Fjölskyldan Stefán Karl smellir í eina sjálfu af sér og fjölskyldunni um jól. Aldrei þessu vant er hann ekki í gervi Trölla sem hann túlkar annars yfir jólin af ótrúlegum dugnaði og hefur gert fyrir röskar tvær milljónir manna.
Fjölskyldan Stefán Karl smellir í eina sjálfu af sér og fjölskyldunni um jól. Aldrei þessu vant er hann ekki í gervi Trölla sem hann túlkar annars yfir jólin af ótrúlegum dugnaði og hefur gert fyrir röskar tvær milljónir manna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í átta ár hefur Trölli stolið jólunum af leikarahjónunum Stefáni Karli Stefánssyni, Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur og fjölskyldu en líkt og í sögu dr. Seuss hefur hann fært þeim þau á ný, innihaldsríkari en áður.

Frá október til áramóta hefur Stefán, undanfarin ár, verið við æfingar og sýningar á Þegar Trölli stal jólunum, sem byggð er á samnefndri sögu dr. Seuss. Þetta haustið verður verkið sýnt í Boston Massachusetts, Detroit Michigan, Appelton Wisconsin og Columbus Ohio. Ferðinni líkur svo í Flórídaríki þar sem sýnt er í tveimur borgum á fyrri helmingi desember, fyrst í Jacksonville, þá Orlando, og svo loks Fort Lauderdale í jólavikunni og þar til sýningaferðinni lýkur 29. desember. Steinunn og þrjú yngstu börnin 7, 8 og 14 ára eru á Íslandi við nám og störf en sú elsta 20 ára starfar sem stílisti og fyrirsæta í New York. Fjölskyldan sameinast í Flórída og heldur þar sín áttundu hóteljól. Eftir að sýningum lýkur tekur fölskyldan sér frí saman, buslar á strönd og slakar á.

Stefán Karl hefur ekki verið á Íslandi yfir jólin síðan 2003 og hann segist vera því að mörgu leyti feginn. „Það er eins og Íslendingar hafi lært af Griswold-fjölskyldunni í Christmas Vacation-myndinni hvernig eigi að halda jól,“ segir Stefán. Honum finnst stressið og öfgarnar í jólahaldi Íslendinga vera gífurlegar, ekki ósvipað því sem verið er að gera grín að í myndinni. Í Bandaríkjunum segir Stefán að sleginn sé annar taktur. Vissulega séu Bandaríkjamenn sniðugir í markaðssetningu og að búa til tilefni til að selja vörur. Á haustin eru þrjár hátíðir í röð, hrekkjavaka í október, þakkargjörðarhátíðin í nóvember og loks jólin. Kaupmenn eru í raun uppteknir við að hengja upp og taka niður skraut þessa mánuði og enginn tapar sér yfir neinni þessara hátíða. Seinni hátíðirnar tvær snúast meira um samveru fjölskyldunnar en nokkuð annað.

Þakkargjörðarhátíðin stærst

Stefán er hrifinn af því hversu miklir fjölskyldumenn Bandaríkjamenn eru en bæði á þakkargjörðarhátíðinni og á jólum er mest áhersla á samveru fjölskyldunnar. Þakkargjörðarhátíðin er talsvert stærri. „Það taka allir Bandaríkjamenn sig upp hvar sem þeir eru í heiminum og fara heim til mömmu í kalkún, út á það gengur þakkargjörðarhátíðin,“ segir Stefán og bætir við að það þurfi góða afsökun fyrir að mæta ekki, einna helst að vera erlendis í hernum. Í leikhópnum með Stefáni eru 68 manns og börn stór hluti hans. Hópurinn heldur sína eigin þakkargjörðarhátíð og í hópinn bætast foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir þannig að hópurinn sem borðað hefur saman hefur oft verið um 150 manns.

Stefán hefur upplifað jólin á mörgum stöðum í Bandaríkjunum á undanförnum 12 árum en hann var síðast á Íslandi á jólunum árið 2003. Þó að vissulega hafi hann séð ýmsar útgáfur af jólahaldi finnst honum Bandaríkjamenn alls ekki mjög kristnir í jólahaldi þegar á heildina er litið. Jólin í Utah hafi svo sannarlega verið kristileg alla leið en þess utan hafi jólahaldið verið mjög hófstillt og fyrst og fremst sem framlenging af þakkargjörðarhátíðinni sem fjölskyldu- og samveruhátíð.

Lítið jólabarn

Sjálfur segist Stefán aldrei hafa verið mikið jólabarn og ekki mikið fyrir allt það sem þeim fylgir. „Það er því ekki margt sem ég sakna við að vera ekki á Íslandi á jólunum nema þá fólksins míns og samveru við það,“ segir Stefán. „Það er þó einna helst eitthvað matarkyns sem minnir mig á jólaeldhúsið hennar mömmu,“ segir Stefán. Steinunn Ólína tekur yfirleitt 3-4 randalínur með frá Íslandi til að færa Stefáni en það finnst honum tilheyra og stundum tekur hún líka með íslenskan konfektkassa og harðfisk.

Stefán hefur leikið þessa jólasýningu í hátt í 60 borgum í á fjórða tug ríkja fyrir yfir tvær milljónir manna. Af öllum þessum fjölda segist Stefán aldrei hafa séð neitt barn sem var neitt sérstaklega sturlað í jólastemningunni heldur hafi það fyrst og fremst verið fullorðna fólkið sem var með lætin. Stefán segir það líka vera tóma vitleysu að allar þessar öfgar í jólahaldi séu fyrir börnin. „Börn eru opin, einlæg, hrein og bein og vilja fyrst og fremst vera með foreldrum yfir jólin. Þeim er sama um stærð jólagjafa, íburð í mat og skreytingum. Sú vitleysa er komin úr fullorðna fólkinu,“ segir Stefán. Hann segir tilhlökkun barnanna snúast um að á jólum gefi foreldrar sér tíma til að gera eitthvað með börnunum sem yfirleitt gefst ekki tími til. Þar sé einmitt kominn kjarni málsins og þess vegna sé þessi sýning svona vinsæl. „Það tengja svo margir við þann boðskap að það eigi enginn að vera einn á jólunum jafnvel þó að hann hafi stolið þeim,“ segir Stefán.

40.000 sýningargestir á viku

Sagt er að allt sé svo stórt í Bandaríkjunum og það á einnig við um leikhúsin. Leikfélagið sem Stefán leikur hjá er í samstarfi við Fox-leikhúsin sem reka nokkur af stærstu leikhúsum Bandaríkjanna. Leikhópurinn sýnir í mörgum Fox-leikhúsanna vítt um Bandaríkin. Fox-leikhúsið í Detroit er annað stærsta leikhús í Bandaríkjunum en aðeins Radio City er stærra. Húsið tekur 5.200 manns í sæti og á þeirri viku sem sýningar standa yfir í Detroit munu um 40.000 manns sjá sýninguna. Í íslensku samhengi eru þetta ansi stórar tölur.

Jólin 2012 voru Stefáni gríðarlega erfið. Vikuna sem byrjað var að æfa missti hann besta vin sinn og samstarfsfélaga og tveimur vikum síðar lést faðir hans. Stefán var einn um þessi jól og um þetta leyti var Detroit-borg í djúpri efnahagslegri dýfu og mörgum fyrirtækjum hafði verið lokað. Á aðfangadag voru sýningar kl. 11 og 14 og um kvöldið átti að vera jólamatur fyrir leikhópinn. Þegar til átti að taka voru allir matsölustaðir í nágrenninu farnir á hausinn. Eftir dúk og disk fannst einn opinn staður sem var þýsk krá beint á móti aðalstöðvum General Motors. Þar var þó ekki hægt að fá neitt að borða nema djúpsteiktar ostastangir og kjúklingafingur í litlu magni. Þá var lítið annað að gera en að fara aftur upp á hótel en þar var heldur ekkert til að borða nema morgunkorn í litlum pökkum. Stefán segir að þessi jól og aðdragandi þeirra hafi sannarlega verið nöturlegur og virkilega tekið á. Þegar viðtalið var tekið var Stefán að fara til Detroit á ný en nú er stemningin önnur í borginni. Yfirvöld eru að gera allt til að ná borginni og efnahagslífinu af stað á ný. Tómar verslunarmiðstöðvar þjóna nú hlutverki lista- og nýsköpunarmiðstöðva, unnið hefur verið markvisst að því að lækka fasteigna- og leiguverð o.s.frv. til að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað. Stemningin er strax orðin allt önnur í borginni núna þremur árum eftir jólin erfiðu og meiri bjartsýni gætir hjá íbúum.

Naumhyggjuhóteljól

Jólahaldið sjálft hjá Stefáni, Steinunni og fjölskyldu er íburðarlítið og handhægt eins og eðlilegt er um hóteljól. Fjölskyldan setur upp og skreytir lítið jólatré og gefur litlar jólagjafir sem lítið fer fyrir. Þetta árið fá börnin til dæmis jólagjöfina snemma en til stendur að gefa þeim ferð í Disney-skemmtigarðinn í Flórída. Það segir Steinunn Ólína vera meiri fórn á andlegri heilsu en peningum. „Ég er búin að vera að búa mig andlega undir þetta í marga mánuði,“ segir Steinunn og bætir við að hún sé samt ekki viss um hvort hún sé tilbúin. „Ég á bara mjög erfitt með þetta,“ segir hún, án þess að fara nánar út í það. Á aðfangadag eru yfirleitt tvær sýningar hjá Stefáni en að kvöldi aðfangadags heldur leikhópurinn ýmist jólaboð eða fer út að borða. Jóladagur er eini eiginlegi frídagur Stefáns yfir jólin en þá er pantað kakó og kökur upp á herbergi í morgunmat, gjafir opnaðar og slakað á. Þá eru eftir fjórir sýningardagar áður en sýningum lýkur 29. desember en þá fer fjölskyldan saman í frí.

Klassík sem snertir

Stefán segir þetta verkefni vera lærdómsríkt og skemmtilegt. „Það er ekki bara það að fá að sjá jólahald í mismunandi borgum heldur er ég líka mjög þakklátur fyrir að fá að leika þetta klassíska jólaverk sem virkilegar snertir hjörtu þessarar þjóðar. Mér finnst það magnað að með því að láta Trölla stela jólunum af mér í átta ár skil ég betur út á hvað þau ganga og get skýrt það fyrir mínum börnum. Það er magnað að hann hafi stolið jólunum og ég svo upplifað sömu tilfinningu og hann,“ segir Stefán Karl Stefánsson að lokum.

Undarlegt aðfangadagskvöld

Undarlegasta aðfangadagskvöld sem Steinunn Ólína hefur upplifað segir hún hafa verið í Brighton Beach-hverfinu í New York. Þau Stefán Karl voru búin að ákveða að fara á sýningu með sýningarflokknum Circus Minimus sem átti að vera nokkurs konar fjölleikasýning með dvergum. Leikhúsið er í rússneska hluta hverfisins og allt bar þess skýr merki. Þegar í leikhúsið var komið var bar við hliðina þar sem eingöngu var hægt að kaupa vodka í vatnsglösum. Þau gerðu það og fóru svo á sýninguna. Fyrstur á svið var undarlegur sirkusstjóri sem talaði bara rússnesku. Þá tók við kona á G-streng einum fata sem sneri 100 húlahringjum utan um sig. Þar á eftir kom kona á reiðhjóli sem „jogglaði“ köttum en ekkert bólaði á dvergunum. Þau ræddu það sín á milli að sumir þátttakendanna í sýningunni væru kannski frekar smávaxnir og kannski nánast dvergar en þegar ekkert hafði bólað á dvergunum í hléi fóru þau í miðasöluna þar sem þeim var sagt að dvergarnir hefðu ekki fengið landvistarleyfi. Þetta hefði verið auglýst alla helgina á útvarpsstöðvum í hverfinu. Eftir hlé tók við það rosalegasta „floor show“ sem Steinunn hafði séð sem ekki er viðeigandi að lýsa nánar hér. Eftir sýningu fóru þau út að borða á veitingastað í nágrenninu en það sem var í boði var steik, franskar og vodka í flösku, ekkert léttvín. Til að draga það saman var þetta aðfangadagskvöld nokkuð fjarri því sem gerist og gengur heima á Fróni og um leið einstaklega eftirminnilegt.