Skynsemi „Mín reynsla er sú að mér líður líka mun betur ef ég nota kókospálmasykur, lífrænt hunang, döðlur, stevíu eða lífrænt hlynsíróp sem sætu í staðinn fyrir hvítan sykur,“ segir Ebba Guðný Guðmundsdóttir, sjónvarpskokkur og matarbókahöfundur, sem skiptir út hráefni fyrir hollari valkost..
Skynsemi „Mín reynsla er sú að mér líður líka mun betur ef ég nota kókospálmasykur, lífrænt hunang, döðlur, stevíu eða lífrænt hlynsíróp sem sætu í staðinn fyrir hvítan sykur,“ segir Ebba Guðný Guðmundsdóttir, sjónvarpskokkur og matarbókahöfundur, sem skiptir út hráefni fyrir hollari valkost.. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ebba Guðný Guðmundsdóttir, sjónvarpskokkur og matarbókahöfundur, bakar gómsætar piparkökur úr úrvalshráefni þar sem hún styðst við gamla og góða uppskrift en skiptir meðal annars hveiti og hvítum sykri út fyrir spelt og kókospálmasykur.

Við fjölskyldan bökum engin ósköp fyrir jólin en piparkökurnar eru þó ómissandi og það er alltaf tilhlökkunarefni að setjast niður við kertaljós á aðventunni með vinum eða frændsystkinum og fletja út piparkökudeig, móta skemmtilegar fígúrur, baka, smakka, skreyta og loks smakka meira. Reyndar eru eiginlega allir orðnir saddir þegar síðustu kökurnar koma úr ofninum,“ segir Ebba Guðný Guðmundsdóttir heilsukokkur.

„Ég er með gamla, skothelda uppskrift að piparkökum á hollari nótum. Þar nota ég til dæmis spelt og kókospálmasykur í staðinn fyrir hveiti og hvítan sykur; kökurnar eru ofsalega góðar og klárast alltaf hratt heima hjá mér. Ég er útsmogin og sting strax góðum skammti af piparkökum í frysti, þannig að það sé eitthvað eftir þegar nær dregur jólum og kemur að því að börnin mín eiga að taka smákökur með í skólann.“

Bragðast betur

Ebba segir gráupplagt og sáraeinfalt að taka gamlar, vinsælar kökuuppskriftir og skipta út hráefni fyrir hollari valkost. „Í uppskriftum má alltaf taka út hvítt hveiti og nota í staðinn lífrænt mjöl, ég nota mest fínt spelt og bæti þá jafnvel smávegis af grófu spelti saman við. Sömuleiðis er snjallt að taka út smjörlíki og nota þess í stað smjör eða olíu og ég mæli til dæmis með lífrænni kókos-, sólblóma- eða ólífuolíu.

Í stað hvíts sykurs má nota lífrænan kókospálmasykur, palmyra jaggery, stevíu, hrásykur, hunang eða lífrænt hlynsíróp. Þá er líka yfirleitt hægt að minnka sykurmagnið talsvert í uppskriftum og ég geri það undantekningarlaust. Kökurnar verða ekki síðri heldur þvert á móti, þær bragðast miklu betur.

Mín reynsla er sú að mér líður líka mun betur ef ég nota kókospálmasykur, lífrænt hunang, döðlur, stevíu eða lífrænt hlynsíróp sem sætu í staðinn fyrir hvítan sykur. Sem dæmi má nefna að kókospálmasykur hefur mun minni áhrif á blóðsykurinn en hvítur sykur og stevía ruglar blóðsykurinn ekkert, auk þess sem hún inniheldur engar hitaeiningar. Best er auðvitað að neyta sætmetis í hófi og fá sér alltaf eitthvað hollt fyrst, þá borðar maður ósjálfrátt minna af hinu.“

Eftirréttir ömmu

Spurð út í jólin, hátíðarmatinn og hollustuna segist Ebba halda sínu striki á aðventunni og kaupa inn og elda eins og venjulega. „Mér og okkur hér heima líður best af einföldum, hreinum mat, hann er líka svo bragðgóður þannig að ég er ekkert að breyta út af venjunni þó að jólin nálgist. Á aðfangadagskvöld er auðvitað veislumatur og jólaboðsmaraþon dagana á eftir, og þá gilda önnur lögmál.

Reyndar elda ég óvanalega lítið yfir hátíðirnar, við erum oftast hjá foreldrum mínum í mat á jólunum og hjá tengdaforeldrunum á gamlárskvöld. Við hjónin eigum unga foreldra sem hafa gaman af því að bjóða heim og við græðum á því. Börnunum finnst líka enn skemmtilegra þegar við erum öll saman um jól og áramót. Mamma og pabbi hafa mjög oft lambahrygg í jólamatinn, en stundum bý ég líka til hnetusteik. Svo eru alltaf eftirréttirnir hennar ömmu Þóru; sítrónubúðingurinn og „góða kakan“, en hún minnir helst á stóra söru.“

White Christmas

Aðspurð kveðst hún reyna að njóta aðventunnar og jólanna. „Það verður samt að viðurkennast að ég er mikið sumarbarn, enda fædd um hásumar. Ég held að það sé í stjörnunum mínum að elska ilmandi gróður, sumar og sól. Svo er ég þar að auki léleg í búðarápi. Engu að síður finnst mér einlæglega gaman að upplifa jólin með börnunum mínum, með tilheyrandi gleði, spenningi og alls konar jólastússi í skólanum. Þeim fylgir svo skemmtileg og bráðsmitandi tilhlökkun í desember. Hér heima njótum við fjölskyldan þess að kúra við kertaljós, spjalla, lesa, og horfa á jólamyndir.

Ég er þakklát mömmu, pabba og bróður mínum fyrir að eiga eingöngu fallegar og skemmtilegar minningar frá æskujólunum. Ég kemst alltaf í mikið jólaskap þegar mamma og pabbi eru búin að hengja upp jólaskrautið, sem hefur fylgt þeim frá því að ég man eftir mér og örugglega lengur.

Annars hefjast jólin fyrir alvöru þegar börnin mín senda mig út í geymslu að sækja jólaskrautið. Við spilum jólatónlist og skreytum heimilið í sameiningu, eða réttara sagt; við byrjum saman að skreyta en svo endar það alltaf með því að ég klára ein. Ég á mikið af fallegu jólaskrauti frá ömmu Þóru sem er látin, og svo hef ég eins og margir safnað hinu og þessu í gegnum árin. Mér þykir vænt um jólaskrautið mitt og því fylgja ótalmargar góðar minningar. Í geymslunni er líka kassi með jólabíómyndum fjölskyldunar sem við horfum á um hver jól; meðal vinsælla titla má nefna Scrooge og White Christmas, við fáum aldrei nóg af þeim.“

beggo@mbl.is

Hvernig skipti ég út hráefnum?

1 dl hvítt hveiti verður 1 dl sigtað spelt.

1 dl hvítur sykur verður 1 dl kókospálmasykur, ¾ dl palmyra jaggery sykur, ¾ dl hrásykur, ¾ dl hlynsíróp (lífrænt) eða ¾ dl agave síróp.

1 dl smjörlíki verður 1 dl smjör eða ¾ dl sólblóma-, ólífu- eða kókosolía (kaldpressaðar).

Fyrir hver 100 g af mjöli (t.d. speltmjöli) þarf að nota 1 tsk. af vínsteinslyftidufti. Þannig má breyta nánast hvaða geruppskrift sem er og nota í staðinn vínsteinslyftiduft.

Piparkökur Ebbu

3 dl speltmjöl, gróft

4 dl speltmjöl, fínt

2 dl pálmasykur/palmyra jaggery/hrásykur/erýtrítol með stevíu, lífrænt (eða blanda af þessu)

2 tsk. engifer

4 tsk. kanill

2 tsk. negull

¼ tsk. pipar

3 tsk. vínsteinslyftiduft

180 g mjúkt smjör

0,75-1 dl mjólk að eigin vali (byrjið með 0,75)

1/2 dl hlynsíróp eða dökkt agave, lífrænt

½ dl volgt vatn ef þarf

Blandið þurrefnunum saman í skál, bætið við smjöri, mjólk, sírópi (og vatni) og hnoðið í deig. Bætið við vökva eða smjöri ef deigið er of þurrt, eða spelti ef það er of blautt.

Fletjið út deigið í smá pörtum, hæfilega þykkt. Stingið út kökur, raðið á bökunarpappír á ofnplötu og bakið við 180°C í um 10-12 mínútur.