Þorgils Björnsson fæddist í Ólafsvík 14. febrúar 1928. Hann lést af slysförum 17. febrúar 2016.

Foreldrar Þorgils voru Björn Jónsson sjómaður, f. 1. október 1888, d. 29. mars 1937, og Kristín Bjarnadóttir, húsmóðir, f. 17. júní 1892, d. 21. mars 1979. Systkini Þorgils eru öll látin, en þau eru Bjarndís Inga, f. 22.5. 1918, Fríða Jenný, f. 22.5. 1918, gift Kristjáni Jenssyni, látinn, Jón Valdimar, f. 6.5. 1920, giftur Björgu Viktoríu Guðmundsdóttur, látin, Helgi, f. 4.10. 1922, giftur Kristínu Petrínu Gunnarsdóttur, látin, Sigríður Guðrún, f. 28.10. 1925, gift Jóni S. Bjarklind, látinn, Kristbjörg Bára, f. 17.9. 1930, Birna, f. 27.1. 1936, gift Marísi M. Gilsfjörð.

Þorgils fæddist í Ólafsvík og ólst þar upp, var ókvæntur og barnlaus. Hann vann mestallan sinn starfsaldur hjá Vegagerðinni sem vélamaður.

Útför Þorgils fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 27. febrúar 2016, og hefst athöfnin kl. 14.

Hann Lilli frændi, maðurinn sem hefur verið okkur systkinunum sem afi. er fallinn frá. Við erum ákaflega þakklát fyrir allar skemmtilegu, góðu og fallegu minningarnar sem við eigum um þennan einstaka mann til að ylja okkur við. Við teljum okkur vera ríkari fyrir að hafa haft hann í lífi okkar.

Lilli frændi var hlédrægur, feiminn, þrjóskur, hlýr, sjálfum sér nógur, fróður og skemmtilegur. Hann hafði alltaf tíma fyrir okkur og fullt af þolinmæði enda eru ófáar samverustundirnar sem við áttum saman. Við strákarnir fórum margar skemmtilegar ferðir á bryggjuna að dorga. Við eyddum líka tímunum saman hjá honum að tálga byssur, sverð, báta og bara allt sem að okkur datt í hug. Lilli var einstaklega handlaginn og lék allt í höndunum á honum og við guttarnir fylgdumst með af mikilli aðdáun og lét hann allt eftir okkar. Hann var mikill dýravinur og hændust flest dýr að honum. Má þar nefna hundinn okkar hann Krumma sem ætlaði úr skinninu í hvert skipti sem Lilli kom. Lilli dekraði við Krumma á tá og fingri þegar hann var að passa hann og tók hann með sér hvert sem hann fór, og þá sérstaklega á rúntinn þar sem þeir félagarnir nutu sín saman. Hann var einstaklega fróður um dýr og var mikill fuglaáhugamaður og voru farnar margar ferðir með honum í kríuvarpið í Rifi til að skoða og fræðast um fuglana. Hann lagði kapp sitt á að kenna okkur allt sem hann vissi.

Það var einstaklega gaman að sitja með honum yfir góðum kaffibolla við eldhúsborðið hjá mömmu og pabba og ræða um lífið og tilveruna. Við hlustuðum með miklum áhuga á hann segja frá gamla tímanum og átti hann ótrúlega margar skemmtilegar, áhugaverðar og góðar sögur. Hann hlustaði einnig áhugasamur á okkur segja frá því hvað við værum að gera í lífinu og fékk reglulega fréttir af okkur í gegnum mömmu og pabba. Einnig var einstakt fyrir okkur að sjá hvað samband hans og mömmu var sterkt og voru þau góðir félagar í gegnum lífið.

Við systur fórum alltaf með mömmu ef við vorum heima og skreyttum fyrir jólin hjá Lilla frænda á Grundinni. Þá bakaði hann hveitikökurnar sínar góðu fyrir okkur sem við borðuðum með bestu lyst með hangikjöti og nutum þess að hlusta á jólatónlist og spjalla um allt milli himins og jarðar. Var þetta stór partur af jólahefðinni og þegar við vorum búnar að gera allt jólalegt og fínt hjá Lilla frænda máttu jólin koma. Öllum hátíðum vörðum við með Lilla frænda og var hann stór hluti af okkur fjölskyldunni. Við munum sakna þessara gæðastunda sem við áttum með honum.

Lilli frændi þú varst einstakur, við elskum þig og söknum þín.

Hvíldu í friði, elsku Lilli okkar. Systkinin,

Lea Hrund, Sif, Magnús

Darri og Gils Þorri.

Dýpsta sæla og sorgin þunga

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra mál ei talar tunga

tárin eru beggja orð.

(Ólöf Sigurðardóttir)

Þetta ljóð kom upp í hugann 17. febrúar þegar sonur minn hringdi og tjáði mér að Lilli frændi væri dáinn. Sama dag fékk ég þær gleðifréttir að dóttir mín ætti von á litlum dreng. Einn kemur þá annar fer. Já, það er stutt á milli dýpstu sælu og þungrar sorgar.

Frændurnir Atli og Lilli urðu samferða af Grundinni þennan dag, spjölluðu um daginn og veginn og Lilli hélt sína leið á bryggjufund þar sem hann naut þess að fylgjast með bryggjulífinu í Ólafsvík.

Enginn ræður sínum næturstað stendur einhvers staðar og við sorgarfréttir setur okkur hljóð.

Minningarnar þjóta fram og lífið á Grundinni verður ljóslifandi. Það að alast upp með ömmu og Lilla á efri hæð Grundarinnar var ómetanlegt og eins sá mikli samgangur sem var á milli hæðanna.

Ófáum stundum eyddi ég hjá þeim og eru minningarnar um dísætt mjólkurkaffi og harðar kringlur ljúfar og góðar sem og að hlusta á spjall þeirra bræðra, pabba og Lilla um Vegagerðina og fjárhúslífið. Þar voru línurnar lagðar með fjárstofninn og dagur á Fróðárheiði gerður upp.

Í Lilla herbergi las ég Moggann og Tímann, nánast á hverju kvöldi, Þjóðviljinn á neðri hæðinni var ekki eins skemmtilegur. Ég dáðist að módelsmíði hans, þar sem hann setti saman listilega vel hvert módelið af fætur öðru.

Ljósmyndir hans voru mér hugleiknar, hann var næmur ljósmyndari og átti um tíma gott safn ljósmynda. Það toppaði samt allt þegar okkur neðrihæðarbúum var boðið í „bíó“ þar sem hann renndi í myndum af lífi okkar í gegnum slidesmyndavélina. Það var ævintýri líkast.

Jólaboð fjölskyldnanna á Grund og á Vallholtinu voru einstök og batt okkur sterkum fjölskylduböndum. Þar lék Lilli frændi við hvurn sinn fingur, hló og gantaðist eins og hans var von og vísa.

Fjárbúskapur þeirra bræðra batt þá sterkum böndum, báðir einstaklega miklir dýravinir og sinntu sínu vel. Margar minningar á ég úr fjárhúsunum, sauðburðinum og hjallinum góða þar sem rifið var úr þorskhausi eða ýsuroði. Minnisstætt er mér þegar við vorum við heyskap á Sveinsstöðum þegar við fengum við að keyra bláa Moskvichinn hans Lilla um túnið, hann skellihlæjandi og glaður.

Samband pabba og Lilla var mjög sterkt, þeir unnu saman alla sína starfsævi hjá Vegagerðinni. Grallaraskapur og glettni einkenndi oft á tíðum samstarf vinnufélaganna og var Lilli þar enginn eftirbátur. Hann var einstaklega orðheppin, fljótur til svara, gáskafullur og stríðinn. Vinskapur starfsmanna Vegagerðarinnar var honum mikils virði, þar var mikil vinnugleði í ábyrgðarmiklum og oft erfiðum verkefnum.

Börnin mín nutu þess að alast upp með Lilla frænda og voru þá fjárhúsferðirnar vinsælar með þeim bræðrum.

Eftir að ég flutti suður hittumst við Lilli sjaldnar, en alltaf yfir kaffibolla á Grundinni þegar ég átti leið vestur.

Lilli var vinur vina sinna, sannur og trúr og var foreldrum mínum traustur vinur.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Minning þín lifir.

Sigurlaug.

Nú er komið að því að ég kveð vin minn og félaga til margra ára, hann Þorgils, eða Lilla á Grund eins og flestir kölluðu hann. Með honum er genginn einn af þessum gömlu Ólsurum sem sett hafa svip sinn á bæinn og verið hluti af samfélaginu okkar í langan tíma. Nú seinni árin eftir að Lilli hætti að vinna var hann gjarnan á ferðinni á bíl sínum og fór um til að fylgjast með bæjarlífinu og hitta félaga en hann fór nú ekki hratt yfir.

Lilla er ég búin að þekkja frá því ég var smápolli og var ég á þeim tíma oft að sniglast í Vélsmiðjunni Sindra. Lilli vann á vinnuvélum lengst af ævi sinnar hjá Vegagerð ríkisins og kom hann þá í smiðjuna til að fá viðgerð á vélunum sem hann vann á, ég var þá forvitinn að fylgjast með enda átti ég heima í húsinu við hliðina á smiðjunni. Árið 1957 var Lilli að vinna á jarðýtu við að ýta upp vegi við Húsanes í Breiðuvík. Hann var í mat og gistingu á Litla Kambi þar í sveit hjá þeim Sigurlaugu og Guðmundi, en ég var þetta sumar eins og mörg önnur þar sem vinnumaður, það sumar kynntist ég Lilla betur. Ég var gjarnan sendur rétt fyrir hádegi með mat og kaffi til hans. Þá fékk ég að taka í ýtuna hjá honum og þótti það ekki leiðinlegt og Lilli hló að mér. Þetta voru sælutímar hjá okkur þó að aldursbilið væri nokkurt og ég einungis 12 ára. Síðar, þegar ég var komin með bílpróf, vorum við mjög oft að vinna saman bæði við snjómokstur og í vegavinnu á sumrin. Þá var oft glatt á hjalla þegar hafst var við í vinnuskúrum heilu sumrin. Vinnuferðir okkar að vetri til við snjómokstur voru oft langar og vörðu heilu sólarhringana í einu, það var ekkert verið að gefast upp, slík var seiglan.

Seinni árin eftir að Lilli hætti að vinna kom hann mjög oft við hjá mér í vinnuskemmunni út á bökkum til að spjalla. Var þá farið inn í kompu þar sem hægt var að setjast og spjallað um gamla tíma og nýja. Við gátum rætt um vegakerfið fram og til baka og var vegurinn um Fróðárheiði okkar óskaleið. Lilli hafði frá mörgu að segja frá gamla tímanum og ekki síst hvað baráttan var hörð þegar faðir hans lést frá öllum barnahópnum og Kristín móðir þeirra stóð ein eftir með börnin. Þorgils bjó með móður sinni alla tíð meðan hún lifði, en eftir það bjó hann einn, en hafði stuðning frá systur sinni Birnu þar til hún flutti suður. Þá tóku við systrabörn hans, þau Kristín Björk og Ómar sem hafa verið honum allt.

Okkar vinátta hefur staðið í nær 60 ár og aldrei borið þar skugga á. Lilli var einstakur maður, fór ekki víða, aðeins til Reykjavíkur ef nauðsynlegt var. En svona er lífsins gangur, enginn er eilífur þó að allir hefðu viljað að brotthvarf hans hefði borið að með öðrum hætti. Kæri Lilli, hafðu þökk fyrir allar okkar samverustundir, þú varst sannur vinur.

Jón Eggertsson.