[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er orðinn fastur siður að bjóða upp á sérstakan bjór í aðdraganda jólanna og hans er jafnan beðið með eftirvæntingu. Þó eru jólabjórtegundirnar um margt keimlíkar innbyrðis en nýjar bætast þó reglulega við og úrvalið hefur aldrei verið meira í Vínbúðunum en fyrir þessi jól.

Jólabjórinn er jafnan með dekkra móti, bragðmikill og hjartastyrkjandi, enda fer slíkur bjórstíll vel með þeim kjarngóða og kraftmikla mat sem jafnan fylgir kaldara veðri. Er slíkur bjór jafnvel settur á markað fyrr á haustin sem „vetrarbrugg“ (e. winter brew) en sérmerktur hátíð ljóss og friðar er jólin nálgast.

Svo sem segir í kynningunni hér að framan hefur jólabjórhefðin öll færst í aukana frá því hún stakk sér fyrst niður hérlendis og er þess beðið með óþreyju ár hvert að Vínbúðin raði jólabjórnum í hillur verslana sinna.

Þótt jólabjórstegundirnar eigi það sammerkt að vera dekkri á litinn en dæmigerður ljós lagerbjór, maltríkari og með meira bragð fer því fjarri að þær séu hver öðrum líkar; þvert á móti er bjórinn misdökkur, allt frá því að vera rafgullinbrúnn yfir í að vera bleksvartur. Bragðið er líka misflókið og ýmiskonar bragðtónar greina eina tegund jólabjórs frá annarri. Úrvalið í ár ætti líka að fela í sér eitthvað fyrir nánast alla, hvort heldur þeir aðhyllast þægilegan drykkjarbjór eða flókinn og krefjandi bjórstíl. Hér á eftir fer samantekt um nokkrar helstu tegundir jólabjórsins en rétt er að benda á að listinn er ekki tæmandi þar sem ekki fengust sýnishorn send frá öllum framleiðendum að þessu sinni.

Nýtt í bland við eldra frá Kalda

Jóla Kaldi hefur verið á boðstólum um nokkurra ára bil og er hann rafbrúnn lagerbjór sem notið hefur mikilla vinsælda enda ákaflega auðvelt að para hann við margskonar mat. Hann hefur þétta fyllingu og er í meðallagi beiskur, að sögn Erlu hjá Bruggsmiðjunni sem framleiðir Kalda. Í bjórnum má finna malt- og kryddbragð, sem og smá ávöxt.

Jóla Kaldi er 5,4% að áfengismagni.

Nýjung frá Kalda er aftur á móti Jóla Kaldi Súkkulaði Porter sem kemur á markaðinn í fyrsta sinn fyrir þessi jól. Í jólaporterinn frá Kalda eru notaðar sex tegundir af malti, hvorki meira né minna. Í honum er að finna tékkneska og nýsjálenska humla, súkkulaði, kakónibbur og kakóduft.

Kalda-súkkulaðiporterinn er 6,5% að áfengismagni.

Egils Jóla Gull

Jóla Gull hefur fengist í mörg ár en það bar til að ný uppskrift var kynnt til sögunnar fyrir síðustu jól og féll hún rækilega í kramið; bjórinn seldist upp og reyndist sigurvegari í nokkrum fjölmiðladómum.

„Jólagull er þurrhumlað eðalöl í belgískum stíl,“ segir Eyrún Sara Helgadóttir hjá Ölgerðinni. „Það er kryddað með appelsínuberki og yfirgerjað með belgísku ölgeri sem framkallar sætan bananakeim sem í bland við karamellusætu maltsins myndar hárfínt mótvægi við beiskju appelsínubarkar. Útkoman er kastaníubrúnn bjór með þéttri froðu og flauelsmjúku eftirbragði.“

Jólagull er 5,4%

Egils-malt-jólabjór

Römm er taugin milli Íslendinga og Egils-maltöls og fyrir bragðið hefur maltjólabjórinn notið mikilla vinsælda, eins og Eyrún Sara útskýrir „Hann selst alltaf upp og við bætum vel í árlega. Í Egils-malt-jólabjór sameinast tvær sögufrægar hefðir; þýski dunkelbjórinn og gamla góða maltið sem gefur hraustlegt og gott útlit! Með sínu sæta og ríkulega bragði og angan af ristuðu malti og ávöxtum passar Egils-malt-jólabjór einstaklega vel með sætu kartöflunum á kalkúnadiskinum, súkkulaði créme brûlée eða piparkökunum, svo fátt eitt sé nefnt.“

Egils-malt-jólabjór er 5,6%

Boli Doppelbock

Hér er á ferðinni ein nýjunganna í jólabjórnum í ár og ætti að vekja áhuga bjórnörda með vaxandi áhuga landsmanna á Doppelbock-bjórstílnum. „Þetta er 7,5% bragðbomba,“ segir Eyrún Sara um nýliðann. „Uppskriftin byggð á Lúðvík frá Borg, sem var yfirburða Doppelbock í Íslandssögunni. Þessi er sérstaklega bruggaður til að falla að íslenskum hátíðarhefðum – rökkurrauður á litinn eins og sjálf jólanóttin. Hann er rækilega maltaður og ilmar eins og ristuðu hneturnar sem eru seldar við Laugaveginn. Hátíðlegt maltbragðið kallar fram ótal jólaminningar um að stelast í forboðinn konfektkassa þar sem súkkulaði, karamella og kaffitónar skiptast á að gleðja góminn,“ bætir Eyrún Sara við. „Boli Doppelbock er herðabreiður, mjúkur og hlýr og getur því bæði yljað þér í skammdeginu einn og sér og dansað með hvaða kjarngóða jólamat sem er kringum einiberjarunn.“

Pottaskefill nr. 36

Frá Borg brugghúsi kemur 6,2% brúnöl sem ber heiti jólasveinsins Pottaskefils, ríkulega bragðbætt með breskum Fuggles-humlum sem framkalla grösuga tóna í bland við ilm af viði og blómum. Fjölbreytt maltúrvalið færir ölinu aukalega ilm og bragð af toffíi og súkkulaði. „Pottaskefill er fullkominn með rjúpu, gæs eða annarri villibráð en ekki síður með hangikjöti og hamborgarhrygg. Ljúfur en áhugaverður Borg-bjór sem flestir munu geta drukkið,“ segir Eyrún Sara.

Giljagaur nr. 14

Giljagaur er einkunnahæsti jólabjór Íslandssögunnar, 10% bjór í Barleywine-bruggstíl, sem er ætt sterkustu bjórtegunda heims. „Giljagaur er þurrhumlaður, rauðleitur og spennandi. Hann er jólagjöf sem heldur áfram að gefa ár eftir ár, því hann verður betri með hverjum jólum,“ bendir Eyrún Sara á. „Giljagaur hefur margt skemmtilegt í pokahorninu, til dæmis þrenns konar ger og blöndu af breskum og bandarískum humlum. Ríkulegt bragðið felur meðal annars í sér kóngabrjóstsykur og marmelaði – sannkallað jólahlaðborð í flösku!“

Víking-jólabjór

Um þennan bjór hefur Baldur Kárason, bruggmeistari Viking-Brugg, sagt: „Karamellumalt er notað í jólabjórinn, sem gefur honum dekkri lit og keim af brenndum sykri, kaffi og karamellu. Þá er það einnig afar sérstakt við framleiðslu jólabjórsins að hann er látinn eftirgerjast við lágt hitastig þegar aðalgerjuninni er lokið. Þessi vinnsluaðferð gefur bjórnum þétt og mjúkt bragð, mikla fyllingu og góða froðu.“

Víking-jólabjór er 5% að áfengismagni.

Íslenskur úrvals jóla-Bock

Íslenskur úrvals jóla-Bock er

bruggaður í stíl hefðbundins Bock-bjórs frá Þýskalandi, með maltað bygg og súkkulaðitóna. Hann er sterkur lagerbjór með góða fyllingu og ríkulegan maltkeim í eftirbragði. Vermandi alkóhól í bakgrunni sem gerir hann kraftmikinn en í senn mjúkan. Liturinn er skemmtilega rauðbrúnn, í réttu ljósi, og grunnmaltið er Münchenmalt sem gefur ríkulegt maltbragð og svolítinn karamellu- og súkkulaðikeim.

Thule-jólabjór

Thule sker sig frá öðrum jólabjór, að sögn Vífilfells, með því að vera örlítið skemmtilegri á bragðið. „Thule-jólabjór er millidökkur gæðabjór með góða fyllingu,“ segir á heimasíðu Vífilfells. „Í bragði má finna karamellu, súkkulaði og vott af lakkrís í eftirbragðinu – algjört nammi.“

Thule-jólabjór er 5,4% að áfengismagni.

Einstök Doppelbock

Liturinn er rauðbrúnn og fallegur, mikill ilmur af karamellu og malti, ásamt súkkulaðitónum. Bjórinn hefur mikla fyllingu og ríkulegt maltbragð en um leið gott jafnvægi. Bragðið fær vel að njóta sín án þess að hátt alkóhólmagnið nái að trufla það en Einstök Doppelbock er 6,7%.

Föroya Jólabryggj

Jólabjórinn frá frændum vorum hjá Föroya Bjór skartar fínu jafnvægi sæta bragðsins úr maltinu og beiskjunnar sem kemur frá humlunum. Hann passar með hvers konar aðventumat, jafnvel bragðmiklum fiski á borð við síld og skötu, en ekki síður með hátíðarkjötmeti á borð við hangikjöt, hamborgarhrygg og steikt lamb. Fæst bæði í glerflösku og 33 cl áldósum, og er 5,8%.

Gæðingur jólabjór

Jólabjórinn frá örbrugghúsinu Gæðingi Öl, sem er að finna í sveitinni í Skagafirði, er brúnn og ósíaður. Í honum er að finna nokkuð af ristuðu malti, og ávaxtatónar láta á sér kræla í bland við kaffi og karamellu. Gæðingur jólabjór hentar vel með flestum mat og er 4,6%.

Steðji jólabjór

Þetta er hinn hefðbundni jólabjór brugghússins Steðja í Borgarnesi. „Þetta er suðurþýskur mildur bjór, millidökkur lagerbjór með lakkrís frá Góu,“ segir Dagbjartur Arilíusson hjá Steðja. „Í honum er fullkomið jafnvægi milli styrks og gæða. Þessi bjór hentar vel fyrir alla og við öll tækifæri, hvort heldur með öllum mat eða þá einn og sér.“

Bjórinn er 5,3% að áfengismagni.

Steðji Almáttugur jólaöl

Seinni jólabjór Steðja er stóri bróðir þess fyrri, eins og Dagbjartur útskýrir. „Almáttugur er yfirgerjaður porter, mjög maltaður og vandaður bjór með góðum lakkrís sem gefur afar gott eftirbragð. Þessi bjór, sem er 6% að áfengismagni, er nammi-molinn eftir kvöldmatinn.“

Steðji jólaléttöl

Hér er á ferðinni yfirgerjaður kaffi-stout með lakkrís. Niðurblandaður með appelsínuþykkni fyrir allan aldur og smá stevia fyrir sætuna. Enginn viðbættur sykur. „Þessi reynir samt sem áður á bragðlaukana þar sem mikið er í gangi í honum,“ segir Dagbjartur. Bjórinn er aðeins nett 2,15% að áfengismagni og fæst í Krónunni.

jonagnar@mbl.is