[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Eftir að hafa misst öfluga leikmenn úr sínum röðum á síðustu vikum vinna Stjörnumenn nú hörðum höndum að því að fylla í skörðin.

Fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Eftir að hafa misst öfluga leikmenn úr sínum röðum á síðustu vikum vinna Stjörnumenn nú hörðum höndum að því að fylla í skörðin. Michael Præst, Gunnar Nielsen, Pablo Punyed og Garðar Jóhannsson hafa allir yfirgefið Garðabæjarliðið en á móti hafa Stjörnumenn fengið Baldur Sigurðsson, sem kemur frá SönderjyskE, Hilmar Árna Halldórsson frá Leikni, Grétar Sigfinn Sigurðarson frá KR og í gær samdi Eyjólfur Héðinsson við Stjörnuna til tveggja ára en hann kemur frá danska meistaraliðinu Midtjylland.

Eyjólfur, sem er 30 ára gamall, hefur spilað í Svíþjóð og í Danmörku undanfarin níu ár en hann lék í fjögur ár með Fylki og þar áður með ÍR áður en hann fór út í atvinnumennskuna.

„Nú er bara komið að þessu, að halda heim á leið. Það eru þrjár vikur eftir af tímabilinu hérna úti og eftir það kem ég heim,“ sagði Eyjólfur Héðinsson við Morgunblaðið í gær.

Eyjólfur er nýkominn aftur á ferðina eftir langvarandi meiðsli en hann var frá keppni í eitt og hálft ár.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu. Það er tilhlökkun að koma heim og spila í Pepsí-deildinni þó svo að þetta hafi ekki endað hérna úti eins og ég vildi.“

Tiltölulega auðveld ákvörðun

Hann segir að nokkur önnur lið hafi falast eftir kröftum hans og þar á meðal hans gamla félag, Fylkir.

„Ég ræddi við nokkur lið en Stjarnan sýndi langmestan áhuga og mér leist mjög vel á allt sem Stjarnan hafði fram að færa. Þetta var því tiltölulega auðveld ákvörðun. Ég veit að Stjörnumenn voru ekki sáttir við síðasta tímabil en nú á að gefa í og það verður gaman að fá að vera með í því. Liðið er búið að fá til sín sterka leikmenn en hefur vissulega misst góða leikmenn líka,“ sagði Eyjólfur við Morgunblaðið en hann á að baki 5 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, síðast vináttulands-leik gegn Frakklandi árið 2012, og 19 leiki með yngri landsliðum Íslands.

Hef verið heiðarlegur

Miðað við meiðslasögu þína. Eru Stjörnumenn ekki að taka áhættu með því að semja við þig?

„Jú, vissulega er Stjarnan að taka áhættu. Ég hef verið heiðarlegur varðandi mína stöðu og þeir vita hver hún er. Þeir hafa fylgst með mér í töluvert langan tíma. Staðan á mér er betri en hún hefur verið lengi. Ég hefði ekki verið að skrifa undir samning við lið nema ég væri þess fullviss að koma til baka. Ég vona bara innilega að ég geti þakkað Stjörnunni fyrir traustið sem hún sýnir mér. Stóra vandamálið sem var að hrjá mig, nárameiðslin, virðist vera úr sögunni og það er aðalmálið. Það eru smámeiðsli að gera vart við sig núna og það er vegna þess að margir vöðvar eru að komast í gang eftir langan dvala. Þetta gengur betur og betur og þessi smámeiðsli eru smátt og smátt að hverfa. Ég æfði í gær og í dag en vissulega getur brugðið til beggja vona. Ég er hins vegar bjartsýnn,“ sagði Eyjólfur.