Anna Birna Jensdóttir
Anna Birna Jensdóttir
Eftir Önnu Birnu Jensdóttur: "Thorvaldsensfélagið, sem er elsta kvenfélagið í Reykjavík, er eitt af stofnfélögum Bandalags kvenna í Reykjavík og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur."

Það er með stolti sem Thorvaldsenskonur fagna 140 ára afmæli félagsins sem stofnað var 19. nóvember 1875 af 24 konum í Reykjavík. Allar götur síðan hefur starfið verið óslitið, þar sem félagskonur hafa haldið merkinu á lofti og unnið sjálfboðin störf í þágu almannaheilla. Þannig hafa Thorvaldsenskonur valið verkefni sem gagnast þeim sem minna mega sín í samfélaginu, búa við fátækt, fötlun af einhverjum toga eða eiga við veikindi að stríða. Það hefur ekki komið það tímabil í 140 ára sögu félagsins að ástæða hefur verið til að breyta þeim markmiðum. Verkefnin eru því miður ávallt óþrjótandi. Thorvaldsenskonur stóðu að byggingu þvottaskýlis til að bæta aðbúnað kvenna til þvotta við laugarnar í Laugardalnum 1888. Þær komu að byggingu Landspítalans á sínum tíma og gáfu Reykjavíkurborg tvær húsbyggingar til að reka þar starfsemi í þágu barna. Mikið hefur verið gefið af nauðsynlegum tækjum til hinna ýmsu samfélagsstofnana sem ávallt virðast búa við fjárskort til tækjakaupa. Starfsfólk skortir nauðsynleg verkfæri til að geta nýtt þekkingu sína sem best til hagsbóta fyrir skjólstæðingana hvort heldur að um nemendur, sjúklinga eða þá sem búa við fötlun er að ræða. Jafnframt hefur fjölmörgum nýsköpunarverkefnum verið lagt lið þar sem markmiðið er að auðvelda fólki að takast á við nám, erfiðar aðstæður, veikindi og fötlun. Menntunarmál ungra kvenna hafa verið félagskonum hugleikin, allt frá því að handavinnuskólinn, þar sem ungum stúlkum var boðið ókeypis nám, var stofnaður í árdaga félagsins. Thorvaldsensfélagið styrkir því reglulega Starfsmenntunarsjóð ungra kvenna hjá Bandalagi kvenna í Reykjavík og Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndar. Báðir þessir sjóðir styðja ungar og efnalitlar konur til náms.

Thorvaldsensfélagið, sem er elsta kvenfélagið í Reykjavík, er eitt af stofnfélögum Bandalags kvenna í Reykjavík og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Félagið hefur ávallt átt öfluga aðkomu að starfi þeirra með þátttöku í stjórn og nefndum.

Í Thorvaldsensfélaginu er 91 félagskona. Meðalstarfsaldur í félaginu er nærri 17 ár. Þar af hafa átta konur starfað yfir 40 ár og sú sem lengst hefur verið félagskona gekk í félagið 1948. Thorvaldsenskonur reka basar allt árið og starfa sem sjálfboðaliðar við afgreiðslu í Thorvaldsensbazar sem var stofnaður 1901. Basarinn er með elstu verslunum í Reykjavík og hefur verið starfræktur í 114 ár við Ingólfstorg. Þar er selt íslenskt handverk sem meðal annars er prjónað af félagskonum og fer allur ágóði til góðgerðarmála. Allt frá árinu 1913 hefur félagið gefið út jólamerki, ágóði af sölu þeirra fer í Barnauppeldissjóð félagsins og eru árlega veittir úr honum styrkir til verkefna í þágu barna og unglinga. Jólamerkin hafa jafnan haft fallegan boðskap tengdan jólahaldinu, kærleika, frið, ljós og von, móður og barni, og efni sem endurspeglar þjóðarstoltið, náttúru Íslands s.s. fugla og blóm. Listamenn, teiknarar og grafískir hönnuðir hafa gengið í lið með Thorvaldsensfélaginu og gefið verk sín á merkin. Thorvaldsensfélagið færir öllum listamönnunum, sem lagt hafa starfinu lið með því að gefa verk sín, kærar þakkir. Þetta samstarf hefur leitt af sér áhugavert safn 102 jólamerkja sem þekkt er víða um heim og óteljandi góðverk. Félagið hefur jafnframt gefið út jólakort allt frá árinu 1994 og heillaóskakort frá árinu 2005. Ágóði af sölu þeirra fer til verkefna í þágu sykursjúkra barna og unglinga. Myndskreyting á jólamerki og jólakorti 2015 er sú sama „Móðir jörð“ eftir Maríu S. Kjarval listmálara.

Það er góður félagsskapur að vera í Thorvaldsensfélaginu, það er gefandi starf að vinna að velferð og hjálpa öðrum.

Höfundur er formaður Thorvaldsensfélagsins.