Siggi ha (1859-1932) Hann fékk viðurnefni sitt vegna þess hversu hann heyrði illa og hváði oft þegar við hann var talað. Hann fór á sveitina þegar hann var þriggja ára og var lengst af niðursetningur. Hann átti afar erfitt í uppvextinum og til er saga af honum þar sem hann var lokaður einn í myrkri úti í hesthús þar sem hann grét heilt kvöld. Hann varð vinnumaður á ýmsum bæjum í Hálsasveit þegar hann stálpaðist. Hann unni dýrum og annaðist þau vel og var ágætur tamningamaður. Hann var skáld og taldi sig geta verið son Bólu-Hjálmars. Hann var þrjóskur, vinur vina sinna og tryggur þeim sem voru honum góðir. Hér er Siggi ha, á milli Jóns Þorsteinssonar og Jóns Helgasonar við heimili foreldra Sigga ha, Hólakot í Borgarfirði, þar sem hann var einsetumaður síðustu æviárin.
Siggi ha (1859-1932) Hann fékk viðurnefni sitt vegna þess hversu hann heyrði illa og hváði oft þegar við hann var talað. Hann fór á sveitina þegar hann var þriggja ára og var lengst af niðursetningur. Hann átti afar erfitt í uppvextinum og til er saga af honum þar sem hann var lokaður einn í myrkri úti í hesthús þar sem hann grét heilt kvöld. Hann varð vinnumaður á ýmsum bæjum í Hálsasveit þegar hann stálpaðist. Hann unni dýrum og annaðist þau vel og var ágætur tamningamaður. Hann var skáld og taldi sig geta verið son Bólu-Hjálmars. Hann var þrjóskur, vinur vina sinna og tryggur þeim sem voru honum góðir. Hér er Siggi ha, á milli Jóns Þorsteinssonar og Jóns Helgasonar við heimili foreldra Sigga ha, Hólakot í Borgarfirði, þar sem hann var einsetumaður síðustu æviárin. — Ljósmynd/ Úr einkasafni
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sem betur fer gefst fólki á Íslandi í dag leyfi til að vera „allskonar“ og ólíkustu hæfileikar fá að njóta sín. Einnig búum við svo vel að hafa kerfi sem styður bæði andlega og líkamlega fatlaða.

Sem betur fer gefst fólki á Íslandi í dag leyfi til að vera „allskonar“ og ólíkustu hæfileikar fá að njóta sín. Einnig búum við svo vel að hafa kerfi sem styður bæði andlega og líkamlega fatlaða. En ótrúlega stutt er síðan utangarðsfólk þvældist heimilislaust um landið. Margt af því fólki væri sennilega rithöfundar, leikarar, fræðimenn eða handverksfólk í dag, ef það hefði fæðst nær okkur í tíma.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þegar við fórum að grafast fyrir um minnimáttar fólk í frumgögnum, kom í ljós hversu víða það leyndist. Okkar markmið er að draga fram sögu þessa fólks og sýna fram á hversu stutt er síðan þetta var, í bókinni er til dæmis sagt frá Ágústínu Magnúsdóttur í Strandasýslu sem missti manninn sinn í byrjun tuttugustu aldar, en hún varð í framhaldinu vinnukona og missti frá sér öll börnin nema eitt,“ segja þær Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir sem vinna báðar í handritadeild Landsbókasafns en þær sendu nýlega frá sér bókina Utangarðs? ferðalag til fortíðar. Þar segir frá utangarðsfólki og förufólki á Vesturlandi og Vestfjörðum frá síðari hluta 18. aldar og fram á fyrstu ár 20. aldar.

„Vonandi er þetta fyrsta bók af fleirum, því okkur langar auðvitað að segja líka frá fólki í hinum landshlutunum.“

Þau skildu eftir sig spor

Gríðarleg rannsóknarvinna liggur að baki því að hafa uppi á þessum einstaklingum og voru sóknarmannatöl mjög gagnleg, en þar skráðu prestar manntöl einstakra kirkjusókna með ýmsum athugasemdum um einstaklinga. Halldóra og Sigríður segja það hafa verið forvitnilegt að grúska í heimildum um fólkið.

„Þetta fólk er ekki nafnlaust, það var til og það hefur skilið eftir sig spor. Það eru til bréfasöfn frá sumum þeirra, dagbækur, kveðskapur og fleira sem ekki er haldið á lofti. Eftir þessi kynni þykir okkur vænt um allt þetta fólk. Og það var magnað að sjá það lifna við á myndunum hans Halldórs Baldurssonar sem við fengum til að teikna myndir eftir útlitslýsingum en þær reyndust oft nokkuð nákvæmar.“

Langflestir þeirra sem getið er í bókinni hafa viðurnefni, ýmist út frá útlitseinkennum, hæfileikum, skapferli eða öðru, til dæmis Prjóna-Sigga, Tómas víðförli, Langi-Mangi, Kjafta-Rafn, Hannes stutti, Mállausa Finna, Magnús sálarháski og Kúa-Kjartan.

Ærðist af ástarsorg

„Við vildum ekki hafa einvörðungu svokallaða flakkara í bókinni heldur líka fólk sem af einhverjum ástæðum passaði ekki inn í samfélagið, var á jaðrinum. Þetta er til dæmis fatlað fólk, líkamlega og andlega, samkynhneigðir og listafólk. Ef fólk passaði ekki inn í ramma búskapar með skepnur, þá stóð það fyrir utan.

Gott dæmi þar um er maðurinn sem er á bókarkápunni, hann var kallaður Bóka-Helgi, grúskari sem hafði engan sans fyrir verklegri vinnu. Hann ferðaðist með bækur í poka á bakinu og las í þeim þar sem hann kom. Hann hefði sennilega verið starfandi fræðimaður ef hann hefði fæðst á okkar tíma.

Konan á bókarkápunni hét Jófríður Þorkelsdóttir og var ýmist kölluð Fríða stóra eða Flökku-Fríða. Hún þótti mjög falleg og klár, var vinnukona sem fór suður en þar fóru ástarmálin illa og hún gekk aftur heim á Snæfellsnes. Hún varð bæði andlega og likamlega veik af þessari ástarsorg. Þarna gátum við parað saman sögu og skjöl því hér á handritasafninu eru varðveitt veturvistabréf fyrir þessa konu, þar sem hreppstjórinn skrifar að hún eigi að dvelja á bæjum sveitarinnar, hálfa til tvær vikur á hverjum bæ og fá mat. Þetta var úrræði þess tíma,“ segja þær stöllur sem lögðu sig sérstaklega fram um að finna konur í leit að utangarðsfólki.

„Af því sagan af öllum þekktu karlflökkurunum hefur verið sögð áður. Það eru til margar greinar og bækur um utangarðskarla, en um konurnar er svo miklu minna til. Skráning fyrri tíma heldur konunum utan við, það er eins og þeim sögum hafi ekki verið haldið eins vel til haga. Okkur langaði að vekja konurnar til lífs.“

Sóttu smjör inn í Dali

Þeim kom á óvart hversu lengi var til svona fólk. Ástar-Brandur er væntanlega með síðustu flökkurum Íslands en hann dó 1960 og hætti að flakka örfáum árum áður. Einnig er kona nefnd á Suðurlandi sem síðasta förukonan, en hún dó um 1950. „Alveg fram á tuttugustu öld er það viðtekin venja að einhverjir einstaklingar þvælist um, sumir um allt land en aðrir innan sveitar. Sumir þvældust um allan ársins hring, en aðrir héldu kyrru fyrir yfir veturinn en fóru á stjá yfir sumarið. Dæmi þar um eru konur af Snæfellsnesi sem fóru yfir sumartímann inn í Dali til að fá þar smjör og fleira sem þær nýttu til að lifa veturinn af.“

Veiga fríða lokuð inni í skúr

Þær segja heimilislausa útigangsmenn í Reykjavík vera flakkara nútímans þó þeir þvælist ekki um landið, en þeir komi alls staðar að af landinu.

„Sem betur fer eru stofnanir og úrræði í dag fyrir andlega veikt fólk. Í bókinni er átakanleg saga af konu á Snæfellsnesi, Sólveigu sem kölluð var Veiga fríða, sem augljóslega hefur verið með geðraskanir. Úrræðið fyrir hana var að hún var lokuð inni í skúr í miðju þorpi og krakkar léku sér að því að banka á glugga hjá henni og stríða henni. Hún var greinilega mjög veik. Önnur kona sem við segjum frá var heyrnarlaus, sem hefur verið ægileg fötlun á þessum tíma. Margt af því fólki sem við segjum frá hefur verið listamenn sem voru hvorki geðveikir né fatlaðir, heldur stefndi þeirra hugur og hæfileikar ekki til búskapar. Þetta fólk væri sennilega einhverskonar skemmtikraftar, leikarar eða skáld, ef það hefði fæðst á okkar tímum. En sumir nýttu sína hæfileika til að fá húsaskjól og mat, Sólon Íslandus borgaði til dæmis oft fyrir mat með teikningum og aðrir ortu kvæði um heimilisfólkið eða lásu upp úr bókum. Margir nutu virðingar og fólki þótti gott að fá þau í heimsókn, með þeim bárust líka fréttirnar og slúðrið því það fór víða. Þau voru fésbók síns tíma. Sumum var treyst fyrir því að fara með hluti á milli staða, bréf eða annað. Þrátt fyrir að utangarðsfólk hafi verið misvinsælt, þá tóku heimilin alltaf á móti því, það var samfélagsleg skylda.“