Sókndjörf Sunna Marie Einarsdóttir sækir hér að vörn Fram í leiknum í Safamýri í gærkvöldi.
Sókndjörf Sunna Marie Einarsdóttir sækir hér að vörn Fram í leiknum í Safamýri í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í SAFAMÝRI Benedikt Grétarsson bgretarssib@gmail.com Íslandsmeistarar Gróttu komust á topp Olís-deildar kvenna í handknattleik með stórsigri gegn Fram í Safamýri í gær.

Í SAFAMÝRI

Benedikt Grétarsson

bgretarssib@gmail.com

Íslandsmeistarar Gróttu komust á topp Olís-deildar kvenna í handknattleik með stórsigri gegn Fram í Safamýri í gær. Lokatölur urðu 19:31 í leik þar sem Grótta hafði mikla yfirburði frá upphafi til enda.

Efsta sæti Olís-deildarinnar var í boði fyrir sigurliðið og það var fljótlega ljóst að gestirnir frá Seltjarnarnesi voru ákveðnari í öllum sínum aðgerðum. Grótta komst mest átta mörkum yfir í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 7:14, Gróttu í vil.

Einhverjir bjartsýnir Framarar vonuðust eftir endurkomu sinna kvenna í seinni hálfleik en það var öðru nær. Íslandsmeistararnir sýndu á sér sparihliðarnar og gjörsamlega löbbuðu yfir lánlaust lið Fram. Grótta náði mest ótrúlegri 14 marka forystu en vann að lokum afskaplega sannfærandi og sanngjarnan tólf marka sigur, 19:31.

Hvergi veikur hlekkur í liði Íslandsmeistaranna

Hrósa verður Gróttukonum fyrir sinn leik. Vissulega henti liðið boltanum ansi oft frá sér í sókninni en krafturinn og ákveðnin voru algjörlega þeirra megin í gær. Sunna María Einarsdóttir fór fyrir Seltirningum í sókninni og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir lúskraði duglega á heimakonum í vörninni. Íris Björk Símonardóttir var að venju traust í markinu og átti fjölmargar gullsendingar á eldfljóta hornamenn Gróttu í hröðum upphlaupum.

„Ég kenndi henni þetta allt saman, enda var ég ansi frambærilegur markvörður á sínum tíma,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, brosandi eftir leik.

Hræðileg frammistaða Fram

Það er í raun fljótgert að meta frammistöðu Fram í þessum leik: Hörmuleg! Liðið hefur vissulega örlitla afsökun að ferðaþreyta hafi setið í mannskapnum en Fram lék í Evrópukeppninni á útivelli í Rúmeníu um helgina.

Það afsakar þó ekki andleysið sem einkenndi allar þeirra aðgerðir og margreyndar landsliðskonur litu út á köflum fyrir að vera nýbyrjaðar í faginu.

Reyndar hefur undirritaður sjaldan séð eins mörg stangar- og sláarskot hjá einu liði en Fram átti um 20 slík í gær. Maður býr sér til sína eigin heppni í íþróttum og það á kannski ágætlega við í þetta skipti.

Fram – Grótta 19:31

Íþróttahús Fram, Olís-deild kvenna, miðvikudaginn 18. nóvember 2015.

Gangur leiksins : 1:3, 3:4, 3:6, 4:10, 5:13, 7:14 , 8:16, 12:21, 13:23, 16:28, 19:31.

Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 5, Hildur Þorgeirsdóttir 4, Marthe Sördal 4, Hulda Dagsdóttir 2, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Hekla Rún Ámundadóttir 1, Ásta Birna Gunnarsdóttir 1.

Varin skot: Guðrún Ósk Maríasdóttir 10/2, Hafdís Lilja Torfadóttir 2.

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Gróttu : Sunna María Einarsdóttir 9/2, Unnur Ómarsdóttir 5/1, Laufey Ásta Guðmundsdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Anna Katrín Stefánsdóttir 3, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 3, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 2, Anett Köbli 1, Arndís María Erlingsdóttir 1.

Varin skot : Íris Björk Símonardóttir 12, Selma Þóra Jóhannsdóttir 1.

Utan vallar : 2 mínútur.

Dómarar : Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson.

Áhorfendur : 400.