Miðherjar Jerome Hill sækir að körfu Tindastóls í gærkvöldi.
Miðherjar Jerome Hill sækir að körfu Tindastóls í gærkvöldi. — Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Keflavík Skúli B. Sigurðsson skulibsig@mbl.is „Bólan er bara sprungin,“ heyrðist hvað eftir annað í stúkunni hjá Keflvíkingum þegar heimamenn töpuðu gegn Tindastól á heimavelli sínum í gærkvöldi í Dominos-deild karla.

Í Keflavík

Skúli B. Sigurðsson

skulibsig@mbl.is

„Bólan er bara sprungin,“ heyrðist hvað eftir annað í stúkunni hjá Keflvíkingum þegar heimamenn töpuðu gegn Tindastól á heimavelli sínum í gærkvöldi í Dominos-deild karla. 82:86 var niðurstaða kvöldsins eftir æsispennandi lokamínútur leiksins.

Það blés nú ekki byrlega í segl Keflvíkinga framan af leik og þann varnarleik sem hefur plagað þá megnið af vetrinum nýttu gestirnir úr Skagafirði sér til fulls. Þegar best lét fyrir þá Tindastólsmenn leiddu þeir leikinn með 26 stigum og leikur Keflvíkinga í algeru þroti á báðum endum vallarins.

Keflvíkingar sýndu hins vegar gamla takta þegar leið á seinni hálfleik. Þá takta sem liðið sýndi fyrir brotthvarf Earl Brown. Þeir hættu aldrei að spila og komu sér aftur í leikinn með gríðarlegri seiglu. Tindastólsmenn geta engu öðru kennt um en sjálfum sér, þar sem þeir litu út fyrir að vera að verja þá forystu sem þeir höfðu komið sér í. Í stað þess að halda áfram að spila sinn leik hægðu þeir á leik sínum, sem einfaldlega hentaði þeim alls ekki. En sú djúpa hola sem Keflvíkingar höfðu grafið sig í var of djúp þegar lokaflautan gall.

Farið í sitthvora áttina

Bæði lið hafa tekið breytingum eftir þau Kanaskipti sem þau gerðu, en í sitthvora áttina. Tindastólsmenn gerðu vel að fá Myron Dempsey aftur, sem er þeim þekkt stærð og hörkuleikmaður, en varðandi veru Anthony Gurley er undrritaður örlítið undrandi, þar sem liðið er hlaðið hörkuleikmönnum sem geta vel skilað því sem hann skilaði í gær. Keflvíkingar geta reynt að sannfæra sig um það að Jerome Hill henti liðinu betur en forveri hans en staðreyndin er hins vegar sú að liðið hefur ekki sama sjarma á sér og þegar Brown var með því. Leikgleðin sem skein úr liðinu leik eftir leik virðist ekki vera til staðar og það var einmitt það sem hélt þessu liði á floti. Það er þá þeirra að afsanna undirritaðan og þeir þurfa að gera það fljótlega því það er stutt í úrslitakeppni og ef ekki á að fara illa enn eitt árið hjá þeim þar þurfa þeir að finna aftur þennan neista og leikgleði sem var.

„Það er nóg loft eftir í okkur,“ sagði Magnús Þór Gunnarsson, leikmaður Keflvíkinga, eftir leik spurður um sprungna blöðru. „Við gerðum vel hér í kvöld að halda þeim í 82 stigum og sigra í Keflavík,“ sagði Helgi Viggósson, leikmaður Tindastóls, við Morgunblaðið eftir leik.

Haukar komnir í gang

Haukar virðast vera komnir í gang fyrir alvöru í Dominos-deildinni og það rétt fyrir úrslitakeppni, en þeir komu mörgum á óvart í fyrra með því að komast í undanúrslit Íslandsmótsins. Haukar burstuðu Þór frá Þorlákshöfn 86:62 í Hafnarfirði í gærkvöldi og unnu þar með sinn fimmta sigur í deildinni í röð.

Þjálfarinn Ívar Ásgrímsson hefur í nægu að snúast þessa dagana, en hann er landsliðsþjálfari kvenna og nýkominn úr tveggja leikja verkefni með landsliðinu í undankeppni EM. Eftir erfiðan janúarmánuð á Ásvöllum er Ívar kominn með Haukaliðið á siglingu á heppilegum árstíma. Virðist liðið til alls líklegt í úrslitakeppninni ef fram heldur sem horfir. Haukar eru í 4. sæti deildarinnar en Þór í 6. sæti.

Brandon Mobley skoraði 32 stig og tók 9 fráköst fyrir Hauka. Hinn ungi Kári Jónsson er stöðugt að bæta við sinn leik. Hann skilaði 19 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Landsliðsmaðurinn Ragnar Nathanaelsson skoraði 17 stig, tók 12 fráköst og varði 3 skot fyrir Þór.

Keflavík – Tindastóll 82:86

TM-höllin, Dominos-deild karla, föstudag 26. febrúar 2016.

Gangur leiksins : 6:5, 14:18, 19:23, 24:31 , 26:32, 28:38, 32:49, 32:56 , 35:58, 41:64, 54:70, 60:73 , 65:75, 69:80, 77:83, 82:86 .

Keflavík : Jerome Hill 20/12 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 15/5 fráköst, Guðmundur Jónsson 14, Valur Orri Valsson 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Reggie Dupree 9/5 fráköst, Andrés Kristleifsson 7, Magnús Már Traustason 6/4 fráköst.

Fráköst : 24 í vörn, 10 í sókn.

Tindastóll : Darrel Keith Lewis 22/8 fráköst, Myron Dempsey 19/13 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 18, Pétur Rúnar Birgisson 12/5 stoðsendingar, Viðar Ágústsson 7/6 fráköst, Anthony Isaiah Gurley 4, Helgi Rafn Viggósson 4/11 fráköst.

Fráköst : 30 í vörn, 16 í sókn.

Haukar – Þór Þ. 86:62

TM-höllin, Dominos-deild karla, föstudag 26. febrúar 2016.

Gangur leiksins : 4:7, 5:13, 10:15, 19:18 , 27:20, 32:25, 34:31, 42:32 , 47:39, 50:39, 55:44, 62:46 , 69:48, 75:48, 81:55, 86:62 .

Haukar : Brandon Mobley 32/9 fráköst, Kári Jónsson 19/5 fráköst/5 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 12/8 fráköst, Haukur Óskarsson 10/7 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Kristinn Jónasson 6/5 fráköst, Kristinn Marinósson 3/7 fráköst, Emil Barja 2/6 stoðsendingar, Arnór Bjarki Ívarsson 2.

Fráköst : 33 í vörn, 12 í sókn.

Þór Þ.: Ragnar Ágúst Nathanaelsson 17/12 fráköst/3 varin skot, Vance Michael Hall 12/6 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 10/5 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 6, Ragnar Örn Bragason 6/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 4/5 fráköst, Magnús Breki Þórðason 3, Grétar Ingi Erlendsson 2, Benjamín Þorri Benjamínsson 2.

Fráköst: 27 í vörn, 11 í sókn.