hleypa stelpunum að? Það er auðvitað stórhættulegt, jafnvel þótt þær hafi mikið fram að færa; þær gætu kannski verið ógnun eða reynst klárari. Jafnréttisbaráttunni lýkur sjálfsagt aldrei en fyrr má nú vera ef hænuskref teljast í áratugum.

Í siguratriði ungu Hagaskólastelpnanna felst heilmikil ádeila á samfélagið sem við búum í. Það er oft bent á Ísland sem góða fyrirmynd um hversu langt konur hafa náð. Þótt jafnréttið sé kannski örlítið meira hér en annars staðar er langt frá því að karlar og konur standi jafnfætis. Íslenskar konur hafa sótt sér menntun og eru engir eftirbátar karla á því sviði en það vantar enn upp á að þær fái sömu laun fyrir sömu vinnu. Fyrir nú utan að þær fá alls ekki valdastöður í sama mæli og karlarnir.

Markmið sigurvegaranna var að fá stelpur til að tengja og stráka til að skilja. Þeim tókst svo sannarlega að koma boðskap sínum á framfæri og vonandi sjá allir strákarnir ljósið.

Stelpur krefjumst jafnréttis látum ekkert stoppa okkur! Það er óskandi að þessar ungu stelpur láti ekkert stöðva sig í að ná markmiðum sínum. Það eru heilmikil verðmæti í því fyrir framtíð Íslands að þær fái frelsi til að ná þeim. Ef þær kjósa að vera í stuttum pilsum, flegnum bolum og með rauðan varalit þá á enginn að geta bannað það.

Þær hafa sýnt að við þurfum litlar áhyggjur að hafa af jafnréttisbaráttu ungu kynslóðarinnar. Þessum stúlkum eru allir vegir færir. Við skulum vona að kraftur þeirra hraði jafnréttinu enn frekar. Ekki viljum við að dætur þeirra þurfi að reka sig á sömu veggina. Ég hvet þær til að setja markið hátt... helst til stjarnanna – ad astra!

margret@mbl.is

Margrét Kr. Sigurðardóttir