Tímamótakosningar? Konur í Teheran bíða eftir strætisvagni í biðstöð sem skreytt er með auglýsingaspjöldum vegna kosninganna sem fóru fram í Íran í gær. Um 10% af 4.844 frambjóðendum í þingkosningunum eru konur.
Tímamótakosningar? Konur í Teheran bíða eftir strætisvagni í biðstöð sem skreytt er með auglýsingaspjöldum vegna kosninganna sem fóru fram í Íran í gær. Um 10% af 4.844 frambjóðendum í þingkosningunum eru konur. — AFP
Íranar gengu að kjörborði til að kjósa nýtt þing og áhrifamikið klerkaráð í gær, um mánuði eftir að samkomulag náðist við Bandaríkin og fleiri lönd í deilunni um kjarnorkuáætlun landsins.

Íranar gengu að kjörborði til að kjósa nýtt þing og áhrifamikið klerkaráð í gær, um mánuði eftir að samkomulag náðist við Bandaríkin og fleiri lönd í deilunni um kjarnorkuáætlun landsins. Hassan Rouhani, forseti Írans, og bandamenn hans úr röðum umbótasinna vona að kosningarnar marki þáttaskil í baráttu þeirra við afturhaldsöfl sem hafa ráðið lögum og lofum á þinginu.

Langar biðraðir voru enn við kjörstaðina þegar kosningunum átti að ljúka í gær og innanríkisráðuneytið ákvað því að framlengja þær um tvær klukkustundir. Talið var að mikil kjörsókn yki sigurlíkur umbótasinna og Rouhani forseti hvatti landsmenn til að nýta atkvæðisrétt sinn.

Völd forsetans eru takmörkuð og Ali Khamenei erkiklerkur er valdamesti maður landsins, æðsti yfirmaður dómstólanna, hersins, leyniþjónustunnar og ríkisfjölmiðlanna.

Mörgum meinað að bjóða sig fram

Verndarráðið svonefnda, sem Khamenei og þingið skipuðu, meinaði þúsundum manna að bjóða sig fram í kosningunum til þingsins og er talið að flestir þeirra sem var hafnað hafi komið úr röðum umbótasinna. Alls voru 4.884 í framboði og barist var um 290 þingsæti.

Aðeins 159 klerkar, um fimmtungur þeirra sem vildu bjóða sig fram, voru í framboði til Sérfræðingaráðsins, sem er skipað 88 klerkum. Það hefur eftirlit með störfum erkiklerksins og fær það hlutverk að velja eftirmann Khameneis, sem er 76 ára, þegar hann fellur frá.

Íbúar Írans eru 79 milljónir og eru um 60% þeirra undir þrítugu.