[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steingrímur Sigurgeirsson fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1966. Hann ólst upp í Reykjavík, fyrst í Hlíðunum en síðan í Árbæ og Vesturbænum.

Steingrímur Sigurgeirsson fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1966. Hann ólst upp í Reykjavík, fyrst í Hlíðunum en síðan í Árbæ og Vesturbænum.

„Ég var í Árbæjarskóla og Austurbæjarskóla þar til fjölskyldan flutti til Svíþjóðar 1976 þar sem pabbi var lektor í íslensku við háskólann í Uppsölum. Við fluttum heim 1982 og ég byrjaði í MH og varð stúdent 1986. Við bjuggum í Vesturbænum þar sem foreldrar mínir höfðu keypt hús er langafi minn byggði um aldamótin 1900, Brekku við Brekkustíg. Ég hef ávallt skilgreint mig sem Vesturbæing þótt ég hafi ekki búið þar síðustu árin, hann togar alltaf í mann.“

Steingrímur stundaði nám í þýsku og stjórnmálafræði við Trier-háskóla á bökkum Mosel-árinnar í Þýskalandi 1988-1990, varð BA í stjórnmálafræði við HÍ 1997 og Master of Public Administration (MPA), frá Harvard Kennedy School í Cambridge í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum árið 2002.

Vín og störf

Steingrímur er einn helsti vínsérfræðingur þjóðarinnar. „Ég fékk vínáhugann á Þýskalandsárunum og byrjaði með vikulega pistla í Morgunblaðinu, fyrst um vín og síðar mat og vín sem birtust í aldarfjórðung eða svo.“

Steingrímur stofnaði sælkerasíðuna Vínótekið – vinotek.is árið 2008 og hefur haldið henni úti síðan. Hann hefur skrifað þrjár bækur um vín: Heimur vínsins (2000), Vín – frá þrúgu í glas (2013) og Vín – umhverfis jörðina á 110 flöskum (2015).

Hver er uppáhaldsþrúgan? „Hin frábæra samsetning Cabernet og Merlot eins og hún birtist í Bordeaux, en svo hafa mörg önnur lönd tekið upp þessa blöndu með undraverðum árangri eins og í Kaliforníu. Af hvítu þá eru auðvitað flest bestu vínin úr Chardonnay en önnur þrúga sem hefur alltaf heillað mig er Albarino. Hún er spænsk og er mikið ræktuð í Galisíu á Norður-Spáni. Stórkostleg þrúga og vín.“

Steingrímur hóf starfsferil sinn á Morgunblaðinu. „Ég byrjaði sem sumarmaður á Mogga 1986 og ílengdist í starfi. Var þegar upp er staðið viðloðandi blaðið í tæpa tvo áratugi og skrifaði mest um stjórnmál og alþjóðamál.“ Hann var enn fremur fréttastjóri þar og leiðarahöfundur. Steingrímur var einnig fréttaritari fyrir Associated Press 1999-2001 og ritaði greiningar fyrir Jane's Intelligence Unit 2000-2002.

Eftir að Steingrímur hætti störfum hjá Morgunblaðinu var hann aðstoðarmaður menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, frá 2004 til 2009 og hefur síðan starfað sem ráðgjafi hjá Capacent á sviði stjórnunar og stefnumótunar frá 2010 og var einnig markaðsstjóri Capacent til 2012.

Steingrímur hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum. Meðal annars í stjórn SUS, Sambands ungra sjálfstæðismanna 1991-1993, hann var framkvæmdastjóri NUU, Nordiska Ungkonservativa Unionen1993-1994, formaður undirbúningsnefndar vegna þátttöku Íslands sem heiðursgests á bókasýningunni í Frankfurt 2008-2009, sat í skólanefnd MH 2009-2013, var fulltrúi í Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar 2008-2009 og formaður Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 2010-2012.

Áhugamál Steingríms fyrir utan vín og matargerð eru lestur bóka og hjólreiðar. „Ég les mikið, bókmenntir, reyfara og um alþjóðamál. Ég hef hjólað mikið frá því að ég var unglingur, hef stundað hjólreiðarnar mismikið í gegnum tíðna en bara verið nokkuð öflugur síðustu árin.“

Fjölskylda

Eiginkona er María Guðmundsdóttir, f. 23.1. 1966, viðskiptafræðingur og vinnur hjá Promennt. Foreldrar hennar: Guðmundur Knútur Egilsson, f. 15.10. 1928, og k.h. Hervör Guðjónsdóttir, 27.1. 1931.

Börn Steingríms og Maríu: Helga Sigríður, f. 23.2. 1994, Ragnheiður Rannveig, f. 8.7. 1998, og Brynhildur Birna, f. 19.9. 2007.

Systkini Steingríms: Gunnur Sif Sigurgeirsdóttir, f. 21.5. 1968, hundaræktandi, Solveig Ýr Sigurgeirsdóttir, f. 23.9. 1973, tölvunarverkfræðingur, og Embla Sigurgeirsdóttir, f. 21.10. 1978, keramikhönnuður.

Foreldrar Steingríms: Sigurgeir Steingrímsson, f. 2.10. 1943, cand.mag. og fv. sérfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar. og k.h. Helga Gunnarsdóttir, f. 15.10. 1943, d. 16.5. 1991, tónlistarfræðingur. Núverandi eiginkona Sigurgeirs er Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur í Mosfellsbæ