Undarleg uppákoma varð í íslensku viðskiptalífi fyrr í þessum mánuði. Efnt var til stjórnarkjörs í stærsta tryggingafélagi landsins aðeins átta mánuðum eftir að stjórn félagsins var kosin glymrandi kosningu á aðalfundi.

Undarleg uppákoma varð í íslensku viðskiptalífi fyrr í þessum mánuði. Efnt var til stjórnarkjörs í stærsta tryggingafélagi landsins aðeins átta mánuðum eftir að stjórn félagsins var kosin glymrandi kosningu á aðalfundi. Ástæðan var sögð sú að hópur fólks sem kalla vildi fram breytingar á starfsemi fyrirtækisins önglaði saman fjármunum fyrir rúmlega 5% hlut í félaginu og fór í krafti þess fram á hluthafafund.

Það sem virðist hafa gert æfinguna með stjórnarkjörið trúverðuga var það að fimm mánuðum eftir fyrrnefndan aðalfund sást undir iljarnar á ónefndum stjórnarmanni sem kosinn hafði verið í stjórnina. Því mátti með góðum vilja halda því fram að fylla þyrfti sæti hans, jafnvel þótt engin bráð hætta hefði verið á ferðum, enda tveir varastjórnarmenn til taks sem vel má nýta til að verma pláss þeirra sem ekki haldast við í sæti sínu.

En sú ákvörðun stjórnarinnar að láta ekki aðeins kjósa um sætið sem losnaði svo skyndilega heldur öll hin einnig, kallar á mjög áleitnar spurningar. Bendir ákvörðunin til að aðili eða hópur hluthafa sem ráða 5,0001% hlutafjár í hlutafélagi geti kallað eftir stjórnarkjöri að eigin geðþótta og jafnvel oft á ári, fari stjórnarkjör ekki eftir þeirra höfði? Ef sú túlkun stjórnar VÍS reynist rétt getur aðili með 297,3 milljónir króna keypt hlut í Nýherja og breytt upplýsingatæknifyrirtækinu í lýðræðisparadís minnihlutans. Í raun gætu 300 milljónir lamað fyrirtækið.

Það er mikilvægt að stigið sér varlega til jarðar og jafnvel þótt sæti og sæti losni mitt á milli aðalfunda er engin ástæða til að fara á límingunum. Það er alltaf stutt í næsta stjórnarkjör, jafnvel þótt ekki sé reynt að fjölga þeim á milli funda. Og svo mega varamennirnir líka láta ljós sitt skína þá sjaldan sem þeir eru kallaðir að borðinu.