Jóladraumur Norðurljósin yfir veitingastaðnum Rauða húsinu á Eyrarbakka. Pétur segir jólamatseðilinn einfaldan og sígildan.
Jóladraumur Norðurljósin yfir veitingastaðnum Rauða húsinu á Eyrarbakka. Pétur segir jólamatseðilinn einfaldan og sígildan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í desember býður Rauða húsið, í samvinnu við Valgeir Guðjónsson og Ástu Kristrúnu Ragnarsdóttur, upp á dagskrá sem tvinnar saman tónlist og hefðbundnum mat.

Veitingastaðurinn Rauða húsið á Eyrarbakka verður sérdeilis jólalegur í desember. Þarf reyndar ekki mikið skraut til, enda veitingastaðurinn í rómantísku gömlu húsi þar sem notalegheitin ráða ríkjum.

Það var árið 2002 að Rauða húsið var opnað í byggingunni Gunnarshúsi, rauðu bárujárnsklæddu húsi á þremur hæðum. Þremur árum síðar fluttist veitingastaðurinn yfir í stærra húsnæði á Búðarstíg 4, í bygginguna Miklagarð, sem er nærri aldargamalt hús sem upphaflega var byggt sem verslun en hefur gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina.

Pétur Andrésson er yfirkokkur veitingastaðarins og segir hann frá matseldinni: „Árið um kring leggjum við mesta áherslu á humar og fisk. Í aðdraganda jóla bjóðum við upp á fimm rétta jólamatseðil og verðum að auki með tónlistar- og menningarupplifun undir yfirskriftinni Gömlu jólin,“ segir hann. „Jólamatseðillinn er ekki flókinn, heldur með klassískum réttum. Við byrjum á ljúffengri súpu, þá heitum og köldum sjávar- og kjötréttum, purusteik og svo heimilislegur eftirréttur í lokin.“

Fornir og sjarmerandi siðir

Gömlu jólin er dagskrá sem tvinnar saman tónlist og veitingar. Á völdum dögum í desember taka hjónin Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir á móti gestum í Bakkastofunni, gömlu og sögufrægu húsi í bæjarfélaginu. Þar greina þau frá gömlum jólasiðum, sýna gamla jólamuni og -skraut og flytja jólatónlist. Þaðan er svo farið yfir í Rauða húsið þar sem borinn er á borð gamaldags jólamatur. Pétur segir sætaframboðið takmarkað og verði fólk að panta pláss með hæfilegum fyrirvara til að upplifa dagskrána.

Að sögn Péturs er upplagt að skjótast út á Eyrarbakka í miðju jólastressinu. Bærinn og byggðirnar í kring njóta sín í vetrarskrúðanum og mörgum þykir gott að kúpla sig út úr ösinni í borginni með stuttum bíltúr og bragðgóðum mat á veitingastaðnum. „Hingað er ekki nema 30 mínútna akstur frá Rauðavatni og vegirnir vandlega mokaðir og saltaðir svo ekki ætti færðin að verða til vandræða. Er vegurinn til Grindavíkur einnig ruddur rétt eins og aðrir vegir og gæti verið tilvalið að taka hringferð með viðkomu í Bláa lóninu, eða fara hinn hringinn og skoða Þingvelli, Gullfoss og Geysi áður en komið er í kvöldmat.“

ai@mbl.is

Ris à l'amande að hætti Péturs

100 g River-hrísgrjón

700 ml mjólk

2 vanillustangir

u.þ.b. 70 g flórsykur

ristaðar möndluflögur eftir smekk

500 ml rjómi

bláber til skrauts

Vanillustangirnar klofnar eftir endilöngu og skafið innan úr þeim.

Mjólkin hituð, grjónin sett út í og soðið í 30 mínútur. Kælt, jafnvel yfir nótt.

Rjóminn þeyttur og blandað varlega saman við grjónin ásamt flórsykri.

Skreytt með bláberjum og jafnvel fleiru.

Karamellusósa:

120 g smjör

120 g púðursykur

rjómasletta

smá vanilludropar

Soðið saman og hrært stanslaust.

Blanda verður grjónunum og rjómanum varlega saman

Meðal þeirra rétta sem Pétur galdrar fram í desember er jólaeftirrétturinn ris à l'amande. Þótt rjómablandaði grjónagrauturinn þyki ekki með flóknustu eftirréttum að elda langar eflaust marga að heyra hvernig fagmaðurin fer að til að ná fram bestu eiginleikum réttarins.

Pétur segist meðal annars skafa innan úr vanillustöngum frekar en að nota vanilludropa til að bragðbæta grautinn. Gefur það grautnum allt annað og betra bragð. „Svo þarf að sjóða grjónin rétt, og kæla þau rétt, svo þau verði hvorki of klesst né of lítið soðin.“

Velja þarf búðingsgrjón sem soðin eru í mjólk við lágan hita í langan tíma, með vanillunni og jafnvel ögn af sykri. „Því næst verður að kæla grjónin áður en bæta má stífþeyttum rjómanum saman við. Til að flýta fyrir kólnuninni dreifi ég hrísgrjónunum stundum á bakka, breiði plastfilmu yfir og set inn í kæli.“

Það þarf að fara gætilega þegar rjómanum og hrísgrjónunum er blandað saman. „Rjóminn má ekki missa loftið úr sér og verður því að blanda rólega, t.d. með sleif, eða jafnvel með fingrunum.“

Er Pétur á því að það séu engin helgispjöll að bæta út í grautinn rúsínum eða möndluflögum en hann varar við því að hugsa of langt út fyrir boxið enda einfaldleikinn og hefðin hluti af því sem gerir ris à l'amande svo góðan eftirrétt. Fer síðan eftir venjunum á hverju heimili hvort yfir grautinn er hellt ávaxtasósu eða jafnvel karamellusósu. „Mér finnst gott að hafa með vel fljótandi berjasaft sem bæði gefur ákveðið bragð og lit í réttinn. Til að setja punktinn yfir i-ið má skreyta grautinn í skálinni, máski með vanillustöngum eða litlum ávaxtabitum og berjum.“

Eitt sem gæti útskýrt vinsældir ris à l'amande á veisluborðum Íslendinga um jólin er að bæði er fljótlegt að gera réttinn, en svo má líka geyma grjónagrautinn tilbúinn í ísskáp nokkuð lengi. „Það má alveg gera grautinn daginn áður, og ef eitthvað er verður hann bara betri á bragðið við að vera í kæli yfir nótt.“