Seyðisfjörður Breytingar á afgreiðslu Landsbankans um áramót.
Seyðisfjörður Breytingar á afgreiðslu Landsbankans um áramót. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Landsbankinn hefur rætt við sýslumanninn á Austurlandi um að afgreiðsla bankans á Seyðisfirði flytji í húsakynni sýslumannsembættisins að Bjólfsgötu 7. Góðar horfur eru á að samningar um það takist, að því er segir á heimasíðu Landsbankans.

Landsbankinn hefur rætt við sýslumanninn á Austurlandi um að afgreiðsla bankans á Seyðisfirði flytji í húsakynni sýslumannsembættisins að Bjólfsgötu 7. Góðar horfur eru á að samningar um það takist, að því er segir á heimasíðu Landsbankans. Fækka á starfsmönnum afgreiðslunnar úr þremur í einn. Hún verður opin kl. 12.00-15.00 alla virka daga. Starfsfólki hafa verið tilkynntar þessar breytingar. Hraðbanki Landsbankans á Seyðisfirði verður einnig fluttur á nýjan stað. Breytingarnar verða um áramótin.

Bankinn segir að miklar breytingar hafi orðið á rekstrarumhverfi banka. „Yfir 80% allra bankaviðskipta eru nú rafræn og þetta hlutfall fer hækkandi. Þörf fyrir hefðbundin útibú og afgreiðslur hefur því minnkað. Þá eru gerðar ríkar kröfur um aukna hagkvæmni í rekstri Landsbankans. Breytingarnar á Seyðisfirði eru liður í að bregðast við þessu.“

Eftir breytingarnar verður afgreiðslan á Seyðisfirði með svipuðu sniði og afgreiðslan í Bolungarvík. Þar tekur Landsbankinn þátt í rekstri þjónustumiðstöðvar í Ráðhúsi Bolungarvíkur, ásamt sýslumanninum og Póstinum. Póstþjónusta er nú veitt í afgreiðslu bankans á Seyðisfirði en ljóst er að breyting verður á því. gudni@mbl.is