Jólagjafir Íshús Hafnarfjarðar hefur ótalmargt fallegt handverk til sölu enda 27 skapandi vinnustofur í rýminu.
Jólagjafir Íshús Hafnarfjarðar hefur ótalmargt fallegt handverk til sölu enda 27 skapandi vinnustofur í rýminu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það stendur mikið til í Íshúsi Hafnarfjarðar um þessar mundir. Bæði er Íshúsið eins árs og svo verður opnaður þar jólamarkaður í aðdraganda jóla þar sem afrakstur hönnuða og handverksfólks Íshússins verður til sölu.

Það er mikil hátíð í vændum og í rauninni alveg magnað að heilt ár sé liðið,“ segir Ólafur Gunnar Sverrisson, sem ýmist er kallaður Óli eða „Kóngurinn“ í Íshúsinu. Hann er hugmyndasmiðurinn að baki Íshúsi Hafnarfjarðar og á, ásamt eiginkonu sinni Önnu Maríu Karlsdóttur, mestan heiður af því að nánast lífvana bygging við hafnarbakkann í Hafnarfirði er orðin að iðandi miðstöð skapandi einstaklinga. „Tíminn hefur bókstaflega flogið og mjög viðburðaríkt ár er að baki. Við finnum enn svo mjög fyrir allri jákvæðninni og meðbyrinn sem var með okkur í fyrrahaust er enn til staðar, enda hefur þróun og stækkun umfangs starfseminnar hjá Íshúsinu verið ótrúlega ör á undanförnum mánuðum. Við erum eiginlega hálfagndofa yfir því hvað þetta hefur gengið vel. En tíminn flýgur víst þegar það er gaman, og okkur Önnu grunaði ekki að við yrðum í þessum sporum á eins árs afmælinu. Þetta er svo langt umfram okkar villtustu væntingar,“ bætir Óli við.

Afmælisveisla og aðventugleði

Í tilefni af afmælinu verður Íshús Hafnarfjarðar opið upp á gátt helgina 21. og 22. nóvember. Reykjavík Roasters verður með kaffisölu, Vöffluvagninn verður til staðar á hlaðinu, tónlist leikin og svo verður opið inn í nýja rýmið sem var að bætast við starfsemi Íshússins. „Stækkunin hjá okkur hefur verið svo ör að fólk sem kom á opnunina hjá okkur í fyrra mun sjá allt annað og stærra Íshús í dag,“ bendir Óli á. „Eins og alltaf verður notaleg og kósí stemning í húsinu og allir sem hér hafa vinnuaðstöðu verða á staðnum til að taka á móti gestum, sýna og segja frá öllu því sem hér verður til.“

Það er greinilegt að þessi framtakssömu hjón hafa leyst eitthvað dásamlegt og lifandi úr læðingi því starfsemin hefur magnast upp nánast í hverjum mánuði frá því Íshúsið var opnað.

Íshús Hafnarfjarðar hefur iðulega opnað verslun sína fyrir gestum og viðskiptavinum alla fimmtudaga hvers mánaðar og þá er jafnan margt áhugasamra gesta. Á aðventunni verður bætt við afgreiðslutímann og þá verður opið á föstudögum frá kl. 18:00 til 22:00 og á laugardögum frá kl. 12:00 til 17:00.

„Þessi aukni afgreiðslutími er fyrst og fremst hugsaður til að kynna til leiks nýja rýmið hér í húsinu og aðaláherslan er því þar,“ útskýrir Óli. „Laugardaginn 5. desember ætlum við hins vegar að hafa opið inn á allar vinnustofurnar en annars er afgreiðslutíminn miðaður við nýja rýmið sem snýr, vel að merkja, út að fallegu smábátahöfninni.“

Eins og er jafnan með góðar hugmyndir þá veltir maður því óhjákvæmilega fyrir sér hvers vegna enginn hafði látið sér detta þessa nýtingu hússins í hug fyrr?

Tja, maður spyr sig.

„Í nýja rýminu erum við að koma fyrir fallegu jólatré og erum ennfremur að skipuleggja þar jólamarkað, við verðum með tónlistartengda viðburði á aðventunni og einnig má nefna sögusýningu um rafvæðinguna í Hafnarfirði. En fyrst og síðast er aðalatriðið notaleg stemning þar sem fólk getur fengið sér sæti, slakað á og hvílt lúin bein í jólaösinni. Og auðvitað er gráupplagt að kaupa hjá okkur fallegar jólagjafir um leið,“ segir Óli kíminn.

Verslun Íshússins loks opnuð

Í framhaldi af þessum hugleiðingum minnir Óli á að verslunin með allt handverkið sem verður til á vinnustofum Íshússins mun fá sinn varanlega stað í nýja rýminu sem Óli og félagar eru að opna. „Það verður óneitanlega stór áfangi, að verslunin fái loks almennilegt pláss undir sig og þá umgjörð sem henni hæfir, því þessi hluti starfseminnar hefur frá upphafi verið á svolitlum vergangi hér í húsinu, innan um allar vinnustofurnar.“ Það ætti að vera þakklátt framtak meðal gesta og viðskiptavina að allt handverkið sem verður til innan veggja Íshússins fái sinn sess.

Það er til marks um þörfina á skipulegri verslun og framsetningu handverksins sem þar verður til, að þegar Íshúsið var opnað 21. nóvember fyrir ári voru þar 12 skipulagðar vinnustofur fyrir skapandi fólk. Í dag eru vinnustofurnar 27 og enn sér ekki fyrir endann á vexti afmælisbarnsins. „Auk þess erum við að útvíkka starfsemina meira út í verslunar- og viðburðatengdan rekstur. Þetta er allt á flugi. Íshúsið okkar yndislega er bara á flugi,“ segir Kóngurinn í Íshúsinu.

Óli bendir að lokum á að Íshús Hafnarfjarðar verði í samstarfi við hið vinsæla Jólaþorp í Hafnarfirði sem starfrækt hefur verið á Thorsplaninu þar í bæ við miklar vinsældir. „Það verða sætaferðir úr Jólaþorpinu og yfir í Íshúsið alla laugardaga og sameiginleg dagskrá hjá okkur á föstudagskvöldum, en þá er ekki opið í Jólaþorpinu. Í staðinn verður þá dagskrá í Íshúsinu,“ bætir Kóngurinn í Íshúsinu við.

Þannig er það bara; það er alltaf líf í Íshúsi Hafnarfjarðar.

jonagnar@mbl.is