Björk Þórarinsdóttir fæddist í Reykjavík 15. desember 1964. Hún varð bráðkvödd 17. desember 2015.
Foreldrar hennar eru Þórarinn Ingi Jónsson, f. 6. september 1935, og Björg H. Hjartardóttir, f. 8. mars 1937, d. 6. maí 2012. Systkini Bjarkar eru 1) Smári, f. 1955, m. Þórey Einarsdóttir, d. 2011, og 2) Rósa, f. 1956, m. Magnús Andrésson. Eiginmaður Bjarkar er Kristinn Einar Pétursson, eigandi og forstjóri Véltækni hf, f. 22. júní 1962. Foreldrar Pétur Jónsson, f. 11. september 1918, d. 4. desember 2003, og Sóley Svava Kristinsdóttir, f. 19. janúar 1928, d. 28. ágúst 2006. Systir Kristins sammæðra er a) María Anna Þorsteinsdóttir, f. 1954, systur samfeðra eru a) Sunneva Pétursdóttir, f. 1962, b) Steinunn Pétursdóttir, f. 1963.
Synir Bjarkar og Kristins eru 1) Alexander, f. 2. desember 1989, 2) Þröstur, f. 3. desember 1995.
Eftir nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð lauk Björk námi í Iðnrekstrarfræði frá Tækniskóla Íslands árið 1993. Árið 2001 lauk hún BS-námi í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst. Björk hóf nám í fötlunarfræði við Háskóla Íslands árið 2013 og var enn við nám er hún lést.
Ung fór Björk í sumarvinnu á hóteli í Tönsberg í Noregi og starfaði hún í tvö sumur. Björk starfaði hjá Jóhanni Helga & co 1994-1998 er hún höf stöf hjá Miðgarði, þjónustumiðstöð. Hún starfaði hjá Expó auglýsingastofu frá árinu 2004 eða þar til hún tók að sér störf fyrir Öryrkjabandalag Íslands árið 2013. Þar vann Björk við ýmis sérverkefni meðal annars við ímyndar- og markaðsmál auk þess að hafa umsjón með gerð auglýsingaherferða fyrir Öryrkjabandalagið.

Björk starfaði fyrir ADHD-samtökin allt frá árinu 2000 til dauðadags. Árið 2010 var Björk kosin formaður ADHD-samtakanna og gegndi því starfi til ársins 2014, hún var kjörin gjaldkeri samtakanna 2014 sem hún gegndi til ársloka sama ár.
Björk starfaði með ýmsum nefndum á vegum Öryrkjabandalags Íslands, svo sem nefnd um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, kjarahópi bandalagsins og nefnd um algilda hönnun. Þá sat hún í nefnd um endurskipulagningu bandalagsins.
Áhugamál Bjarkar voru meðal annars samvera með fjölskyldu og vinum, matargerð, útvist og ferðalög innanlands og utan.
Björk verður jarðsungin frá Lindakirkju í dag, 4. janúar 2016, og hefst athöfnin kl. 15.

Björk er dáin. Ekki í minni verstu martröð gæti ég upphugsað þessa setningu. Hún stenst engan veginn merkingarlega fyrir mér, því Björk var ætíð svo lifandi og  kvik að fáránlegt er að tengja hana við dauða.

Ég kynntist Björk fyrir 30 árum þegar hún varð kærasta Kristins bróður míns. Það fór ekki mikið fyrir henni líkamlega; hún var smávaxin og grönn, með stór blá augu og fallegt ljóst hár. Andlega  varð hún hins vegar fljótt fyrirferðarmikil í lífi okkar fjölskyldunnar. Það fyrsta sem ég tók eftir í fari hennar var hve opin hún var að tjá tilfinningar sínar til Kidda. Hún kallaði hann ástina sína og elskuna, svo allir heyrðu, sem var ekki vaninn í minni fjölskyldu.

Margur gæti verið sáttur við að kveðja þetta líf þó ekki hefði framkvæmt nema brot af því sem Björk tókst að koma í verk á sinni alltof stuttu ævi.  Í minningunni virðist sem aldrei hafi verið dauð stund hjá henni. Hún var alltaf að upphugsa eitthvað sem gæti gert lífið ánægjulegra fyrir sig og sína. Fyrstu árin eftir fæðingu drengjanna tveggja varði fjölskyldan nær öllum frístundum í ferðalög innanlands. Fyrst í fjögurra manna tjaldi sem smátt og smátt varð að stærðarinnar hjólhýsi.  Björk var meðvituð um að strákarnir ættu að fræðast um náttúru og sögu landsins og var alltaf bókasafn með í för, auk spila og annarra leiktóla.  Á um tíu ára tímabili var þeyst um landið á alls kyns íþróttamót fyrir strákana og  oft var farið í veiði.  Björk sá um allt skipulag og gætti þess að ekkert gleymdist sem ,,strákarnir hennar  þyrftu í þessum útilegum.  Þegar drengirnir  stálpuðust skipulagði Björk ferðalög út fyrir landsteinana og var hvergi bangin þótt farið væri á framandi slóðir eins og til Tælands, Afríku og Indlands. Ekki var alltaf gist á hótelum heldur fengu strákarnir líka  að upplifa erfðari aðstæður eins og tjaldútilegur og bakbokaburð.

Fyrir nokkrum árum ákvað fjölskyldan að draga úr flakkinu og keypti land og sumarbústað fyrir austan fjall sem hét í Hlíð. Þar átti fjölskyldan  sér griðastað í friði og ró þar sem hundarnir Gutti og Tryggur gátu leikið sér frjálsir úti í móa. Á liðnu ári hafði Björk látið teikna eftir eigin höfði stækkun á bústaðnum til þess að hún gæti tekið á móti fleiri vinum og fjölskyldu í gistingu og fengið rúmbetra eldhús til að töfra fram alls konar góðgæti fyrir  alla sem dvöldu í Hlíð. Ég á erfitt með að ímynda mér betri gestgjafa en Björk. Hún eldaði ótrúlega góðan mat og það sem meira er um vert var að hún mundi ávallt eftir sérþörfum allra, hvort heldur það var glútenlaust handa þessum,  grænmetisfæði  fyrir hinn eða engan ost ,,fyrir Kidda minn.

Ég held að henni hafi fundist fátt skemmtilegra en að skipuleggja góða veislu, hvort heldur var fyrir sjálfa sig eða aðra. Hún fann upp á einhverju sem kom öllum til að hlæja og sá um að öllum liði vel. Ég gat alltaf treyst Björk þegar veisluhöld voru hjá mér að hún kæmi vel  fyrir tímann og liti yfir sviðið og gætti þess að ekkert vantaði.  Ef svo var þá var hún snögg að bæta um betur. Ekki  gleymdi hún heldur  litlu atriðunum, sem miklu skipta, eins og fallegum borðskreytingum, að athuga hvort húsfreyjan  væri vel greidd og að börnin hefðu litabækur og liti og svæði fyrir sig væru þau með í veislunni.

Björk var mjög smekkvís og vissi  hvað var við hæfi við hvert tækifæri. Hún naut þess að klæða sig og aðra í fín föt og eiga fallegt heimili. Ég varð alltaf mjög montin þegar Björk hrósaði mér fyrir klæðaburð og útlit.

Þótt Björk nyti þess að vera  fyrirmyndarhúsmóðir, eiginkona og móðir var það henni ekki nóg.  Hún vildi líka vinna úti eins og nútímakona og stöðugt mennta sig meira.  Hún fylgdist vel með allri listsköpun, þó helst í leikhúsi, tónlist og bókmenntum og sá til þess að drengirnir lærðu að meta gildi listarinnar og þess sem fagurt er og gott. Hún var mikill lestrarhestur, las af ástríðu og átti til að gleyma sér við lesturinn. Ég á eftir að sakna þess mikið að skiptast á bókum við hana og ræða um verkin.

Björk var geysilega umhugað um að öllum í hennar nánustu fjölskyldu liði vel. Hún fylgdist með öllum börnum í allri fjölskyldunni, hvernig gengi í skólanum og einkalífinu og reyndi að finna lausnir gæti hún eitthvað hjálpað til. Hún hugsaði líka vel um foreldra sína og móður okkar Kidda. Hún gleymdi aldrei mæðradeginum.  Mér fannst  einnig alltaf sérstakt við Björk hvernig hún fór að því að finna jóla- og afmælisgjafir handa öllum í fjölskyldunni, gjafir sem maður vissi ekki að væru til en hafði not fyrir, eða þá að hún vissi að viðtakandinn myndi aldrei kaupa sér sjálfur, en gleddist yfir að fá að gjöf.  Ég get ekki  ímyndað mér að nokkur maður hafi þurft að skipta gjöf frá Björk.

Enginn veit hvað Björk hefði tekið sér fyrir hendur næstu árin hefði hún lifað, því hún var alltaf að fá nýjar og nýjar hugmyndir.  Í vor hafði hún ákveðið að fara ein í hópi kvenna og ganga Jakobsveginn,  íhuga og gefa sér tíma fyrir sjálfa sig. Ég hafði um daginn fundið hjá mér bókina fyrir hana að lesa, svo að hún gæti byrjað undirbúninginn. Björk fer því miður ekki þá ferð í þessu lífi.

Við Rúnar, börnin og barnabörnin eigum eftir að sakna Bjarkar ósegjanlega mikið. Ég er afar ósátt við veruleikann og fæ ekki séð tilgang með dauða Bjarkar.  Hins vegar minnir hann okkur á hverfulleika lífsins og mikilvægi þess að njóta hvers dags og samvistanna við þá sem við elskum. Og gleyma því ekki að segja þeim hversu mikils við metum þá meðan þeir eru lífs á meðal okkar.

Megi allir ástvinir Bjarkar hljóta styrk til að takast á við þessa miklu sorg. Minningin um hana lifir með okkur öllum.

María Anna Þorsteinsdóttir.