Tidjane Thiam, fyrrverandi forstjóri Prudential, tók við stjórnartaumum hjá Credit Suisse í júlí. Hann hefur komið með nýjar áherslur inn í bankann og skilgreinir m.a. ekki lengur arðsemi eigin fjár á meðal fjárhagslegra markmiða.
Tidjane Thiam, fyrrverandi forstjóri Prudential, tók við stjórnartaumum hjá Credit Suisse í júlí. Hann hefur komið með nýjar áherslur inn í bankann og skilgreinir m.a. ekki lengur arðsemi eigin fjár á meðal fjárhagslegra markmiða. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Oliver Ralph Kapphlaup banka um mikla arðsemi eigin fjár kann að hafa átt sinn þátt í bankakreppunni en það þýðir þó ekki að þessi mælikvarði á rekstrarárangur fjármálafyrirtækja heyri sögunni til.

Hér er afleiðing þess að tryggingamaður er settur yfir banka. Eftir aðeins fjóra mánuði í starfi er Tidjane Thiam að reyna að kollvarpa viðtekinni venju um það hvernig á að meta frammistöðu banka. Hinn nýi bankastjóri Credit Suisse, sem gegndi áður forstjórastöðu hjá Prudential tryggingafélaginu, tilkynnti í síðasta mánuði um fjölda nýrra fjárhagslegra markmiða. Það hrópar á mann að engin markmið eru sett um algengasta árangurmælinn: arðsemi eigin fjár (e. return on equity, ROE).

Auðvelt er að sjá hvers vegna. Thiam benti á að fjöldi banka hefði sett sér markmið um arðsemi eigin fjár, en síðan þurft að lækkað þau þegar hlutirnir þróuðust á annan veg en að var stefnt. Var eins og við manninn mælt að viku síðar gerði Barclays einmit þetta, lækkaði arðsemismarkmið ársins 2016 úr 12% niður í 11%.

Hluti af vandanum er sá að það er snúið fyrir stjórnendur banka að hafa fullkomna stjórn á arðsemi eigin fjár. Hagnaðurinn („arðsemis“-hlutinn) veltur að vissu marki á vaxtastiginu. Og það hversu mikið eigið fé bankarnir geta nýtt sér er að hluta til, en þó ekki að öllu leyti, ákvarðað af stjórnvöldum.

Meiri skuldir og aukin áhætta

Thiam er ekki einn um að vera gagnrýninn á arðsemi eigin fjár. Í bókinni The Bankers' New Clothes , sem Anat Admati og Martin Hellwig sendu frá sér árið 2013, færa þeir rök fyrir því að arðsemi eiginfjár sé ekki marktækur mælikvarði á frammistöðu fjármálafyrirtækis, því hún taki ekkert tillit til þeirrar skuldsetningar og áhættutöku sem leiðir til arðseminnar.

Færa má fyrir því rök að leitin að æ meiri arðsemi eigin fjár hafi átt sinn þátt í fjármálakreppunni, með því að hvetja bankana til að safna skuldum (halda „eigin fjár“-hlutanum lágum) og auka við áhættuna (thalda„arðsemis“-hlutanum háum). Á tímabili virtist þetta ætla að ganga upp. Áður en kreppan skall á var arðsemi eigin fjár evrópskra banka iðulega yfir 20%. Svo hrundi allt til grunna og sjö árum síðar erum við enn að komast að því hvers konar áhættu bankarnir tóku til að ná þessari arðsemi.

Fáir góðir mælikvarðar

Arðsemi eigin fjár er sem sagt ófyrirsjáanlegur mælikvarði sem getur bæði leitt til endurskoðunar á markmiðum og of mikillar áhættutöku. Engin furða að Thiam taki aðra stefnu. En samt virðist arðsemi eigin fjár enn sitja sem fastast á sínum stalli, þrátt fyrir alla gagnrýnina. Ein skýringin er sú að fáir aðrir góðir valkostir eru í boði. Arðsemi heildareigna (e. return on assets) – hagnaður sem hlutfall af öllum efnahagsreikningnum – er einn möguleiki, en gæti aftur virkað sem hvati til að auka áhættuna með því að draga úr hlutfalli öruggari eigna sem bera minni ávöxtun.

Annar valmöguleiki er að miða við arðsemi áhættuveginna eigna. Með því er brugðist við þeim galla á arðsemi eigin fjár að taka ekki áhættu inn í reikninginn. En sjálfir útreikningarnir á áhættuvegnum eignum eru umdeilanlegir. Flestir stóru bankanna nota eigið mat á áhættu við útreikning áhættuveginna eigna og það er lítið gagnsæi um það hvernig þeir fara að.

Bankarnir sækja fjármagn

Hluthafar þurfa eftir sem áður að hafa einhverja leið til að meta hversu vel bankar fara með það fjármagn sem í þeim er bundið. Og bankarnir eru aldeilis að fara fram á meira af fjármagn. Á síðasta ári gáfu evrópskir bankar út hlutafé fyrir andvirði 60 milljarða dala, og fyrir 51 milljarða dala árið þar á undan, samkvæmt gögnum Dealogic. Stefnir í það sama á árinu 2015: Credit Suisse vill fá 6 milljarða svissneskra franka, Standard Chartered óskar eftir 3 milljörðum punda og grísku bankana vanhagar samanlagt um 10 milljarða evra.

Fyrst bankarnir eru á höttunum eftir svona miklu fjármagni þá þurfa þeir að geta sýnt fram á að þeim sé í mun að nýta það vel og arðsemi eigin fjár er skýrasta leiðin til þess. Meira að segja Credit Suisse lét lítinn kynningarpakka fljóta með ósk sinni um nýtt hlutafé, sem gaf í skyn að fyrir 2018 muni bankanum takast að ná 14% ávöxtun á eigið fé að frátöldum óefnislegum þáttum (sem vitaskuld er ekki ófrávíkjanlegt markmið, heldur á bara að sýna hvernig málin gætu þróast).

Arðsemi tengd hlutabréfaverði

Þar að auki hefur arðsemi eigin fjár verið gagnlegt tól fyrir fjárfesta. Samkvæmt tölum Morgan Stanley hefur mismunurinn á arðsemi eigin fjár bankanna og kostnaði eigin fjár (COE, sú arðsemi sem fjárfestar vænta af hlutabréfum fyrirtækisins) 92% fylgni við V/I hlutfallið. Með öðrum orðum, þá er arðsemi eigin fjár nátengd verði hlutabréfa. Þeir sem hundsa þá staðreynd mega gera það á eigin ábyrgð.

En höfum hugfast að það er munurinn á arðsemi eigin fjár og kostnaði eigin fjár sem segir til um markaðsverðið, en ekki arðsemi eigin fjár ein og sér. Það sem skiptir máli hér er ekki að bankarnir skili gríðarlegum hagnaði, heldur að hagnaðurinn sé meiri en hluthafar höfðu vænst. Eins og stendur er kostnaður eigin fjár í kringum 10% hjá stóru bönkunum, svo stjórnendur þeirra eru að reyna að komast upp fyrir það mark.

Minni væntingar um ávöxtun

En ímyndum okkur að þetta sé það sem koma skal. Vegna aðhalds frá stjórnvöldum munu bankarnir auka eigið fé sitt frá því sem nú er. Arðsemi eigin fjár mun í kjölfarið lækka. En núna er þetta eigið fé ekki í sama áhættuflokki og hjá bönkum sem eru mun skuldsettari, svo væntingar fjárfesta um ávöxtun myndu vera minni. Þetta er það sem stjórnvöld sækjast eftir til lengri tíma litið. Bankamenn sem fá laun sem tengjast arðsemi eiginfjár myndu ekki vera eins hrifnir.

Sem hugtak er arðsemi eigin fjár ekkert á förum, þó að Thiam hafi reynt að leggja sitt af mörkum til að draga úr vægi þess. Hins vegar virðist sú hugmynd vera orðin mun vafasamari að bankar geti að jafnaði skilað arðsemi eigin fjár sem er vel á annan tug prósenta.