14. júní 1988 | Innlendar fréttir | 392 orð

Garðskagi: Mannvirki frá upphafi landnáms

Garðskagi: Mannvirki frá upphafi landnáms SKAGAGARÐUR á Suðurnesjum var hlaðinn úr torfi á fyrstu áratugum tíundu aldar, skömmu eftir að svonefnt landnámslag féll.

Garðskagi: Mannvirki frá upphafi landnáms

SKAGAGARÐUR á Suðurnesjum var hlaðinn úr torfi á fyrstu áratugum tíundu aldar, skömmu eftir að svonefnt landnámslag féll. Jarðfræðingarnir Guðrún Larsen og Haukur Jóhannesson komust að þessari niðurstöðu eftir að hafa grafið í garðinn fyrir skömmu.

Kauptúnið Garður dregur nafn sitt af þessum garði en fleiri garðar og minni eru í grenndinni. Í grein Kristjáns Eldjárn, sem birtist í Árbók Ferðafélagsins 1977, er talið líklegast að þetta hafi verið aðal varnargarður fyrir Garðskaga, "því túngarðarnir hafa tekið þar við báðum megin, sem hann náði ei til . . . er rúst hans svo stórkostleg, að vel getur garðurinn hafa verið mannheldur og gripheldur með öllu."

Að sögn Hauks Jóhannessonar mælist garðurinn nú 1500 metra langur, frá Útskálum að Kolbeins stöðum, og hefur náð meðalmanni í öxl fyrr á öldum. Er hæð hans í samræmi við ákvæði um garða í landbrigðaþætti Grágásar, lögbók þjóðveldisaldar. Þar segir einnig að menn skuli taka tvo mánuði ár hvert í garðhleðslu.

Garðurinn er stöllóttur að innanverðu en sléttur að utan, þannig að unnt hefur verið að reka fé útyfir hann án þess það kæmist inn aftur og hefir það líklega komið sér vel vegna akurreina innan garðsins. Ofan á Skagagarði er grjóthleðsla sem talin er jafn gömul torfgarðin um. Grafið var í garðinn á þrem stöðum með leyfi þjóðminjavarðar en sveitarfélagið lagði til gröfu.

Haukur segir að aldur garðsins megi greina all nákvæmlega út frá öskulögum sem sjást þegar grafið er gegnum hann. Ljóst sé að hann hafi verið reistur skömmu eftir að öskulag, kennt við landnám, féll í upphafi tíundu aldar. Svokallað miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.

Haukur kveðst hafa athugað forna garða víðar um landið og nefndi sem dæmi garð í Biskupstungum, sem er ívið yngri en Skaga garður, reistur rétt eftir 930. Að sögn Hauks eru stærstu garðarnir tólf til þrettán kílómetra langir.

Morgunblaðið/GÓI

Öskulög sýna að Skagagarður á Garðskaga hefur verið reistur á fyrstu áratugum landnáms. Jarðfræðingarnir Haukur Jóhannesson og Guðrún Larsen grófu nýlega gegnum garðinn á þremur stöðum sem merktir eru inn á kortið.

Morgunblaðið/BBl

Þessi mynd var tekin við kauptúnið Garð í vetur. Það sem merkjanlegt er af Skagagarði sést snjólaust fyrir miðri mynd.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.