Leitin Börnin hafa oft sitt að segja um valið.
Leitin Börnin hafa oft sitt að segja um valið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skógræktarfélög hringinn í kringum landið bjóða fólki að finna og fella jólatréð sjálft. Oft sameinast margar kynslóðir um þessa iðju og stundum getur það gerst að jólasveinarnir hjálpa til.

Jólatréð má ekki vanta, og helst þarf að velja lifandi tré sem fyllir heimilið af ómótstæðilegum ilmi. Sumir láta sér nægja að kaupa tréð úti í næstu blómabúð eða beint úr gáminum frá góðgerðarfélagi, en þeir sem vilja fara alla leið og taka jólaundirbúninginn með trompi taka ekki annað í mál en fella jólatréð sjálfir.

Ragnhildur Freysteinsdóttir, verkefnastjóri hjá Skógræktarfélagi Íslands, segir skógræktarfélög hringinn í kringum landið bjóða fólki að koma og fella eigið tré og það sé orðinn ómissandi hluti af jólaundirbúningnum á mörgum heimilum að börn, foreldrar, afar og ömmur og jafnvel fjölskylduhundurinn skjótast út í skóg og leita þar að hinu fullkomna tré.

Missa ekki úr ár

„Hjá Skógræktarfélagi Íslands tökum við á móti fyrirtækjahópum í skóginum á Ingunnarstöðum í Brynjudal,“ segir Ragnhildur og tekur fram að sumir vinnustaðir hafi ekki misst úr jól allt síðan byrjað var að bjóða upp á þjónustuna fyrir rúmlega tveimur áratugum. „Önnur skógræktarfélög hafa flest þann háttinn á að auglýsa opinn dag þar sem fjölskyldur geta lagt leið sína í skóginn. Á sumum stöðum er hægt að binda trén inn í net til að auðvelda flutninginn heim og sumstaðar má jafnvel eiga von á að jólasveinarnir birtist og bregði á leik.“

Finna má nánari upplýsingar um opnu dagana á hverjum stað með þvi að fara á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands, www.skog.is, og ýta þar á hnapp hægra megin sem merktur er „jólatré“.

Þeir sem vilja fella sitt eigið tré ættu að hafa góða sög meðferðis, enda ekki hægt að stóla á að fá sög að láni þegar nokkrir tugir og jafnvel hundruð manna heimsækja skóginn í einu. Ragnhildur segir að það sé alls ekki mikið erfiðisverk að fella eitt jólatré og þurfi fólk ekki að skríða á fjórum fótum undir trjánum, mótt og másandi, og hamast svo að svitinn bogi af því. „Hver sem er ætti að ráða við að saga jólatré í venjulegri stærð og yfirleitt er frost úti og jafnvel snjór yfir öllu svo ekki þarf að hafa áhyggjur af því að snúa heim með moldug hné. Skógurinn í Brynjudal stendur líka í brekku, sem gerir það enn auðveldara að ná að trjástofninum,“ útskýrir Ragnhildur.

Mislöng leitin

Getur jafnvel verið að sjálf leitin að rétta trénu reyni meira á skógarhöggsmennina en að leggja til atlögu við stofninn með söginni. „Sumar fjölskyldur ganga hreint til verks og eru búnar að finna og fella tréð á fimm mínútum á meðan aðrar þurfa að grannskoða skóginn til að finna rétta tréð. Sumir eru með ákveðnar sérþarfir og eru í leit að alveg tilteknu tré fyrir sína stofu og eru t.d. mjög lukkulegir að finna tré sem er lítið vaxið á annarri hliðinni, og rúmast því mjög vel úti í horni.“

Gestir í skóginum verða að klæða sig í samræmi við veður en Ragnhildur segir ástæðulaust að sleppa jólatrésferðinni þó að veðrið reynist ekki með besta móti í bænum þann daginn. „Inni í skóginum er alltaf skjól,“ segir hún.

Nýlega var sagt frá því í fréttum að ástandið á sumum tegundum jólatrjáa væri ekki með besta móti í ákveðnum skógum landsins. Segir Ragnhildur að rauðgrenið hafi plumað sig vel í Brynjudal en furan beri sig ekki vel í sumum landshlutum og gæti þurft að hafa meira en venjulega fyrir því að finna fallegustu furutrén. Hvaða tegund sem fólk vill helst hafa í stofunni mælir hún með að haft sé í huga að trén geta virst smærri í skóginum en þegar þau eru komin á stofugólfið. ai@mbl.is

Heitt vatn í fótinn

Þegar heim er komið með jólatréð borgar sig að hugsa rétt um tréð svo það haldist fallegt sem lengst. „Langbest er að geyma jólatréð á svölum stað þangað til það er tekið inn í hús. Kaldur bílskúr eða svalirnar geta hentað vel og ætti tréð að standa í fötu með vatni. Sumum finnst gott að setja jólatréð inn í sturtu og skola af því þegar það er tekið inn úr kuldanum. Svo þarf að saga eins og 4-5 sentimetra neðan af stofninum.

Trjákvoðan getur verið fljót að loka sárinu og ætti fyrsta vatnið sem hellt er ofan í fótinn sem tréð stendur í að vera vel heitt – næstum sjóðandi. Hitinn losar upp kvoðuna svo stofninn á auðveldra með að draga í sig vökvann. Síðan verður að fylgjast vel með vatnsstöðunni fram að jólum, sérstaklega fyrstu dagana þegar tréð dregur í sig mestan vökva. Rauðgrenið þarf að passa sérstaklega upp á og fylla á vatnið daglega.“