11. júní 1988 | Innlendar fréttir | 180 orð

SÁÁ: Þórarinn Tyrfingsson formaður

SÁÁ: Þórarinn Tyrfingsson formaður ÞÓRARINN Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, var kjörinn formaður aðalstjórnar SÁÁ að loknum aðalfundi samtakanna á fimmtudagskvöld.

SÁÁ: Þórarinn Tyrfingsson formaður

ÞÓRARINN Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, var kjörinn formaður aðalstjórnar SÁÁ að loknum aðalfundi samtakanna á fimmtudagskvöld. Á fundinum höfðu stuðningsmenn Þórarins farið með sigur af hólmi í stjórnarkjöri en stuðningsmenn Ingimars H. Ingimarssonar arkitekts urðu undir. Þórarinn mun nú hætta störfum sem yfirlæknir.

Í gær var fundi stjórnarinnar framhaldið og var þá kjörin framkvæmdastjórn. Í henni eiga sæti Jón Magnússon lögmaður, Ingólfur Margeirsson ritstjóri, Kolbrún Jónsdóttir bankamaður og Óli Kr. Sigurðsson forstjóri auk formanns.

Nokkrar umræður urðu á aðalfundinum um fjárhagsörðugleika félagsins. Um síðustu áramót voru heildarskuldir þess um 127 milljónir króna og mikill halli á rekstrinum, sérstaklega á sjúkrastöðinni Vogi. Menn létu þó í ljós bjartsýni um að vel myndi ganga að rétta úr kútnum, og kom meðal annars fram að vanskil félagsins væru sáralítil, þar sem skuldum hefði verið skuldbreytt. Þá hefur staðan batnað nokkuð frá áramótum, að sögn nýkjörins formanns.

Þórarinn Tyrfingsson sagði í samtali við Morgunblaðið að þrátt fyrir að til kosningar hefði komið á fundinum vonaði hann að menn væru ekki að dragast í fylkingar innan félagsins.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.