[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTASKÝRING Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Ólga er meðal starfsmanna Minjastofnunar Íslands út af áformum forsætisráðuneytisins að sameina stofnunina Þjóðminjasafninu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

FRÉTTASKÝRING

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Ólga er meðal starfsmanna Minjastofnunar Íslands út af áformum forsætisráðuneytisins að sameina stofnunina Þjóðminjasafninu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Lagafrumvarp forsætisráðuneytisins um sameininguna var samið án þátttöku fulltrúa stofnunarinnar í fjögurra manna stýrihópi sem settur var á fót í desember til að kanna fýsileika þess að stofnanirnar sameinuðust. Búst er við yfirlýsingu frá starfsfólkinu um málið eftir helgi.

Tíu prósent hagræðing

Helsta réttlæting þess að sameina stofnanirnar tvær er hagræðing og rekstrarsparnaður. Er vísað í fyrirheit í stjórnarsáttmálanum um aukna skilvirkni stjórnsýslunnar. Á vef forsætisráðuneytisins segir að stýrihópurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu „að óhætt sé að setja það fjárhagslega markmið með sameiningunni að nýrri stofnun takist að ná allt að 10% hagræðingu innan þriggja ára“. Ennfremur að með breytingunni „skapist tækifæri á að endurskipuleggja verkaskiptingu, ferla og skipulag verkefna“.

Samkvæmt frumvarpinu, sem er í umsagnarferli fram á mánudag, felur sameiningin í stórum dráttum í sér að til verður ný stofnun, Þjóðminjastofnun, sem tekur við núverandi verkefnum Þjóðminjasafns og Minjastofnunar. Hún mun hafa stjórnsýsluhlutverk. Þjóðminjasafnið verður áfram rekið sem höfuðsafn á vegum stofnunarinnar og um það gilda áfram sérlög. Öllu núverandi starfsfólki beggja stofnana verður boðið starf við hina nýju stofnun. Ráðherra verður heimilað að flytja forstöðumann annarrar stofnunarinnar í embætti forstöðumanns Þjóðminjastofnunar án auglýsingar. Starfsheitið verður þjóðminjavörður.

Húsafriðun til forsætisráðherra

Meðal þess sem vakið hefur athygli í tengslum við þessi áform er að flytja á eitt höfuðverkefni Minjastofnunar, friðlýsingu húsa, mannvirkja og samstæðu húsa, á skrifstofu forsætisráðherra. Alkunna er að þessi málaflokkur er sérstakt áhugaefni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hér er annars vegar um að ræða ráðgjöf við sveitarfélög um mótun verndarsvæða í byggð og gerð tillagna um að tiltekin svæði verði gerð að verndarsvæði. Hins vegar er um að ræða gerð tillagna um að tiltekin hús eða mannvirki verði friðlýst. Í rökstuðningi fyrir þessu í lagafrumvarpinu segir að tilefnið sé að ákvörðunarvald sé í báðum tilvikum á hendi ráðherra og „eingöngu lagður til flutningur á mótun þeirra tillagna sem umræddar ákvarðanir byggjast á“. Nauðsynlegt sé að skapa svigrúm til aukinnar stefnumótunar í málaflokknum af hálfu ráðherra hvað varðar friðlýsingu húsa og mannvirkja. Stefnumótun á þessu sviði hafi hingað til verið brotakennd og mikilvægt að úr því verði bætt.

Ólgan á Minjastofnun stafar ekki síst af óánægju með vinnubrögð í málinu. Capacent ráðgjöf hafði hvatt til þess að unnið yrði að sameiningunni í góðri samvinnu og sátt við starfsfólk, enda gæti annað sett faglegum ávinningi skorður.

Gæti orðið árekstur?

Fimmtán ár eru síðan safnahlutverk Þjóðminjasafnsins var aðskilið frá stjórnsýsluhlutverki þess. Var þá Fornleifavernd ríkisins stofnuð. Starfsemi hennar og Húsafriðunarnefndar var sameinuð þegar Minjastofnun tók til starfa fyrir þremur árum. Spurningar hafa vaknað um það hvort fyllilega sé tryggt í lagafrumvarpinu að ekki komi til árekstra á milli stjórnsýsluverkefna hinnar nýju Þjóðminjastofnunar og Þjóðminjasafnsins við endursameininguna. Bent er til dæmis á að Landsvirkjun, styrktaraðili Þjóðminjasafnsins, og fasteignafélagið, sem á nýtt varðveislusetur safnsins í Kópavogi, hafi þurft að lúta ákvörðunum Minjastofnunar í sambandi við skipulag og framkvæmdir. Hagsmunaárekstrar geta hugsanlega endurtekið sig á fleiri sviðum. Umræða næstu daga og vikna leiðir í ljós hvernig tekið verður á þessum þætti.