Forvarnir Konfektskál sem skilin er eftir á röngum stað getur reynst gráðugum hundi hættuleg. Brothætt jólaskraut, jólaplöntur með eitruð blöð og flugeldar sem hrella fylgja líka jólahaldinu. Mynd úr safni.
Forvarnir Konfektskál sem skilin er eftir á röngum stað getur reynst gráðugum hundi hættuleg. Brothætt jólaskraut, jólaplöntur með eitruð blöð og flugeldar sem hrella fylgja líka jólahaldinu. Mynd úr safni. — Morgunblaðið/Ásdís
Sumar kræsingarnar sem mannfólkið skóflar í sig í kringum jólin geta verið skaðlegar ferfætlingunum, jafnvel banvænar. Ef voffi eða kisi á að fá að taka þátt í hátíðinni er vissara að fylgja nokkrum einföldlum en góðum ráðum.

Það er erfitt að standast sníkjurnar í sætum hundi eða krúttlegum ketti. Þegar heimilið fyllist af ilminum af jólamat er viðbúið að gæludýrin setji upp sinn besta sníkjusvip. Hættir þá mörgum til að leyfa voffa eða kisa að smakka, en útkoman getur orðið mikil magakveisa því hefðbundnir jólaréttir fara margir mjög illa í dýrin.

Dýralæknar mæla almennt með því að ef gæludýrið fær smakk, þá fái það bara agnarsmáan skammt. Einn lítill biti af hangikjöti, kartöflufleygur og sósa ætti ekki að koma að sök, en þá er vissara að blanda jólaréttinum saman við það fóður sem dýrið er almennt vant að éta.

Passa verður líka upp á hitaeiningarnar og draga úr daglega dýrafóðrinu á móti því sem bætt er við af jólamat.

Banvænn konfektbiti

Sumt af því sem fer á veisluborðið getur verið stórvarsamt. Er súkkulaði mjög hættulegt hundum, rúsínur sömuleiðis og laukur ef hans er neytt í miklu magni. Hafa má minni áhyggjur af köttum því þeir láta þessar fæðutegundir oftast í friði. Á hundur hins vegar mjög erfitt með að standast freistinguna ef einhver skilur eftir kassa af dökku súkkulaði á glámbekk.

Þá getur skrautið á heimilinu valdið hættu. Jólastjarnan, plantan fallega sem margir kaupa fyrir jólin, hefur eitruð blöð. Sumt jólaskraut er brothætt og geta brotin valdið skurðum ef t.d. kisi reynist helst til áhugasamur um kúlurnar á trénu. Eins geta skrautbönd af pökkum verið skaðleg ef þau komast ofan í meltingarveginn.

Ef grunur leikur á um að gæludýrið á heimilinu hafi komist í eitthvað hættulegt ætti ekki að bíða með að hafa samband við lækni. Dýralæknastofurnar halda úti símavakt og hafa dýralæknarnir fullan skilning á því að þurfa að svara símtölum frá áhyggjufullum gæludýraeigendum á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Er þá oft hægt að meta símleiðis í snatri hvort ástæða er til að drífa dýrið strax undir læknishendur eða bíða átekta. ai@mbl.is

Hvellir og blossar

Flugeldarnir fara ekki vel í suma hunda og ketti og vissara fyrir gæludýraeigendur að hafa vaðið fyrir neðan sig á gamlárskvöld og þrettándanum.

Þá geta skoteldar þotið óvænt á loft dagana fyrir áramót og vissara að hafa hunda alltaf í bandi þegar farið er í göngutúra í kringum gamlárskvöld og þrettándann. Hvellurinn gæti annars fælt hundinn svo hann tæki á rás. Er góð regla að hleypa köttum ekki út úr húsi á gamlársdag.

Til að gera flugeldalætin sem bærilegust er óvitlaust að koma voffa eða kisa fyrir á rólegum stað, t.d. í herbergi þar sem dregið er fyrir glugga, og hafa þar milda lýsingu sem gerir blossana frá flugeldunum ekki jafnáberandi.